Óslitin taug– tengsl Hull og Íslands

Óslitin taug– tengsl Hull og Íslands í gegnum tíðina er yfirskrift málþings sem haldið verður í Sjóminjasafninu í Reykjavík föstudaginn 24. febrúar kl. 11-13. Málþingið fer fram á ensku en fyrirlesarar eru sagnfræðingarnir Jo Byrne frá Háskólanum í Hull, Guðmundur J. Guðmundsson og Flosi Þorgeirsson frá Háskóla Íslands.

Tilefni málþingsins er samstarf Sjóminjasafnsins í Reykjavík og systursafns þess í Hull og dagskrá sem söfnin standa saman að um þessar mundir, en þess má geta að Hull er menningarborg Englands árið 2017. Hluti þeirrar dagskrár er heimsókn gesta frá Hull, m.a. fyrrum sjómanna sem munu hitta íslenska starfsbræður sína frá Landhelgisgæslu Íslands, en allir tóku þeir þátt í þorskastríðinu. Farið verður um borð í varðskipið Óðin sem liggur við festar við Sjóminjasafnið í Reykjavík. Við það tækifæri munu fara fram táknræn skipti á skipsbjöllum, þar sem Hollvinasamtök Óðins lána eina af bjöllum skipsins til Hull og þiggja að láni bjöllu úr togaranum Arctic Corsair, sem varðveittur er á Sjóminjasafninu í Hull.

Sjóminjasafnið í Hull vinnur nú að nýrri sýningu sem nefnist Sameiginlegur andstæðingur (A Common Foe) sem varpa mun ljósi á sameiginlega sögu þjóðanna tveggja með áherslu á það sem tengir þær fremur en sundrar. Ein meginuppstaða þeirrar sýningar eru viðtöl við umrædda sjómenn sem tekin verða upp í Óðni. Sýningin verður opnuð í Hull í júlí 2017 og lýkur í september sama ár.

Aðgangur á málþingið er ókeypis og allir velkomnir.

Kynningarmynd: Mars 1956, mynd samsett úr tveimur myndum eftir Óskar Gíslason. Breskur togari, St. Crispin frá Hull á strandstað skammt austan við Kúðafljótsós í Meðallandsfjöru 15. mars 1956. Björgunarsveitin í Meðalland bjargaði öllum 20 skipverjum togarans í land.