Anton Vasiliev sendiherra Rússlands á Íslandi

„Rússar vinna ötullega að málefnum norðurslóða“

Anton Vasiliev sendiherra Rússlands á Íslandi:

„Rússar vinna ötullega að málefnum norðurslóða“

„Ég kann vel við mig á Íslandi og líkar vel við íslensku þjóðina. Vissulega eru uppi tímabundin vandamál í samskiptum Íslands og Rússlands. Ég vona þó að skynsemin nái yfirhöndinni og að okkur takist að finna lausnir á þessum málum,“ segir Anton Vasiliev sendiherra Rússlands á Íslandi þar sem við hittum hann í sendiherrabústaðnum við Túngötu í Reykjavík. Vasiliev hefur gegnt stöðu sendiherra hér á landi síðan í apríl 2014. Hann þekkti þó mjög vel til Íslands áður en hann gerðist sendiherra. Í ársbyrjun 2008 hafði Vasiliev verið skipaður sendiherra Rússlands í málefnum norðurslóða. „Þar með varð ég einnig fulltrúi Rússlands í Heimsskautaráðinu (Arctic Council) og Barentsráðinu. Ég kom iðulega til Íslands í embættiserindum, kynntist landi og þjóð og leist vel á.“

Hefur starfað á umbrotatímum

Anton Vasiliev er afslappaður og vingjarnlegur í allri framkomu. Eftir stutt spjall við þennan rúmlega sextuga fulltrúa Rússlands á Íslandi þarf engum þó að dyljast að þarna fer afar hæfur og reynslumikill maður. Rússnesk stjórnvöld hafa greinilega vandað valið þegar ákvörðun var tekin um að Vasilev yrði sendiherra á Íslandi. Ferill hans er glæsilegur. „Ég fæddist í Moskvu,“ segir Vasiliev og bætir við að hann hafi lagt stund á nám í alþjóðasamskiptum við Alþjóðamálaháskóla Moskvu (Moscow State University of International Relations) með alþjóðahagfræði sem sérgrein. Því lauk hann 22 ára gamall 1976. „Ég lærði líka kínversku, frönsku og ensku. Síðan hélt ég til Kína. Þar starfaði ég innan sovésku viðskiptasendinefndarinnar í Peking. Þetta var í lok tímabils menningarbyltingarinnar svokölluðu í Kína. Ég sneri svo heim til Rússlands og lauk doktorsnámi mínu í hagfræði 1983 þar sem ég rannsakaði kínversk efnahagsmál. Eftir að sneri ég aftur til Kína og hóf þar sjö ára tímabil sem diplómati í sendiráði Sovétríkjanna.“

Anton Vasiliev sendiherra Rússlands á Íslandi og Magnús Thor Hafsteinsson ritstjóri og fyrverandi Alþingismaður
Anton Vasilev sendiherra Rússlands á Íslandi ásamt sendiherrum annarra ríkja hér á landi um borð í rússneska seglskipinu „Kruzenstern” í Reykjavíkurhöfn á þjóðhátíðardegi Rússlands 10. júní 2015.
Á ráðherrafundi Heimskautaráðsins 15. maí 2013 sem haldið var í Kiruna í Svíþjóð.

Rússneski sendiherrann hefur lifað sannkallaða umbrotatíma. Hann fæddist aðeins réttu ári eftir andlát Jósefs Stalín 1953 og lifði til fullorðinsára í hinu kommúníska samfélagi Sovétríkjanna sem flestir töldu komið til að vera. Allt átti þó eftir að breytast. „Þegar ég kom aftur heim til Rússlands eftir þessi sjö ár í Kína þá voru Sovétríkin ekki lengur til. Ég sneri aftur til Kína og nú sem sendifulltrúi í sendiráði Rússlands. Mitt starf var einkum að fylgjast með kínverska hagkerfinu. Ég ferðaðist um allt þetta mikilfenglega land og lærði margt. Siðmenning Kína er meðal þeirra merkilegustu í heimi. Ég er þakklátur að hafa fengið tækifæri til að kynnast Kína. Þarna varð ég vitni að stórkostlegum breytingum á kínversku samfélagi í kjölfar efnahagsumbótanna sem ákveðnar voru 1979 og mörkuðu lok menningarbyltingarinnar.“

Allir sendiherrar Heimskautaráðsins samankomnir nákvæmlega á punkti Norðurpólsins 10. apríl 2013.
Ásamt Jóni Agli Egilssyni sendiherra um borð í norska rannóknaskipinu „Lance” við Svalbarða í ágúst 2008.

