SETNING OG VÍGSLA VIÐ VERÖLD-HÚS VIGDÍSAR

SETNING OG VÍGSLA VIÐ VERÖLD-HÚS VIGDÍSAR
Setning Menningarnætur 2017 fer fram á morgun við Veröld – hús  Vigdísar kl. 12.30.
Dagur B. Eggertsson borgarstjóri setur hátíðina. Við það tilefni vígir Jón Atli Benediktsson rektor Háskóla Íslands torgið og frú Vigdís Finnbogadóttir gróðursetur tré. Samstarfssamningur milli Reykjavíkurborgar og Vigdísarstofnunar – alþjóðlegrar miðstöðvar tungumála og menningar við Háskóla Íslands verður undirritaður.
Hljómsveitin Skuggamyndir frá Býsans sér um að skemmta fólki fyrir setninguna og Múltíkúltíkórinn undir stjórn Margrétar Pálsdóttur og Karlakórinn Þrestir syngja að henni lokinni. Gestum  og gangandi er boðið að fá leiðsögn um Veröld-hús Vigdísar eftir setninguna þar sem hægt er að fræðast  um húsið og söguna á bak við húsið og um tungumálin sem þar eru kennd. Þá verður ný sýning um líf og störf Vigdísar Finnbogadóttur opin. Húsið verður einnig opið á sunnudaginn milli kl. 13 og 17. 
Í ár verður Menningarnótt ein allsherjar tónlistar-  og menningarveisla en í miðborginni verður boðið uppá þrenna stórtónleika, Tónleika Rásar 2 á Arnarhóli, Garðpartý Bylgjunnar í Hljómskálagarðinum og Hip hop tónleikar á Ingólfstorgi. Þá eru yfir hundrað tónlistarviðburðir um alla borg. Frítt er inná öll söfn í miðborginni sem bjóða uppá fjölbreytta dagskrá fram á kvöld. Þá verður Harpa með afar glæsilega dagskrá frá kl. 13-18.
Leikarar, dansarar og fjöllistafólk verða með uppákomur og íbúar bjóða víða uppá dagskrá í húsagörðum og sundum. Hlemmur er áherslusvæði Menningarnætur í ár og opnar Mathöllin við það tækifæri og boðið verður uppá fjölda áhugaverðra viðburða á svæðinu. Akranes er gestabær Reykjavíkur á Menningarnótt og ætlar af því tilefni bjóða uppá myndarlega dagskrá á veitingastaðnum Messanum við Sjóminjasafnið. Að venju er frítt í Strætó og Flugeldasýningin verður á sínum stað á Austurbakka kl. 23. Á Menningarnótt er sérstök áhersla lögð á að fjölskyldan njóti samveru, komi saman í bæinn og fari heim saman. Hægt er að nálgast alla viðburði á Menningarnótt á vefnum menningarnott.is.
GÖTULOKANIR
Á Menningarnótt er miðborgin ein allsherjar göngugata og verður því lokuð fyrir bílaumferð frá kl. 7 að morgni til 2 eftir miðnætti. Það er gert til þess að tryggja öryggi gangandi og akandi vegfaranda á þessum fjölsóttasta hátíðardegi ársins. Gestir Menningarnætur eru hvattir til að ganga, hjóla eða nota almenningssamgöngur til að komast á hátíðasvæðið. Þeir sem þurfa að koma á einkabíl er bent á að nota bílastæði við Borgartún og í Laugardalnum þar sem ókeypis strætóskutlur aka fólki til og frá hátíðarsvæðinu frá kl. 7.30-1.00. Eins og lög gera ráð fyrir verður sektað fyrir ólöglegar bílastöður og þeir bílar sem hindra aðgengi lögreglu, sjúkrabíla og slökkviliðs verða dregnir í burtu svo unnt sé að tryggja aðgengi þessara öryggisaðila ef óhapp ber að. Hægt er að nálgast kort yfir götulokanir á vefsíðu Menningarnætur eða fá upplýsingar í símaveri Reykjavíkurborgar frá kl. 8-23 á Menningarnótt, s.411-1111.
FRÍTT Í STRÆTÓ Á MENNINGARNÓTT
Ókeypis verður í Strætó sem keyrir samkvæmt hefðbundinni leiðartöflu fram til kl. 22.30. Þá tekur við sérstök leiðartafla sem miðar að því að koma fólki hratt og örugglega heim úr miðborginni. Hægt er að finna nánari upplýsingar um leiðarkerfi þeirra vagna Strætó sem aka í miðborgina á  vef Strætó.  Á Menningarnótt er boðið uppá ókeypis strætóskutlur sem aka reglulega til og frá bílastæðum við Laugardalshöll og Borgartún og að Hallgrímskirkju með viðkomu á Hlemmi. Þessi þjónusta hefur mælst vel fyrir síðustu ár en einkunnarorð hennar eru: Legðu fjær til að komast nær.
AÐGENGI OG ÞJÓNUSTA
Sérstök bílastæði fyrir fatlaða og hreyfihamlaða eru á Skúlagötu, Túngötu og við Tækniskólann. Einnig verður hægt að taka leigubíl inn á Skólavörðuholt, Skúlagötu, Túngötu og BSÍ. Sérstök salerni fyrir fatlaða eru á nokkrum stöðum á hátíðarsvæðinu. Nánari upplýsingar eru á vef Menningarnott.is.