NÝSTÁRLEGT ELDGOS

 – Sólheimajökull

 

Þá sást nýstárlegt eldgos í fjalli, sem nefnist Sólheimajökull, kringum árið 1580. Steig eigi aðeins upp úr því reykur, heldur sást einnig neistaflug, sem náði allt út á sundið milli Vestmannaeyja og lands. Að vísu gerði dagsljósið og sólskinið sjálft neistaflugið ógreinilegt, þegar það varð, en við sólsetur mátti greinilega sjá eldgosið, sem var svo feiknalegt, að stór björg þeyttust á haf út. Og þótt furðulegt sé, heyrðust dunurnar og dynkirnir eins og drunur frá öflugustu fallbyssuskotum í fjarlægustu landshlutum, þ.e. á norðanverðu og vestanverðu landinu, en þeir, sem bjuggu í nánd við fjallið, urðu þeirra alls ekki varir.


Sérstaka furðu mína vekur þá það, að hjarnsköflum þessara fjalla var rutt burtu með slíkum hraða, að þeir bráðnuðu ekki, heldur þeyttust niður á nærliggjandi jarðir ásamt hvers kyns aur og sora, enda þótt þeir hefðu blandazt þessum glóandi efnum neðan úr undirdjúpunum. Íslandslýsing Odds Einarssonar.

Oddur Einarsson (31. ágúst 1559 – 28. desember 1630) var biskup í Skálholti frá 1589. Hann var elsti sonur séra Einars Sigurðssonar, prests og sálmaskálds í Nesi í Aðaldal, og fyrri konu hans, Margrétar Helgadóttur. Oddi er eignuð Íslandslýsing (Qualiscunque descriptio Islandiae) sem fannst í byrjun 20. aldar í ríkisbókasafni Hamborgar. Vitað var að hann skrifaði slíka lýsingu og að hún var til í handriti í safni Árna Magnússonar, en hún var talin glötuð þar til Jakob Benediktsson færði rök fyrir því að þessi tiltekni texti væri eftir Odd. Sveinn Pálsson þýddi textann á íslensku og fyrir útgáfu 1971. Ástæða þess að ritið kom aldrei út á prenti á sínum tíma hefur líklega verið sú að Brevis Commentarius Arngríms lærða kom út árið 1597, en tilgangur Íslandslýsingar Odds var hliðstæður tilgangi Arngríms.