Mynd frá sýningu í Hafnarborg

Sýningaropnanir í Hafnarborg

Laugardaginn 20. janúar kl. 15 verða opnaðar tvær sýningar í Hafnarborg. Í aðalsal safnsins er það sýningin Ultimate/Relative, innsetning eftir Ráðhildi Ingadóttur. Í Sverrissal verður opnuð sýningin Minningarbrot og leyndir staðir sýning á völdum myndum úr tveimur ljósmyndaseríum, Fragments of Rememberence og Hidden Places eftir danska ljósmyndarann Astrid Kruse Jensen .

Ráðhildur Ingadóttir hefur lengi fengist við hið óendanlega og eilífa í verkum sínum. Með sýningu sinni í Hafnarborg dregur hún upp svipmyndir af eigin heimi með upptökuvél, þar sem hún sækir í eigin reynslu og dregur fram minningar. Við greinum einstakling sem rennir augum sínum yfir fjölda upplifana og ristir fortíðina í nútíðina. Listamaðurinn er í sínum eigin heimi, á þeim stað þar sem hið lítilfjörlega mætir hinu stórmerkilega.

Sunnudaginn 28. janúar kl. 14 mun Ráðhildur Ingadóttir vera með listamannsspjall.

Astrid Kruse Jensen heimsótti Ísland fyrir 15 árum síðan og vann hér ljósmyndaseríur sem síðan hafa borið hróður hennar víða. Í verkum sínum fæst Astrid Kruse Jensen við myrkrið, tómleikann og  minnið. Tæknileg framkvæmd bæði myndatöku og framköllunar er lykilatriði í myndsköpun Astrid. Í myndum þeim sem teknar voru á Íslandi leitast hún við að fanga myrkrið, þöglar stillur í einmanalegu vetrarlandslagi. Í seríunni Fragments of Rememberence lætur hún efnafræðina skapa tilfinningu fyrir óljósum minningabrotum úr eigin fjölskyldu með því að framkalla gamlar filmur úr eigu fjölskyldunnar.

Ráðhildur Ingadóttir er fædd í Reykjavík árið 1959. Hún nam myndlist í Englandi á árunum 1981 – 1986. Ráðhildur hélt sína fyrstu einkasýningu í Nýlistasafninu árið 1986 og hefur síðan sýnt á Íslandi og í Evrópu í ríkum mæli og einnig unnið sem sýningarstjóri hér á landi og erlendis. Ráðhildur var gestakennari við Myndlista- og handíðaskóla Íslands og Listaháskóla Íslands á árunum 1992-2002 sem og við Konunglegu myndlistarakademíuna í Kaupmannahöfn. Hún var stjórnarmeðlimur í Nýlistasafninu frá 2000-2002. Ráðhildur var listrænn stjórnandi Skaftfells miðstöðvar myndlistar á Austurlandi 2013 og 2014. Hún hefur hlotið starfslaun, verkefnastyrki og ferðastyrki á Íslandi og í Danmörku. Ráðhildur býr og starfar í Kauppmannahöfn, á Seyðisfirði og í Reykjavík. Verk eftir hana eru í eigu Listasafns Íslands, Listasafns Reykjavíkur og Nýlistasafnsins.

Astrid Kruse Jensen er fædd árið 1975 í Árósum. Hún stundaði nám í Amsterdam og Glasgow og útskrifaðist frá Glasgow School of Art árið 2002. Árið 2003 dvaldi Astrid í gestaíbúðinni í Hafnarborg og vann að ljósmyndaseríunum Hidden Places þar sem Astrid sýndi þau verk í kaffistofu Hafnarborgar árið 2004 og eignaðist Hafnarborg í kjölfarið átta ljósmyndir eftir hana. Á sama tíma voru verk hennar einnig sýnd í Gallerí Skugga sem þá var rekið á Hverfisgötu í Reykjavík. Síðan hefur Astrid haslað sér völl sem listrænn ljósmyndari, hún hefur sýnt víða um heim og unnið til verðlauna fyrir verk sín. Á sýningunni nú er verkin úr safneign Hafnarborgar dregin farm en einnig sýnd verk úr nýrri seríu, Framgments of Rememberence, þar sem Astrid vinnur með minningabrot úr eigin fjölskyldu með því að framkalla gamlar filmur úr eigu fjölskyldunnar og stilla þeim fram með nýjum myndum.

 

 

RELATED LOCAL SERVICES