VAKINN – Stórt hagsmunamál fyrir íslenska ferðaþjónustu

VAKINN er opinbert gæða- og umhverfiskerfi fyrir ferðaþjónustuna á Íslandi og er samstarfsverkefni Ferðamálastofu, Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands, Ferðamálasamtaka Íslands og Samtaka ferðaþjónustunnar.

Öll ferðaþjónustufyrirtæki á Íslandi geta sótt um að vera þátttakendur en gæðakerfið skiptist í tvo flokka. Annars vegar er um að ræða stjörnuflokkun fyrir gististaði – frá einni og upp í fimm stjörnur – innan sex undirflokka; hótel, gistiheimili, heimagisting, hostel, orlofshús og íbúðir og tjaldsvæði. Hins vegar er um að ræða flokk fyrir  ferðaþjónustu aðra en gistingu eins og t.d. afþreyingarfyrirtæki, bílaleigur, ferðaskrifstofur og fl. Fyrirtæki sem sækja um í VAKANUM hafa einnig val um að taka þátt í umhverfiskerfi og fá brons, silfur eða gullmerki fyrir umhverfisstarf.

„Markmiðið með VAKANUM er fyrst og fremst að efla gæði, öryggi og umhverfisvitund í ferðaþjónustunni með handleiðslu og stuðningi, ásamt því að byggja upp samfélagslega ábyrgð ferðaþjónustufyrirtækja í landinu,“ segir Áslaug Briem, verkefnisstjóri gæðamála hjá Ferðamálastofu. „Það var greinin sjálf (ferðaþjónustufyrirtæki á landinu) sem óskaði eftir einhverskonar gæðakerfi þannig að hægt væri að auðkenna þau fyrirtæki sem væru að gera sérstaklega vel.“

VAKINN er sérhannaður fyrir íslenska ferðaþjónustu en þess má geta að kerfið er byggt á nýsjálenskri fyrirmynd, Qualmark. Einnig hefur verið horft til annarra landa varðandi gæðakerfi og gæðaúttektir en Áslaug bendir á að hvað öryggismálin varðar þá séu Íslendingar þó ákveðnir frumkvöðlar.

Fyrirtækin sem óska eftir þátttöku í verkefninu þurfa að uppfylla tilteknar kröfur um gæði og öryggi bæði hvað varðar starfsfólk og viðskiptavini. Má þar nefna m.a. aðbúnað, hreinlæti, þjónustu við ferðamenn, stjórnun, þjálfun og menntun starfsfólks og samfélagslega þætti.
VAKANUM fylgja ýmis hjálpargögn sem þátttakendum er bent á að nýta sér eins og t.d. gerð margvíslegra áætlana, gátlistar og hverskyns fræðslugögn.

shutterstock_147500978_SmallÁvinningurinn margvíslegur
Innleiðing VAKANS á m.a. að auka færni stjórnenda við fyrirtækjarekstur, bæta öryggi og velferð bæði gesta og starfsmanna og efla fagmennsku. Þá eiga fyrirtækin að geta bætt samkeppnisforskot sitt og þar með Íslands sem áfangastaðar.
Kannanir Ferðamálastofu sýna að 74% erlendra ferðamanna kjósa að eiga viðskipti við fyrirtæki með viðurkennda gæðaflokkun og þá skiptir gæða- og umhverfiskerfi eins og VAKINN miklu máli.
Með þátttöku eykst  fagmennskan og fyrirtækin eru líklegri til að uppfylla væntingar gesta.
„Ferðaþjónustufyrirtæki hafa tekið VAKANUM vel, aðilar verða sífellt meira meðvitaðri um að gæði, öryggi og fagmennska skipta gríðarlega miklu máli í vaxandi samkeppni. Við finnum fyrir miklum meðbyr og auknum áhuga,“ segir Áslaug.
„Grundvöllur kerfisins eru gæðaviðmið sem VAKINN byggir á og er mikilvægt að starfsmenn ferðaþjónustufyrirtækja kynni sér þau vel áður en sótt er um þátttöku í VAKANUM. Það fer eftir því í hvers konar rekstri viðkomandi aðili er hvaða viðmið eiga við. Hægt er að nálgast öll gæðaviðmiðin á heimasíðunni www.vakinn.is

Ýmiss konar kynningar
Þegar fyrirtæki er orðið fullgildur þátttakandi í kerfinu birtist nafn þess á lista yfir þátttakendur á heimasíðu VAKANS auk þess sem fyrirtæki eru auðkennd á landkynningarsíðunni Visit Iceland. Þá birtast fréttir um ný fyrirtæki á vef VAKANS, Ferðamálastofu, SAF og víðar.
Mikilvægt er að fyrirtækin birti merki VAKANS á heimasíðu sinni og kynni fyrir viðskiptavinum sínum gæðaviðurkenninguna og hvað í henni felst.

Kynning á VAKANUM og fyrirtækjum sem eru þátttakendur er umtalsverð og má sem dæmi nefna auglýsingu í Flugstöð Leifs Eiríkssonar og auglýsingu í afþreyingarkerfinu um borð í vélum Icelandair. Þá eru auglýsingar og kynningar í ýmsum ferðablöðum og upplýsingablöðungar á íslensku og ensku liggja frammi á upplýsingamiðstöðvum um land allt. VAKINN tekur þátt í ferðakaupstefnum Vestnorden og Mid-Atlantic og kynnir þar þátttakendur og verkefnið. Þá hefur gæðakerfið verið kynnt fyrir erlendum ferðaskrifstofum.
Góð þátttaka í VAKANUM er stórt hagsmunamál fyrir íslenska ferðaþjónustu, enda mikilvægt að kynna það sem víðast að stöðugt sé verið að vinna að því að auka gæði og öryggi þeirra sem ferðast um Ísland.
Með góðri þátttöku í VAKANUM ættu að nást gildi íslenskrar ferðaþjónustu sem eru umhverfi, gæði, fagmennska, samvinna, heiðarleiki og hreinleiki.