Afvopnum og norðurslóðir

Vasiliev segir að hann hafi í það heila búið 13 ár í Kína og líkað afar vel. „Dvölin þar var lærdómsrík og einstök reynsla.“ Hann flutti aftur heim til Rússlands 1996 þar sem honum voru falin ný og gerólík verkefni frá því sem hafði fengist við í Kína. „Næsta áratuginn starfaði ég fyrir rússneska utanríkisráðuneytið og á vettvangi Sameinuðu þjóðanna við vopnaeftirlit og afvopnun. Ég var formaður rússnesku sendinefndarinnar í Genf í Sviss um framkvæmd START  afvopnunarsamningsins. Með honum höfðu fyrrum ríki Sovétríkjanna samið 1991 við Bandaríkin og NATO um að draga úr vígbúnaði kjarnorkuvopna í lok kalda stríðsins. Þetta var mjög krefjandi en jafnframt gefandi.“ Á árabilinu 2002–2007 starfaði Vasiliev síðan í marghliða vopnaeftirlits- og afvopnunarmálum sem fulltrúi Rússlands á afvopnunarráðstefnunni í Genf.

With the UN Secretary General Kofi Anan aðalritari Sameinuðu þjóðanna og Anton Vasiliev á ráðstefnu um afvopnunarmál í Gefn í Sviss. Myndin var tekin í júní 2006.

Anton Vasiliev heldur ræðu á þingi Sameinuðu þjóðanna í New York í október 2006.

Enn á ný söðlaði Vasilev síðan um í störfum sínum þegar hann tókst á við nýtt verkefni. Það gerðist þegar hann tók 2008 við stöðu sendiherra Rússlands í málefnum norðurslóða. „Reynsla mín úr viðræðum við alþjóðaaðila og alþjóðlegum samningaviðræðum bæði frá árunum í Kína og í vopnaeftirlitinu reyndist mér afar gagnleg á þessu sviði. Ég kann því vel að starfa á norðurslóðum. Náttúruskilyrðin og fólkið sem byggir þessi svæði heillar mig. Aðstæðurnar eru sérstakar. Svæðið er gríðarstórt og umhverfið á margan hátt harkalegt. Þetta kallar á samvinnu og aðstoð þjóða í milli. Menn verða að hjálpast að. Samvinna þjóðanna innan Heimskautaráðsins hefur þegar skilað árangri. Þjóðir hafa fallist á sameiginlegar lagaskuldbindingar varðandi málefni norðurslóða svo sem varðandi leitar-,  og björgunarmál sem og á sviði mengunarmála sjávar. Umhverfismál norðurslóða eru afar mikilvæg.“

Formaður í Barents-Evróarktíska ráðinu í Moskvu í apríl 2008.

Hrósar Íslendingum

Í tengslum við störf sín sem sendiherra Rússa í málefnum norðurslóða þá sótti Vasiliev Ísland iðulega heim. „Ég var staddur hér á landi í efnhagshruninu haustið 2008 og sá sjálfur mótmælin sem urðu hér í miðborg Reykjavíkur í kjölfarið.“

Fyrir doktorinn í hagfræði var það ógleymanleg reynsla sjá fjármálakerfi heillar þjóðar falla um koll.  Hann horfði ekki aðeins á þetta með augum sendifulltrúans heldur líka með augum fagmannsins. Um leið fékk hann áhuga á íslensku samfélagi. Í dag hrósar hann íslensku þjóðinni mjög fyrir það hvernig unnið var úr þeim risavaxna vanda sem fólst í hruninu. „Í gegnum sendiherrastörf mín hef fylgst grannt með og get vitnað í dag um þann lýsandi árangur og velgengni Íslendingar hafa síðan náð í efnahagsmálum. Þetta hefur áunnist þrátt fyrir ýmsa örðugleika.“

