Töfrar Fljótsdalshéraðs

– óteljandi ferðamöguleikar

Náttúran á Fljótsdalshéraði er svo sannarlega heillandi. Þegar minnst er á Austurland kemur Hallormsstaður fyrst upp í huga flestra Íslendinga, Hallormsstaðaskógur og Atlavík en Hallormsstaðaskógur var friðaður með lögum frá Alþingi árið 1899. Þar er nú myndarleg aðstaða fyrir ferðamenn með úrvals hóteli og margvíslegri ferðaþjónustu.

SONY DSCÞað er enn barist á Skriðuklaustri Ljósm.i Gunnar Gunnarsson

Lagarfljót er einnig seiðandi með sínum dullarfulla Lagarfljótsormi og svo stendur skipið, nafni hans, til boða þeim sem vilja sigla á fljótinu. Lagarfljótsbrúin var vígð árið 1905 og var lengi vel lengsta brú landsins. Egilsstaðir og Fellabær eru á Fljótsdalshéraði. Þar er miðstöð verslunar og þjónustu og því góður áfanga-og áningastaður á ferð um Austurland. Jón Bergsson, hinn merki stórbóndi, reyndist svo sannarlega sannspár árið 1899 þegar hann ákvað að kaupa jörðina Egilsstaði af þeirri ástæðu að hann trúði því að þarna yrðu vegleg vegamót í framtíðinni. Egilsstaðir eru nefndir eftir Agli Síðu-Hallssyni sem talið er að hafi búið á Egilsstöðum um aldamótin 1000. Gistihúsarekstur hófst á Egilsstöðum árið 1903 þegar Jón Bergsson bóndi og kona hans Margrét Pétursdóttir byggðu nýtt hús á Egilsstaðajörðinni. Síðan hefur þar verið samfelldur rekstur.

Skriðuklaustur – fáninn blaktir í golunni – inni bíða hressingar fyrir líkama og sál.
Ljósm.i Gunnar Gunnarsson

Merkir staðir og náttúruundur
Hálendið heillar margan ferðamanninn og á Fljótsdalshéraði er Snæfell í öndvegi, Vatnajökull og Kárahnjúkar. Hægt er að fara í heita sturtu á Laugavöllum. Hengifoss er af mörgum talinn einn fallegasti foss landsins og Strútsfoss þykir ekki síðri. Jökla er í héraðinu, Jökuldalur og Jökulsárhlíð með gullslegin Þerribjörgin við sjóinn og lífríkið við Héraðsflóa en á Úthéraði er m.a. stærsta kjóavarp í heimi. Menningarsetrið á Skriðuklaustri, þar sem Gunnar Gunnarsson rithöfundur bjó, er fróðlegt að heimsækja, sem og Hreindýrasetrið á Skjöldólfsstöðum en lögheimili hreindýranna er einmitt á Fljótsdalshéraði. Möðrudalur á Fjöllum er í héraðinu. Mörgum finnst síðan gaman að heimsækja kaffihúsið í Sænautaseli.

Stærsta sveitarfélag landsins
Fljótsdalshérað er langstærsta sveitarfélag landsins, nær yfir tæplega 9 þúsund ferkílómetra. Stór hluti Vatnajökulsþjóðgarðs er í héraðinu. Í sveitafélaginu búa um fjögur þúsund manns. Gestum og gangandi er tekið fagnandi og gisti- og veitingaþjónusta er fjölbreytt. Allir ættu að finna eitthvað við sitt hæfi í mat, drykk og gistingu og enginn ætti að verða svikinn af því að taka sér góðan tíma á Fljótsdalshéraði í sumar sem endranær.

Ást í 100 ár
Í sumar eins og ævinlega er fjölbreytt afþreying í boði á Fljótsdalshéraði. Í mörg ár hefur sumarvertíðin náð hámarki sínu með “Ormsteiti”, menningarhátíð sem haldin er er þann 14.-23. ágúst. Í Menningarmiðsöðinni Sláturhúsinu er stöðug dagskrá allt árið um kring og hvers kyns listsýningar og menningarviðburði. Á Minjasafninu eru áhugaverðar sýningar í sumar. Þar má nefna sýninguna Ást í 100 ár og sýninguna Dauðir rísa úr gröfum Skriðuklausturs. Að sumri loknu taka svo við haustannir með uppskeru jarðargróða og veiðiskap. Veiði rjúpu og hreindýra. Hver árstíð hefur þannig sína fegurð og möguleika.