Magnús Jónsson 1887-1958

“Magnús Jónsson fæddist að Hvammi í Norðurárdal 26. nóvember 1887, sonur Jóns Ólafs prests þar Magnússonar og konu hans, Steinunnar Guðrúnar Þorsteinsdóttur bónda í Úthlíð í Biskupstungum Þorsteinssonar. Hann fluttist barnungur með foreldrum sínum norður til Skagafjarðar og ólst þar upp á Mælifelli og síðar á Ríp. Ungur var hann settur til mennta, lauk stúdentsprófi 1907 og guðfræðiprófi við prestaskólann 1911. Hann þjónaði Tjaldbúðarsöfnuði í Winnipeg síðari hluta árs 1911, var prestur Garða- og Þingvallasafnaða í Norður-Dakota í Bandaríkjunum 1912–1915, en fluttist þá heim til Íslands og var prestur á Ísafirði 1915–1917. Árið 1917 var hann skipaður dósent við guðfræðideild Háskóla Íslands, varð prófessor í guðfræðideild 1928, var atvinnumálaráðherra um átta mánaða skeið á árinu 1942, en gegndi síðan kennslustörfum við guðfræðideildina á ný til ársins 1947, er hann var skipaður formaður fjárhagsráðs, sem þá var sett á stofn. Gegndi hann þeim störfum til ársins 1953, er fjárhagsráð var lagt niður, en lausn frá prófessorsembætti hafði hann fengið á árinu 1952. Síðustu ár ævinnar fékkst hann við ritstörf og sinnti öðrum hugðarefnum sínum.

Hér hefur verið rakinn embættisferill Magnúsar Jónssonar, en jafnframt embætti sínu gegndi hann einatt fjölþættum störfum á öðrum sviðum. Hann var bæjarfulltrúi á Ísafirði 1915–1917, þingmaður Reykvíkinga 1921–1946, sat á 32 þingum alls, var yfirskoðunarmaður landsreikninga 1923–1925 og 1932–1937. Hann átti sæti í Grænlandsnefnd 1925, í milliþinganefnd í bankamálum 1925–1926, í alþingishátíðarnefnd 1926–1930, í bankaráði Landsbankans 1927–1928 og 1930–1957, var formaður þess 1946–1957, Í dansk-íslenzkri ráðgjafarnefnd átti hann sæti frá 1935 og þar til hún var lögð niður, í milliþinganefnd í skattamálum árin 1938–1939, í orðunefnd 1939–1942, í útvarpsráði 1942–1956, formaður þess 1945–1946 og 1953–1956. Hann átti sæti í skólanefnd barnaskóla á Ísafirði og í Reykjavík, var í skólaráði verzlunarskólans og tónlistarskólans. Í félagsmálum vann hann mikið starf, var í stjórn Prestafélags Íslands, Sögufélagsins, Listvinafélags Íslands og Skagfirðingafélagsins og átti lengi sæti í miðstjórn Sjálfstæðisflokksins. Hann var ritstjóri Eimreiðarinnar 1918–1923, Iðunnar 1923–1926, Stefnis 1929–1934 og Kirkjuritsins 1940–1948 og 1954–1955. Hann var kjörinn heiðursdoktor í guðfræði við háskólann í Tartu í Eistlandi árið 1932.

Ráða má af því, sem hér hefur verið sagt, að Magnús Jónsson hafi verið með afbrigðum fjölhæfur og afkastamikill maður. En þó er ekki allt talið. Hann var mikill áhugamaður um tónlist og málaralist og stundaði listmálun í tómstundum með góðum árangri, Hann kunni góð skil á sögu kristninnar og sögu Íslendinga og samdi og gaf út fjölmörg rit um guðfræði, íslenzk fræði og stjórnmál. Á Alþingi munu kirkjumál og menntamál hafa staðið hug hans næst, en hann sinnti auk þess mikið fjármálum, Má geta þess til dæmis um víðtæka þekkingu hans og afskipti af margvíslegum málum, að á Alþingi átti hann eitt sinn sæti í þeim nefndum, er fjölluðu um fjármál, sjávarútvegsmál, iðnaðarmál, menntamál og utanríkismál.

Magnús Jónsson var aðsópsmikill og skörulegur í ræðustóli, baráttumaður í stjórnmálum, mælskur vel og blandaði mál sitt oft góðlátlegri kímni. Hann þótti góður kennimaður og kennari, og naut sín þar vel þekking hans og frásagnargáfa. Hann var snjall rithöfundur og eyddi síðustu starfskröftum sínum í að semja mikið rit um sögu Íslendinga á landshöfðingjatímabilinu.”

http://atom.skagafjordur.is/index.php/magnus-jonsson-1887-1958