Vasiliev segir að hann hafi tekið því fagnandi að verða skipaður sendiherra á Íslandi. Hann tók við stöðunni í apríl 2014 og hefur búið hér á landi síðan. Þetta gerði honum kleift að kynnast Íslandi betur um leið og hann gat haldið áfram að fylgjast með og starfa að málefnum tengdum norðurslóðum. Þau eru Vasiliev hugleikin. „Það liggur ákveðin mótsögn í þeim áskorunum sem við mætum vegna umhverfisbreytinga sem felast í hlýnun og þeirra tækifæra sem þetta býður upp á varðandi nýtingu auðlinda norðurslóða. Það eru augljósir viðskiptahagsmunir svo sem í tengslum við opnun á sjóflutningaleiðum sem áður voru lokaðar vegna hafíss. Hér má líka nefna auðveldara aðgengi að auðlindum á borð við olíu, gas og málma í kjölfars hlýnunar. Þjóðir norðurslóða verða að rannsaka vel og með ábyrgum hætti hvaða auðlindir eru fyrir hendi og hvernig þær megi nýta. Á sama tíma þarf að taka tillit til þess að vernda afar viðkvæm vistkerfi á þessum slóðum. Tjónið getur hæglega orðið nánast óbætanlegt ef ekki er varlega farið í allri umgengni og nýtingu.“ Hér bendir Anton Vasiliev á nærtæk dæmi frá Íslandi. „Íslendingar þekkja vel til náttúrutjóns vegna uppblásturs á gróðursvæðum og ágangs manna.“

Með Jónasi Allanssyni sendiráðunaut í Barneo-bækistöðinni við Norðurpól í aprílmánuði 2013.

Mikilvægir þættir norðurslóðamála

Þessi einn fremsti sérfræðingur Rússa í málefnum norðurslóða bendir einnig á mannlega þáttinn. Hann segir að tryggja þurfi réttindi og verja lífshætti frumbyggja á norðurslóðum. „Þetta er vandasamur línudans þar sem taka þarf tillit til margra þátta. Inn í þetta fléttast síðan áskoranir og vandamál vegna umhverfisbreytinga og tækni. Það er enginn vafi á því að nú á sér stað hnattræn hlýnun með breytingu á veðurkerfum. Við verðum vör við þetta núna. Aldrei frá því mælingar hófust hefur til dæmis rignt jafn mikið á einum degi í Moskvu og gerðist nú í nóvember. Einn daginn féll sem nemur heilli meðaltalsúrkomu. Hér á Íslandi hefur veturinn hingað til verið afar mildur. Á sama tíma fréttum við af snjókomu í eyðimörkinni í Sádi Arabíu.“

Vasiliev segir að Heimskautaráðið hafi greitt mjög fyrir mikilvægu brautryðjendastarfi í tengslum við rannsóknir á hlýnun og öðrum umhverfisbreytingum á norðurslóðum gegnum verkfnið „Arctic Climate Impact Assesment (ACIA). Hann segir engan vafa leika á því að þær stafi af mannavöldum. „Rússland viðurkennir þetta og varð meðal annars aðili að Parísarsamkomulaginu um loftlagsmál sem var undirritað  árið 2016. Það með erum við skuldbundin til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda í samræmi við ákveðin viðmið.“

Sendiherrann nefnir einnig að öryggismálin séu mikilvægur þáttur sem taka verði tillit til í ljósi breyttra aðstæðna. „Rússland á um tíu þúsund kílómetra löng landamæri meðfram strandlengju Íshafsins. Áður var hafísinn og erfitt veðurfar náttúruleg landamæravörn á þessum slóðum. Nú þegar hlýnar og ísinn hopar þá eru viðkvæm strandsvæðin berskjölduð gegn óæskilegum þáttum svo sem hryðjuverkum, eiturlyfjasmygli og annarri skipulagðri glæpastarfsemi. Við í Rússlandi þurfum nú að leita nýrra leiða til að vernda okkur sjálf og landamæri okkar í norðrinu. Því vinnum við nú kerfisbundið að því að styrkja þau meðal annars með því að koma aftur á fót og byggja upp herstyrk og gæslu á norðurslóðum. Þetta er bara ein birtingarmynd þess hvernig við verðum nú að takast á við nýjar áskoranir í ljósi breytandi aðstæðna.

Anton Vasilev í Mónakó með rússneskum starfsfélögum í nóvember 2008 á alþjóðaráðstefnu Heimskautaráðsins. Með þeim á mynd er Albert II prins í Mónakó.

