Málþing – Listasafn Einars Jónssonar

Málþing 29. október
Um þessar mundir eru 100 ár frá því að hornsteinn var lagður að Listasafni Einars Jónssonar. Í tilefni þessa stendur safnið fyrir málþingi laugardaginn 29. október. Málþingið hefst kl. 14.
Erindi flytja Benedikt Hjartarson, prófessor í bókmenntafræði, og Ólafur Rastrick, lektor í þjóðfræði. Benedikt fjallar um þann hugmyndaheim sem verk Einars eru sprottin úr en Ólafur fjallar um safnhúsið og hugmyndina um menningarmiðju á Skólavörðuholtinu.scan-080604-0003

Dagskrá:

Sigríður Melrós Ólafsdóttir safnstjóri býður gesti velkomna.

Dr. Benedikt Hjartarson
„Ljósmóðir hugsjóna vorra og lífssanninda: Um Einar Jónsson, evrópskan symbólisma og leitina að íslenskri nútímalist.“

Dr. Ólafur Rastrick
„Hnitbjörg í (menningar-)landslagi Skólavörðuholts.“

Léttar veitingar.

Nánar:
Benedikt Hjartarson er prófessor í almennri bókmenntafræði við Háskóla Íslands. Hann hefur í skrifum sínum fjallað mikið um listir og menningu um daga Einars Jónssonar.
 Í erindi sínu fjallar hann um hvernig Einar Jónsson var upphafinn í skrifum menntamanna sem holdgervingur kröftugrar íslenskrar nútímalistar og verkum hans teflt gegn þeirri ógn sem steðja þótti að íslenskri menningu með tilkomu alþjóðlegra framúrstefnuhreyfinga. Sérstaklega verður sjónum beint að rótum verka Einars í hefð evrópska symbólismans og hvernig íslenskir menntamenn horfðu gjarnan til hennar sem uppsprettu kröftugrar og heilbrigðrar listar í takt við hinn nýja tíma.

Ólafur Rastrick er lektor í þjóðfræði við Háskóla Íslands. Hann er höfundur bókarinnar Háborgin : menning, fagurfræði og pólitík í upphafi tuttugustu aldar sem kom út hjá Háskólaútgáfunni 2013.
Hann mun í erindi sínu leggja út af merkingarmyndun sem tengist safnhúsinu og umhverfi þess á Skólavörðuholtinu frá því að það var á teikniborðinu, sem og opnun safnsins, Háborgarhugmyndina, Camp Skipton og eftirstríðsárin auk Hallgrímskirkju. Þá mun hann velta upp spurningunni um hvernig staðsetning og umdeildur arkitektúr Hnitbjarga, Listasafns Einars Jónssonar, gengur inn í samhengi mismunandi skipulagshugsjóna, táknlega stöðu Skólavörðuholtsins og hversdagslegan veruleika í næsta nágrenni við bygginguna.

Kveðja,
Sigríður Melrós Ólafsdóttir
Safnstjóri / Director
Listasafn Einars Jónssonar
Sími/Tel: +354 8983913
[email protected]
www.lej.is
https://www.lej.is/