Sýningaropnanir í Hafnarborg

Sýningaropnanir í Hafnarborg
Föstudaginn 31. ágúst kl. 20

Tvær sýningar verða opnaðar í Hafnarborg föstudaginn 31. ágúst kl. 20. Það eru sýningarnar Allra veðra von í aðalsal safnsins sem samanstendur að verkum fimm listakvenna og sýningin Allt eitthvað sögulegt, ljósmyndir eftir Báru Kristinsdóttur, sem verður opnuð í Sverrissal.

Haustsýning Hafnarborgar 2018 er sýningin Allra veðra von. Á sýningunni eru verk eftir Höllu Birgisdóttur, Ragnheiði Hörpu Leifsdóttur, Ragnheiði Maísól Sturludóttur, Sigrúnu Hlín Sigurðardóttur og Steinunni Lilju Emilsdóttur.

Sýningarstjóri Allra veðra von er Marta Sigríður Pétursdóttir, menningar- og kynjafræðingur, en hugmynd hennar að sýningunni var valin úr innsendum sýningartillögum síðastliðið haust þegar kallað var eftir tillögum að haustsýningu í Hafnarborg árið 2018. Sýningin fjallar um samband mannsins við veður. Eftir eitt versta sumar í manna minnum á suðversturhorni landsins og öfga í veðri um heim allan er þetta viðfangsefni ofarlega í hugum manna. Veðrið hefur áhrif á okkur; umhverfi okkar og andlega líðan og nú á tímum hnattrænnar hlýnunar og breytinga á veðurkerfum heimsins er það þungur biti að kyngja að við sjálf berum ábyrgð á því að miklu leyti. Listakonurnar nálgast viðfangsefnið hver með sínum hætti og sækja fanga í þjóðfræðilegar og mannfræðilegar heimildir, fornar sagnir, loftslagsvísindi, upplifanir og atburði líðandi stundar þar sem kjarninn er alltaf manneskjan frammi fyrir veðri. Sýningarskrá með viðtölum við fræðifólk og aðstandendur sýningarinnar verður fáanleg í afgreiðslu safnsins.

Í sýningunni Allt eitthvað sögulegt bregður Bára Kristinsdóttir upp næmri og heillandi mynd af heimi sem er að hverfa. Ljósmyndir hennar gefa innsýn í líf tveggja eldri manna á nælonhúðunar verkstæði á höfuðborgarsvæðinu þar sem tíminn hefur staðið í stað. Á árum áður var þetta fjölmennur vinnustaður þar sem reksturinn blómstraði og unnið var handvirkt upp á gamla mátann. En með nútímatækni kom að því að handverk þeirra var ekki lengur eftirsótt og fyrirtækið laut í lægra haldi fyrir kínverskri verksmiðjuframleiðslu sem yfirtekið hefur markaðinn. Ljósmyndabók um verkefnið kemur út á degi opnunarinnar, gefin út af Ramskram gallerí.

Á sýningartímabilinu verður boðið upp á fjölbreytta dagskrá. Sunnudaginn 2. september kl. 14 munu sýningarstjóri og listamenn leiða gesti um sýninguna Allra veðra von, og sunnudaginn 23. september kl. 14 verður Bára Kristinsdóttir með listamannsspjall.

Sjá nánar um sýningarnar hér og hér.

Allra veðra von er áttunda sýningin í haustsýningaröð Hafnarborgar þar sem hugmynd sýningarstjóra er valin úr innsendum tillögum. Áður hafa verið settar upp, sem hluti af sama verkefni, sýningar Ólafar Gerðar Sigfúsdóttur mannfræðings, Í bili, haustið 2011, sýning Guðna Tómassonar listsagnfræðings, SKIA, haustið 2012, sýning Önnu Maríu Bogadóttur arkitekts, Vísar-húsin í húsinu, haustið 2013, sýning Helgu Þórsdóttur, Rás, haustið 2014, sýning Aðalheiðar Valgeirsdóttur myndlistarmanns og listfræðings og Aldísar Arnardóttur listfræðings, Heimurinn án okkar, haustið 2015 og sýning Rúnu Thors, vöruhönnuðar, Hildar Steinþórsdóttur, arkitekts, Tilraun – leir og fleira, haustið 2016 og Málverk ekki miðill sem Jóhannes Dagsson, listheimspekingur sýningarstýrði haustið 2017.Með haustsýningaröðinni vill Hafnarborg skapa farveg fyrir áhugaverðar hugmyndir og vera vettvangur þar sem myndlist fær notið sín mótuð af fjölbreyttum viðhorfum og viðfangsefnum. Hafnarborg kallar nú eftir tillögum að haustsýningu árið 2019. Frekari upplýsingar má nálgast á heimasíðu Hafnarborgar: www.hafnarborg.is