Leikskólabörn vígja dvalarsvæði í Viðey

Leikskólabörn vígja nýtt fræðslu- og dvalarsvæði í Viðey

Þriðjudaginn 15. maí 2018 hefjast reglubundnar siglingar alla daga út í Viðey, samkvæmt sumaráætlun Viðeyjarferju. Í tilefni dagsins verður elstu deild á leikskólanum Klömbrum í Reykjavík, boðið út í Viðey þar sem þau hljóta fræðslu frá safninu og vígja nýtt fræðslu- og dvalarsvæði með leik og söng eins og börnum einum er lagið. Börnin taka ferjuna klukkan 11:15.

Borgarsögusafn Reykjavíkur hefur á liðnum árum byggt upp aðstöðu og þjónustu fyrir gesti í Viðey og í vor verður nýjum áfanga fagnað, þegar fræðslu og dvalarsvæði í Viðey verður tekið í notkun. Um er að ræða svæði bak við Viðeyjarstofu, þar er gamalt hesthús sem gengið hefur í endurnýjun lífdaga og mun nú geta hýst gesti og gangandi, sem og útivistarsvæði með grillaðstöðu og leikvelli, ásamt fræðsluskiltum. Svæðið er hannað með tilliti til hins viðkvæma umhverfis Viðeyjar, náttúru og sögu og með vísan í menningu þessa merka staðar og hliðsjón af lögum og reglum sem gilda um náttúru- og menningarminjastaði á borð við Viðey. Allt miðar þetta að því að bæta aðstöðu og þjónustu fyrir gesti Viðeyjar, hvort heldur um er að ræða þá sem koma á eigin vegum, eða hópa sem kjósa að fara út í Viðey og njóta þess sem áfangastaðurinn hefur upp á að bjóða.

Viðey er ein af helstu perlum Reykjavíkurborgar og vinsæll áfangastaður meðal heimamanna og gesta borgarinnar. Meðal þess sem gerir Viðey að einstökum áfangastað er óspillt náttúran sem þar er að finna; fuglalíf, fjaran og gróður. Í eyjunni eru einnig að finna Friðarsúlu Yoko Ono og Áfanga eftir Richard Serra, en bæði eru þau heimsþekktir listamenn. Þá er ótalin öll sú saga sem Viðey geymir; minjar um landnám og Viðeyjarklaustur, búsetu á 19. öld, þorpið og útgerðina í austur hluta eyjarinnar, sem stóð uppi fram á 20. öld. Að ógleymdu elsta húsi Reykjavíkurborgar, sjálfri Viðeyjarstofu frá tímum Skúla Magnússonar og Viðeyjarkirkju, sem bæði standa og eru í rekstri á vegum Borgarsögusafns Reykjavíkur.

Gjald í ferjuna fram og til baka er 1.550 kr. fyrir fullorðna, 1.450 kr. fyrir eldri borgara og 775 kr. fyrir börn 7 – 17 ára í fylgd fullorðinna. Börn 6 ára og yngri sigla frítt.
Við minnum á að handhafar Menningarkorts Reykjavíkur fá 10% afslátt í Viðeyjarferjuna og handhafar Gestakortsins sigla frítt.