Námskeið – Listleikni: Einskismannsland

Námskeið – Listleikni: Einskismannsland
Laugardaga 8.-29. september kl. 11-13.00
Listleikni: Einskismannsland er námskeið sem tengist samnefndri sýningu sem nú stendur yfir á Kjarvalsstöðum og í Hafnarhúsi. Þar er skoðuð birtingarmynd hálendisins í íslenskri listasögu og samtímalist.

lakagígar/ craters by Laki. Án ártals/ years unknow.
Finnur Jónsson 1992-1993. Gígar við Laka. Craters by Laki. án ártals, years unknow
Finnur Jónsson 1992-1993. Gígar við Laka. Craters by Laki. 1936

Erindi halda:
Ólöf Kristín Sigurðardóttir safnstjóri
Tinna Gunnarsdóttir vöruhönnuður
Guja Dögg Hauksdóttir arkitekt
Ari Trausti Guðmundsson jarðfræðingur, rithöfundur, fjölmiðlamaður og alþingismaður
Ómar Ragnarsson fjölmiðlamaður og umhverfissinni
Markús Þór Andrésson sýningarstjóri

Námskeiðið er haldið fjóra laugardaga, 8., 15., 22. og 29. september kl. 11-13.00.

8. september
Kjarvalsstaðir
Farið verður yfir þátt frumkvöðla á sviði listmálunar og ljósmyndunar í því að birta almenningi fyrstu myndir af fáförnum stöðum á öræfunum um og upp úr aldamótunum 1900. Námskeiðið hefst á því að Ólöf Kristín Sigurðardóttir, safnstjóri Listasafns Reykjavíkur, leiðir fólk um sýninguna á Kjarvalsstöðum og fjallar um málverkið og þá fyrstu kynslóð málara sem opna augu almennings fyrir hálendinu. Einnig verður fjallað um fyrstu myndirnar sem voru teknar á hálendinu en ljósmyndarar voru fyrstir að fanga hálendi Íslands á myndflöt.

15. september
Kjarvalsstaðir
Fjallað verður um hvernig listsköpun, hönnun og byggingarlist tekst á við ósnortna náttúru með auknu aðgengi og kröfu samtímans um þjónustu við ferðafólk. Í þessu samhengi mun Tinna Gunnarsdóttir, vöruhönnuður, fjalla um hönnun í ósnortinni náttúru og Guja Dögg Hauksdóttir, arkitekt, fjallar um byggingarlist.

 

Guðmundur Einarsson frá Miðdal. 1895-1963. Hrímþoka á fjöllum. Ice Mist in the montains.

22. september
Kjarvalsstaðir
Tækniframfarir og auðveldari ferðamáti opnaði fólki nýja sýn á landið fram eftir 20. öldinni. Fjallaferðir urðu algengari fólki til heilsubótar og það má segja að á níunda áratugnum hafi orðið hálfgerð bylting í ferðamennsku upp á hálendi. Ásamt því að fjalla um eigin upplifun af hálendinu mun Ari Trausti Guðmundsson, jarðfræðingur, tala um fjallaferðir listamannsins og fjallagarpsins Guðmundar Einarssonar frá Miðdal en hann skrifaði meðal annars leiðarvísa um það hvernig ætti að haga sér á fjöllum. Ómar Ragnarsson, fjölmiðlamaður, mun fjalla um sitt framlag í að færa stórbrotnar hreyfimyndir af hálendi Íslands inn í stofur landsmanna allt frá sjöunda áratugnum áratugnum, m.a. í sjónvarpsþáttunum Stiklur.

29. september
Hafnarhús
Síðasti hluti námskeiðsins fer fram í Hafnarhúsi og hefst á leiðsögn um sýninguna. Markús Þór Andrésson, sýningarstjóri, fjallar um það tímabil þar sem landslagið og hálendið verður aftur að viðfangsefni í myndlist og út frá því verður saga náttúruverndarbaráttu skoðuð með tilliti til aðkomu myndlistarmanna.

Námskeiðsgjald er 12.000 kr.

Greiða þarf námskeiðsgjaldið fyrir 3. september til að staðfesta þátttöku.

Námskeiðið er niðurgreitt af flestum stéttarfélögum. Námsmenn, eldri borgarar og öryrkjar fá afslátt ásamt handhöfum Árskorts Listasafns Reykjavíkur og Menningarkorts Reykjavíkur.

Listasafn Reykjavíkur stendur fyrir fjölda viðburða og námskeiða í Hafnarhúsi, Ásmundarsafni og á Kjarvalsstöðum. Eins og síðasta vetur verður nú í haust boðið upp á námskeið undir heitinu Listleikni. Þar er lögð áhersla á að skoða afmarkað svið myndlistar með ítarlegri hætti en gert er á almennum leiðsögnum safnsins.

Skráning á námskeið