Óperuhús í Kópavogi

Hugmyndir að byggingu óperuhúss í Kópavogi komu fyrst fram í grein sem Gunnar I. Birgisson bæjarstjóri skrifaði í bæjarmálablaðið Voga í júní 2005. Þar var lagt til að væntanlegt óperuhús yrði staðsett á túninu sunnan listasafns Gerðar Helgadóttur og vestan Salarins og Bókasafnsins. Málið var tekið fyrir á fundi bæjarstjórnar Kópavogs og ákveðið að ráðast skyldi í þá framkvæmd að byggja slíkt hús.

Markmiðið með óperuhúsinu er að það verði heimili fyrir óperuna á Íslandi og að þar verði fyrsta flokks aðstaða til óperu-og söngleikjaflutnings auk hliðstæðrar starfsemi, s.s tónleika og annarrar sviðslistar eða uppákoma. Ákveðið var að efna til hönnunnarsamkeppni um byggingu óperuhúss. Gert er ráð fyrir að framkvæmdakostnaður nemi um það bil 2,5 milljörðum króna og að húsið verði risið árið 2011. Þremur íslenskum arkitektastofum var boðið að taka þátt í samkeppninni. Skilyrt var að þær fengju til liðs við sig erlenda samstarfsaðila sem hefðu reynslu af hönnun óperuhúsa eða sambærilegra mannvirkja.

Listatorg í hjarta Kópavogsbæjar

Í keppnislýsingunni var óperuhúsinu ætlaður staður við Borgarholt á svæði sunnan og vestan við Gerðarsafn, Tónlistarhús og Safnahús og gætu húsin þannig myndað fullmótað listatorg í hjarta Kópavogsbæjar. Áformað var að húsin gætu síðan tengst um inntorg og var óskað eftir að keppendur tækju tillit til þess við hönnun óperuhússins. Yfirlýst markmið samkeppninnar var að fá snjallar og raunhæfar tillögur að íslensku mannvirki sem félli vel að umhverfinu og nærliggjandi húsum. Óperuhúsið þyrfti að taka tillit til viðkvæmrar myndar hæðarinnar þar sem kirkjan væri í öndvegi. Húsið þyrfti einnig að vera hagkvæmt í byggingu og rekstri og við mat tillagna yrði tekið tillit til þeirra þátta.
Dómnefndin hefur nú farið yfir þær tillögur sem bárust frá þessum þremur arkitektastofum. Dómnefndinni þótti engin þessara tillagna uppfylla markmið keppninnar nægjanlega til að unnt yrði að velja eina þeirra til útfærslu. Tveimur keppendum var hins vegar gefinn kostur á að vinna tillögur sínar áfram í framhaldskeppni. Þótt dómnefndin mæti það svo að engin tillagnanna uppfyllti með fullnægjandi hætti markmið samkeppninnar taldi hún þær allar vera metnaðarfullar, ólíkar og fjölbreyttar og bera með sér að í þær hefði verið lögð vinna og metnaður. Eins og fram hefur komið þótti dómnefndinni koma fram áhugaverðar lausnir í tveimur tillögum. Önnur tillagan er frá ALARK arkitektum og hin frá Arkþingi ehf. Dómnefndin taldi að í þeim lægju hugmyndir sem með áframhaldandi vinnu gætu fullnægt markmiðum keppninnar. Var ákveðið að leita samstarfs við þessa tvo höfunda um þátttöku í framhaldskeppni og hafa þeir fallist á að taka þátt í slíkri keppni. Henni á að ljúka á hér um bil tveimur mánuðum. Gunnar I. Birgisson bæjarstjóri er vongóður um að óperuhúsið rísi í Kópavogi. ,,Ég reikna með því að ríkið gangi til liðs við okkur,“ segir hann. ,,Verkefnið verður fjármagnað af Kópavogsbæ, Íslensku óperunni og einkaaðilum, sem hafa lofað verulegum framlögum, en þar að auki er ég búinn að ræða óformlega við menntamálaráðherra og forsætisráðherra og hafa þau tekið þessari málaleitan vel. Íslenska óperan mun svo annast reksturinn á starfseminni eftir að húsið er risið.“