Land er takmörkuð auðlind

Á næsta ári fagnar Skipulagsstofnun 70 ára afmæli og hyggst stofnunin minnast tímamótanna með ýmsum hætti. Aukin nýting lands í þéttbýli og dreifbýli, ásamt vaxandi kröfum um náttúru- og umhverfisvernd, kallar á öfluga þekkingarmiðstöð á borð við Skipulagsstofnun sem miðlað getur upplýsingum og veitt ráðgjöf til ríkis, sveitarfélaga og almennings.

Skipulagsstofnun heyrir undir umhverfisráðherra og starfar samkvæmt skipulags- og byggingarlögum og lögum um mat á umhverfisáhrifum og lögum um umhverfismat áætlana. Stofnunin gefur út leiðbeiningar, veitir ráðgjöf, umsagnir og stendur að fundum og þróunarvinnu á sviði skipulags- og byggingarmála, sem og umhverfismats. Aðsetur Skipulagsstofnunar er á Laugavegi 166 í Reykjavík og eru starfsmenn liðlega 20 talsins. Helstu viðskiptavinir stofnunarinnar eru sveitarfélögin í landinu og almenningur.

Stefán Thors segir mikilvægt að Skipulagsstofnun fái tækifæri til að starfa að þróunarverkefnum sem nýtist sveitarfélögunum í þeirra vinnu.Breyttar áherslur
Skipulagsstjóri fer með stjórn Skipulagsstofnunar og frá árinu 1985 hefur Stefán Thors sinnt því embætti. Hann segir starfsemi stofnunar hafa tekið miklum breytingum undanfarinn rúman áratug. „Starfsemin er enn í stöðugri mótun en í fyrra tóku til að mynda gildi ný lög um umhverfismat áætlana sem kalla á breytt og bætt vinnubrögð við skipulagsgerð sveitarfélaga og gerð framkvæmdaáætlana. Í fyrra voru einnig send út til umsagnar frumvörp til nýrra skipulagslaga og laga um mannvirki en áformað er að þau taki gildi í ársbyrjun 2009. Það má því búast við einhverjum áherslubreytingum í kjölfar gildistöku þeirra,“ segir Stefán.

Skipulagsstjóri
Á næsta ári verða liðin 10 ár frá því að núgildandi skipulags- og byggingarlög tóku gildi og 15 ár frá því fyrstu lög um mat á umhverfisáhrifum voru sett á Íslandi. Stefán segir að samhliða gildistöku skipulags- og byggingarlaganna 1998 hafi álag á starfsmenn Skipulagsstofnunar aukist en þá voru gerðar verulegar breytingar á verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga og ábyrgð og vald í skipulagsmálum fært í auknum mæli til sveitarfélaganna. Auknar kröfur voru um gerð skipulagsáætlana og Skipuagsstofnun falin ýmis afgreiðsluverkefni sem áður voru á borði skipulagsstjórnar ríkisins. „Það er vaxandi krafa í þjóðfélaginu að skipulagsmál séu almennt í lagi en við afgreiðum nú að jafnaði um 40 mál í hverri viku. Þar er t.d. um að ræða aðalskipulagsáætlanir til staðfestingar umhverfisráðherra og deiliskipulagsáætlanir til yfirferðar varðandi form og innihald. Þetta finnst mér of mikill málafjöldi þar sem fyrir vikið hefur stofnunin minni tíma en ég hefði kosið í ráðgjöf, leiðbeiningar og rannsóknir. Mín framtíðarsýn er því að málum fækki, að rannsóknir verði vaxandi þáttur í starfinu og Skipulagsstofnun verði alhliða miðstöð þekkingar er snýr að skipulagi og umhverfismati. Í því skyni þurfum við jafnframt að hafa tíma og tækifæri til að fylgjast vel með erlendum rannsóknum er snúa að skipulagsmálum og koma öllum helstu upplýsingum til þeirra er málið varðar hér á landi,“ segir Stefán.

