MIDBORGARPOSTURINN MENNINGARNOTT 2017

MIDBORGARPOSTURINN MENNINGARNOTT 2017

Lesa allar greinar í blaði Skoða PDF skrá

Listvinahúsið er elsta leiristasmið- ja landsins, stofnað árið 1927 af listamanninum Guðmundi Einarsyni frá Miðdal. Var Listvinahúsið fyrst staðsett á Skólavörðuholtinu en árið 1964 fluttist það að Skólavörðustíg 43, þar sem það er enn þann dag í dag.

Til að byrja með var leirinn sem notaður var í Listvinahúsinu íslenskur. Var hann m.a. fenginn úr Búðardal og af Reykjanesinu. Til að hægt væri að nýta leirinn til framleiðslu leirmuna þurfti að taka hann í gegnum leirvél, sem fyrst um sinn var staðsett í Listvinahúsinu á Skólavörðuholtinu. Í kringum 1948 var leirvinnslan flutti sunnan megin í Öskjuhlíðina, þar sem notaðar voru danskar leirvinnsluvélar sem þar höfðu verið settar niður. Íslenski leirinn var notaður í Listvinahúsinu til 1964, eða allt þar til farið var að flytja inn leir.

Ýmsar tegundir glerunga hafa í gegnum tíðina verið notaðir í Listvinahúsinu. Fyrst um sinn var Greiner glerungur fluttur inn frá Þýskalandi og notaður á leirmunina. Á árunum 1930-1950 var notaður glerungur frá Englandi sem hét Blyth Color Works. Síðar var notaður danskur glerungur frá M.O. Knudsen og loks Degussa glerungur frá Þýskalandi

Hægt er að skipta leirmunum Listvinahússins í tvennt. Annars vegar voru útbúnir hlutir úr mótum (þrykktir) og hins vegar renndir munir. Þrykktu hlutirnir voru m.a. styttur hverskonar; t.d. spendýr og fuglar, auk kertastjaka, öskubakka, o.þ.h

Renndu munirnir voru t.d. skálar, vasar og krukkur. Voru þeir hlutir gjarnan útskornir og skreyttir á ýmsan hátt, t.d. með íslenskum steinum. Í dag eru leirmunirnir enn renndir á snúningsskífum í Listvinahúsinu, en hætt var að nota mótin sirka 1980. Ekki eru til sölu í Listvinahúsinu í dag gamlir leirmunir. Hins vegar er vel hægt að hafa samband, eða koma við, og fá ráðleggingar um gamla muni, hvort sem það er vegna viðgerða eða annars. Allir leirmunir Listvinahússins í dag eru handgerðir og þar með einstakir. Þeir eru af ýmsun toga. Sumir eru útskornir, aðrir eru með hrauni, margir eru holir svo hægt sé að setja kerti inní þá. Má þar m.a. nefna víkinga og ljós. Í Listvinahúsinu er að finna handgerða muni úr fyrsta flokks hráefnum. Mikill metnaður er lagður í hvert smáatriði og þannig fást einstakir módelsmíðaðir leirmunir.

Fyrsti leirbrennsluofninn í Listvinahúsinu kom til Íslands 1930. Hann var kolakynntur. Rafmagnsofn var svo byggður árið 1940. Ofninn var smíðaður á staðnum og var hann gólffastur. Ofnarnir sem í dag eru notaðir í Listvinahúsinu eru tveir Podmore ofnar sem keyptir voru 1975

Fjöldi manns hefur starfað í Listvinahúsinu í gegnum tíðina. Auk Guðmundar frá Miðdal vann Lydia Pálsdóttir eiginkona hans í Listvinahúsinu. Hún hafði lært leirkerasmíði í Þýskalandi áður en hún kom til Íslands. Auk þess að renna leirmuni skar hún út og málaði. Ýmsir aðrir unnu í Listvinahúsinu, ýmist sem leirkerasmiðir, lærlingar eða aðstoðarfólk. Má þar m.a. nefna Svein Einarsson, bróðir Guðmundar, Baldur Ásgeirsson, Ragnar Kjartansson og Einar, son Guðmundar. Fjöldi annarra komu að leirmunagerðinni og afgreiðslu í Listvinahúsinu.

Árið 1955 tók sonur Guðmundar, Einar, við fyrirtækinu. Hann breytti eftir það nokkuð um stíl; vasar og aðrir hlutir urðu nútímalegri í lagi og lit. Á árunum 1971 til 1975 lærði sonur Einars, Guðmundur, til leirkerasmiðs og keypti svo af föður sínum fyrirtækið árið 2004 – eftir að hafa unnið þar samhliða föður sínum í mörg ár. Samfellt frá stofnun hefur fyrirtækið verið starfandi og má því með sanni segja að Listvinahúsið sé elsta listasmiðja landsins. Allt frá stofnun hefur sama fjölskyldan rekið fyrirtækið, í beinan karllegg, í þrjár kynslóðir