Samtíma hönnun – Shop Show og Dieter Roth – Hnallþóra í sólinni


Samtíma hönnun – Shop Show og Dieter Roth – Hnallþóra í sólinni

Tvær nýjar sýningar verða opnaðar í Hafnarborg laugardaginn 22. mars. Shop Show, sýning á norrænni samtímahönnun sem lætur sig varða umhverfismál og sjálfbærni verður opnuð á efri hæð safnsins og sýningin Hnallþóra í sólinni, úrval prent- og bókverka eftir Dieter Roth, í Sverrissal.
Vik Prjonsdottir - Sjavarteppid - ljosm. Marino Thorlacius
Á sýningunni Shop Show mætast umhverfismál, menning og nýsköpun á kröftugan og nýstárlegan hátt. Sýnd er norræn samtímahönnun þar sem sjónum er beint að sambandi framleiðslu og neyslu með áherslu á rekjanleika og siðferðisspurningar er varða umhverfi og náttúru. Á sýningunni eru hönnunarvörur eftir framúrskarandi hönnuði sem setja nú mark sitt á norræna samtímahönnun. Á meðal þátttakenda eru íslensku hönnuðirnir Róshildur Jónsdóttir, sem einkum er þekkt fyrir hönnun og vöruþróun leikfanga úr fiskibeinum, og hönnunarteymið Vík Prjónsdóttir sem hannar vörur úr íslenskri ull sem notið hafa mikilla vinsælda.
sho
Markmið sýningarinnar er að efla vitund um gildi sjálfbærni í hönnun og ábyrgð neytenda þegar vara er valin. Jafnframt bendir sýningin á að hönnun nær ekki aðeins til yfirborðs hlutar og útlits heldur einnig til efnisvals, virkni og framleiðslu. Sýningin er unnin af Form Design Center í Malmö og ferðast um Norðurlöndin. Á Íslandi nýtur verkefnið stuðnings styrktarsjóðsins Viljanda. Sýningunni er fylgt úr hlaði með veglegri dagskrá þar sem viðfangsefni hennar eru krufin, meðal annars með samtölum við hönnuðina Petru Lilju, Brynhildi Pálsdóttur og Róshildi Jónsdóttur.
Hnalltora i solinni-Dieter Roth-1971
Hnallþóra í sólinni er sýning á úrvali prent- og bókverka eftir einn af brautryðjendum samtímalistarinnar, svissneska myndlistarmanninn Dieter Roth (1930 – 1998). Hann var með eindæmum fjölhæfur listamaður sem hafði óumdeilanleg áhrif á íslenskt listalíf bæði á meðan hann bjó hér og alla tíð síðan en hann varði miklum tíma hér á landi. Eftir Dieter Roth liggja myndlistarverk sem eru hluti af listasögu 20. aldar en hann vann jöfnum höndum í ólíka miðla; grafík, höggmyndir, málverk, bókverk og myndbandslist auk þess sem eftir hann liggur áhugaverð hönnun. Á sýningunni Hnallþóra í sólinni er lögð áhersla á framlag listamannsins til prentmiðilsins sem hann hafði mikinn metnað fyrir. Sýnd eru grafíkverk og bókverk frá árunum 1957 – 1993, sem veita greinargóða innsýn í ævistarf listamannsins. Sýningin var upphaflega sett upp í Skaftfelli á Seyðisfirði og er sýningarstjóri Björn Roth. Verkin eru fengin að láni frá Nýlistasafninu og fjölskyldu Dieter Roth.

Sýningarnar eru hluti af HönnunarMars 2014.

Nánari upplýsingar:
Hildisif Hermannsdóttir, Hafnarborg, s. 585-5790
Brynhildur Pálsdóttir, s. 849-9764
Róshildur Jónsdóttir, s. 694-7020