Rússar vinna ötullega

Vasiliev segir að ekkert í umsvifum Rússa á norðurslóðum ætti að koma á óvart. „Frá 2008 hefur Rússland fylgt stefnumótun sem stjórnvöld gerðu þá varðandi málefni norðurslóða. Hún er formuð af Öryggisráði Rússlands og staðfest með undirskrift forseta landsins. Þessi stefnumótun felur meðal annars í sér uppbygginu á innviðum í tengslum við siglingaleiðina norðan Rússlands milli Atlantshafs og Kyrrahafs –norðausturleiðinni. Við sjáum mikla framtíðarmöguleika því hún styttir siglingar milli Vestur-Evrópu og Austur-Asíu um 40 prósent. Í því felst mikill sparnaður. Lönd á borð við Kína, Suður Kóreu, Japan og Singapúr sýna henni mikinn og stöðugan áhuga.Við sitjum ekki kyrr með hendur í skauti. Við höfum móttekið alhliðaáætlun sem miðar að því að stýra umferð um þessa siglingaleið og jafnframt tryggja öryggi. Það er verið að koma upp leitar- og björgunarmiðstöðvum með jöfnu millibili á ströndinni, frá hafnarborgunum Múrmansk í vestri til Anadyr í austri. Rússland er einnig að koma upp gerfihnöttum sem eiga að vakta öryggi á siglingaleiðinni norðan Rússlands, afla veðurupplýsinga og tryggja fjarskipti betur en gert hefur verið. Það er líka verið að kortleggja hafsbotninn á þessum svæðum, þjálfa skipstjórnarmenn og aðra sem munu sigla þarna og starfa og þess háttar.“

Anton Vasilev með Heimskautssendiherrum um borð í rússneska ísbrjótnum „Yamal” á norðaustursiglingaleiðinni norðan Síberíu í ágúst 2011.

Rússar eru einnig að smíða þrjá afar fullkomna ísbrjóta sem verða kjarnorkuknúnir. Tilbúnir verða þeir meðal hinna fullkomnustu sinnar gerðar í heiminum. „Þessi skip verða svo öflug að þau komast í gegnum allan ís alveg sama hversu þykkur hann er. Svo er líka verið að smíða nýja díselknúna ísbrjóta. Þeir verða mjög fullkomnir og sérhannaðir til siglinga á mjög grunnum strandsvæðum. Það er líka verið að byggja stóra útflutningshöfn, Sabetta í Yamal-héraði í Síberíu, fyrir gas í fljótandi formi sjóleiðina . Við sjáum fyrir okkur mikla möguleika á að nota þessa siglingaleið til útflutnings á olíu og gasi á markaði frá norðurslóðum Rússlands. Það eru gríðarlegar auðlindir í jörðu í Síberíu, bæði gas, olía og málmar á borð við gull, kopar og nikkel.“

Kveðjufundur með æðstu embættismönnum Heimskautaráðsins í Whitehorse í Kanada, mars 2014.

Vænta hagvaxtar í Rússlandi

Í lok spjalls okkar við Anton Vasiliev víkjum við að samskiptum Íslands og Rússlands. Sovétríkin voru með þeim fyrstu til að viðurkenna Ísland sem sjálfstæða þjóð. Það gerðist þegar árið 1943 er fyrstu sendifulltrúar þaðan fengu fast aðsetur hér á landi. Samskipti þjóðanna hafa ávallt verið góð jafnt á menningar- og viðskiptasviðinu.

Skugga hefur þó borið á í viðskiptum síðustu misserin eftir þátttöku Íslands í viðskiptabanni vestrænna þjóða gegn Rússum vegna deilna um Úkraínu og Krímskaga. „Ísland tók þátt í viðskiptaþvingum gegn Rússlandi að fyrra bragði ásamt nokkrum fleiri vestrænum þjóðum. Við svöruðum með mótaðgerðum. Lausnin á þessum málum er í ykkar höndum. Að sjálfsögðu ætti að afnema allar þessar fráleitu viðskiptahindranir. En við Rússar getum þó vel komist af án þeirra fæðuvörutegunda sem við flytjum ekki lengur inn frá vestrænum ríkjum.“

Vasiliev bætir við að á vissan hátt hafi viðskiptabannið jafnvel orðið Rússlandi til góða. „Þetta hefur örvað nýsköpun í tæknigeiranum og skapandi greinum í Rússlandi. Landbúnaður okkar og innlend matvælaframleiðsla blómstrar. Rússland hefur þó vissulega verið að ganga í gegnum samdráttarskeið í efnahagsmálum. Á því eru ýmsar skýringar sem ekki tengjast viðskiptabanni vestrænnu ríkjanna, svo sem lækkun olíuverðs á heimsmarkaði. Samdráttur varð milli 0,6 og 0,7 prósent á árinu 2016 en botninum er nú náð. Á þessu ári 2017 gerum við ráð fyrir rúmlega eins prósents hagvexti. Þetta gerist þrátt fyrir viðskiptaþvinganir.“

Með samstarfsmönnum og vinum í „Kruzenstern” í Reykjavíkurhöfn á þjóðhátíðardaginn 10. júní 2015.