Skipulagsstofnun skiptist í þrjú svið: Skipulags- og byggingarsvið, umhverfissvið og þjónustusvið. Skipulags- og byggingarsvið fer með megin verkefni og hlutverk stofnunarinnar samkvæmt skipulags- og byggingarlögum en umhverfissvið samkvæmt lögum um mat á umhverfisáhrifum. Þjónustusvið annast ýmsa stoðstarfsemi við önnur svið og stofnunina í heild, þ.á m. lögfræðiráðgjöf.

Virðing fyrir umhverfinu
Skipulagsstofnun hefur sett sér það meginhlutverk að stuðla að því að ákvarðanir um landnotkun séu teknar heildstætt og lýðræðislega og með hagsmuni almennings og sjálfbæra þróun að leiðarljósi. Stefán segir töluvert skorta á að Íslendingar beri viðhlýtandi virðingu fyrir umhverfinu. „Undirbúningur verkefna er oft ekki nægilega góður. Stundum er ruðst af stað með framkæmdir í fljótfærni og þá jafnvel þess ekki gætt að þær framkvæmdir falli vel að því sem þegar hefur verið framkvæmt. Til að forðast slíkt þurfum við að horfa á hlutina heildrænt og með virðingu fyrir umhverfinu. Ég vil að farið verði með land sem takmarkaða auðlind og stigið verði varlega til jarðar í framkvæmdum og þá með tilliti til umhverfisins, bæði þess sem er náttúrulegt og þess sem er manngert,“ segir Stefán.

 

Áfangasigur
Á næsta ári eiga öll íslensk sveitarfélög að hafa lokið gerð aðalskipulags en þar setja sveitarfélögin fram stefnu sína um landnotkun, byggðaþróun, byggðamynstur, samgöngu- og þjónustukerfi og umhverfismál til minnst 12 ára. Hlutverk Skipulagsstofnunar varðandi aðalskipulag er að leiðabeina og aðstoða sveitarfélögin við aðalskipulagsgerð, allt frá því ákvörðun um að hefja aðalskipulagsgerð er tekin og þar til endanlegt aðalskipulag er afgreitt. „Flest sveitarfélög munu hafa náð því markmiði að ljúka gerð aðalskipulags á næsta ári og verður það mjög stórt skref í skipulagsmálum þjóðarinnar. Líklegt verður þó að telja að nokkur smærri sveitarfélög, þar sem lítið er um að vera í skipulagsmálum, nái ekki að ljúka gerð aðalskipulags á tilsettum tíma en mikilvægt er að þau hraði vinnu sinni sem kostur er. Samkvæmt lögum ber svo að endurskoða aðalskipulag allra sveitarfélaga á fjögurra ára fresti,“ segir Stefán.

Picture 1290Umhverfismat
Fyrstu lög um mat á umhverfisáhrifum voru sett árið 1993 en þau lög voru endurskoðuð árið 2000 og 2005. Lögunum er ætlað að tryggja að umhverfisáhrif framkvæmda, sem kunna að hafa umtalsverð umhverfisáhrif í för með sér, hafi verið metin áður en leyfi er veitt fyrir þeim. Matinu er einnig ætlað draga eins og kostur er úr neikvæðum umhverfisáhrifum framkvæmda og stuðla að samvinnu þeirra aðila sem hafa hagsmuna að gæta eða láta sig málið varða. Markmið laganna er jafnframt að umhverfisáhrif framkvæmda verði kynnt fyrir almenningi og stuðla að því að almenningur geti komið að athugasemdum og upplýsingum áður en álit Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum liggur fyrir.

Hlutverk Skipulagsstofnunar er varða lög um mat á umhverfisáhrifum er að gefa álit á því hvort matsskýrsla framkvæmdaraðila uppfylli skilyrði laga og þar kemur einnig fram niðurstaða Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum. Í álitinu, sem kynnt er í dagblöðum og á netinu, er ekki tekin afstaða til þess hvort fallast beri á eða leggjast gegn tiltekinni framkvæmd, eins og gert var áður.

Mynd01Afmælisárið
Næsta ár, 2008, verður fyrir ýmsar sakir tímamótaár hjá Skipulagsstofnun. Auk þess að þá verða liðin 15 ár frá gildistöku fyrstu laga um mat á umhverfisáhrifum og 10 ár frá gildistöku nýrra skipulags- og byggingarlaga þá verða liðin 70 ár frá því grunnur var lagður að starfi Skipulagsstofnunar. „Með breytingu á skipulagslögum árið 1938 var skipulagsnefndinni, sem fram að þeim tíma hafði sjálf unnið að skipulagsgerð, veitt heimild til að ráða húsameistara og ráðunaut í heilbrigðismálum sér til aðstoðar. Ráðning Harðar Bjarnasonar arkitekts til skipulagsnefndarinnar árið 1938 markar því upphaf þeirrar stofnunar sem síðar varð embætti skipulagsstjóra ríkisins og Skipulagsstofnun árið 1998,“ segir Stefán

Skipulagsvefsjá
Afmælisársins verður minnst með ýmsum hætti, til að mynda með opnun skipulagsvefsjár en þar verða aðal- og deiliskipulagsáætlanir sveitarfélaga tengdar við loftmyndagrunn af öllu landinu. „Megin tilgangurinn er að veita almenningi og sveitarfélögum gleggri upplýsingar er varða skipulag og þá án endurgjalds. Skipulagsvefsjáin verður í áföngum byggð upp þannig að þar verði hægt að nálgast upplýsingar um stöðu aðalskipulags í hverju sveitarfélagi og hægt að skoða allar samþykktar deiliskipulagsáætlanir,“ segir Stefán.

Skipulagssagan á prent
Á næsta ári mun Skipulagsstofnun byrja að búa sig undir gerð fyrirhugaðrar landsskipulagsáætlunar á vegum umhverfisráðherra og stofnunin mun jafnframt stuðla að því að Saga skipulags á Íslandi  verði gefin út. „Haraldur Sigurðsson, sagnfræðingur og skipulagsfræðingur, hefur á undanförnum árum unnið að ritun skipulagssögunnar en verkið er í framhaldi af ritverki Páls Líndal um skipulag á Íslandi sem kom út fyrir um 20 árum. Verk Páls náði fram til ársins 1918 og þar hefst verk Haraldar en það mun ná til ársins 1978. Að auki verður stiklað á stóru fram til dagsins í dag,“ segir Stefán.

Fleira áherslur verða í starfi Skipulagsstofnunar í tilefni afmælisársins svo sem að standa fyrir málþingum um skipulag og umhverfismat, auk þess sem ársfundur norrænna skipulagsyfirvalda verður haldinn á Íslandi á næsta ári.

Stefán Thors skipulagsstjóri segir mjög mikilvægt að Skipulagsstofnun fái tækifæri til að starfa að þróunarverkefnum sem nýtist sveitarfélögunum í þeirra vinnu og jafnframt að stuðla að því að ákveðin festa verði í þessum málaflokki sem varðar svo marga. „Skipulagsdeilur hafa verið áberandi í fjölmiðlum undanfarin ár en þær deilur hafa einkum snúið að sveitarfélögum en ekki Skipulagsstofnun. Við erum og eigum að vera óháðir fagaðilar sem ber að fara yfir mál og meta á faglegum forsendum samkvæmt þeim lögum og reglum sem við störfum eftir. Deilur um skipulag munu alltaf blossa upp öðru hvoru en það er mín ósk að umræðan um skipulagsmál verði viðvarandi og þá á jákvæðum nótum. Til að svo megi verða er mikilvægt að sveitarfélögin nái samhljóm og stefnumörkun innan sveitarfélaga verði skýr í stórum dráttum. Með þeim hætti er hægt að komast hjá að skipulagi verði umbylt eftir hverjar kosningar með tilheyrandi óánægju og átökum,“ segir Stefán Thors skipulagsstjóri.