Ágúst 2011 í Tiksi í Jakútíu í Rússlandi.

Verst fyrir Ísland

Þjóðhagfræðidoktorinn Anton Vasiliev segir reynsluna hafa sýnt að viðskiptabannið skaði meira mörg þeirra landa sem hafi hvatt til þess eða taki þátt í því heldur en sjálft Rússland. „Ísland er þar sennilega fremst í flokki. Sjávarafurðir voru meginhluti innflutnings á vörum frá Íslandi til Rússlands. Þær voru almennt séð stór hluti í viðskiptum milli landanna. Íslenskur fiskur var í miklum metum hjá rússneskum neytendum. Þið áttuð þarna góða markaði með góðum og björtum framtíðartækifærum. Almenningur í Rússlandi vitnar nú að íslenskur fiskur er horfinn úr verslunum. Ég finn það á eigin skinni. Þegar ég er heima í Moskvu fæ ég hvergi lengur íslenskan fisk sem ég met mikils og mig langar í.“

Anton Vasiliev og Sigurður Ingi Jóhannsson forsætisráðherra á Arctic Circle ráðstefnunni í óktober 2016
Einar Þ. þorsteinsson útgefandi hjá Icelandic Times og Land og saga og Anton Vasiliev sendiherra.

Sendiherra Rússlands á Íslandi telur að þjóð hans hafi sjaldan notið sanngirni í deilum við ríki á Vesturlöndum. „Lítum á þær ástæður sem eru gefnar fyrir viðskiptabanninu. Rússland getur vísað þeim öllum á bug. Í fyrsta lagi þá var Krímskagi ekki innlimaður með valdi í Rússland. Það var frjáls vilji Krímbúa staðfestur í frjálsri þjóðaratkvæðagreiðslu að sameinast Rússlandi. Allt það ferli var fyllilega í samræmi við alþjóðalög. Kosovo var miklu vafasamari aðgerð lagalega séð heldur en þetta,“ segir Vasilev.  Vasilev heldur áfram og nefnir annað hitamál. „Rússland skaut ekki niður malasísku farþegaþotuna MH17 yfir Úkraínu sumarið 2014. Við höfum lagt fram ótal sannanir sem sýna þetta en það er litið framhjá þeim. Í þriðja lagi þá hafa rússneskir hermenn ekki verið í austurhluta Úkraínu né hafa rússnesk vopn verið flutt þangað. Það er ekki ein einast sönnun sem sýnir að ásakanir í garð Rússlands eigi við staðreyndir að styðjast. Væru sannanir til þá væri hægt að reiða þær fram með klukkustundar fyrirvara vegna þess að öll eftirlitskerfi
eru svo fullkomin í dag, svo sem í gegnum gerfihnetti, með drónum, eftirlitsmönnum sem starfra í samræmi við hinn svonefnda „Opinn himinn“ – sáttmálaog svo framvegis. Þær hefðu stax komið fram. Þetta byggir bara á ásökunum og ósannindum. Rússland er ekki ógn við neinar þjóðir . Viðskiptabannið á Rússland er út í hött, það er hamlandi og þjónar greinilega allt öðrum markmiðum en að var stefnt. Rússland er ávallt reiðubúið til sanngjarna samskipta á jafnréttisgrundvelli við alla þá sem raunverulega óska þess. Ég trúi á það að í framtíðinni megi þróa vinsamleg samskipti og samvinnu á mörgum sviðum milli Rússlands og Íslands. Ég mun gera mitt besta til að svo megi verða,“ segir Anton Vasiliev að lokum.

Anton Vasilev á Norðurpólnum í apríl 2013.
Vasilev í Anadyr í Chukotka í Rússlandi. Myndin var tekin í ágústmánuði 2009.