Verkfræðistofan Hannarr

Ráðgjöf við byggingar og framkvæmdir

Hannarr er fyrirtæki sem hefur fengist við ráðgjöf og þá sérstaklega um það sem viðkemur byggingarheiminum, allt frá árinu 1968. Sem dæmi um þjónustu Hannarrs ber helst að nefna Byggingarlykilinn sem hefur að geyma allar upplýsingar fyrir þann sem hyggur á byggingarframkvæmdir á Íslandi, en að auki má nefna sérlega ráðgjöf við utanhússviðhald sem hentar til að mynda húsfélögum vel.

Lykill að byggingarheiminum

Það er ljóst að vilji maður starfa á vettvangi bygginga og framkvæmda er að mörgu að huga. Svo mörgu að erfitt getur verið að henda reiður á öllum þeim þáttum sem þarf að taka með í reikninginn, sérstaklega fyrir byrjendur í faginu. Þar af leiðandi getur verið mikilvægt að hafa greiðan aðgang að upplýsingum sem taka mið af raunverulegum aðstæðum til bygginga á Íslandi hverju sinni. Hannarr hefur gefið út slíkt upplýsingarit allt frá árinu 1979. Fyrirtækið skynjaði þörf fyrir ákveðna viðmiðun á verði húsnæðis og bygginga til þess að geta áætlað betur um alls kyns byggingar og framkvæmdir. Gekk það fyrst um sinn undir nafninu Verðskrá bygginga, en síðar varð umfang og efni ritsins aukið og úr varð Byggingarlykillinn. Aðaláhersla Byggingarlykilsins er því hin fjárhagslega hlið á sviði bygginga og framkvæmda. Á þeim tíma var algengt að tilboð í ákveðnar framkvæmdir samræmdust ekki raunverulegum kostnaði sem gat haft alvarlegar afleiðingar í för með sér, svo sem gjaldþrot fyrirtækja. Eitt markmiða Byggingarlykilsins er að gera fyrirtækjum kleift að gera sér fulla grein fyrir öllum þeim kostnaðarliðum sem búa að baki hverri framkvæmd fyrir sig og koma í veg fyrir þann vítahring gjaldþrota og erfiðrar rekstrarstöðu sem óraunsæ verð í tilboðum geta haft í för með sér. Samkvæmt upplýsingum frá Hannarri eru það alls kyns aðilar sem nýta sér lykilinn. Fyrirtæki og stofnanir á borð við verkfræðistofur, arkitektastofur, verktaka, sveitarfélög og opinberar stofnanir eru oft á tíðum í áskrifendahópi Byggingarlykilsins, en síðan nýtist lykillinn einnig fólki sem vinnur tímabundið að einhverjum framkvæmdum, svo sem einstaklingum og minni verktökum og fyrirtækjum.

Sigurður Ingólfsson, framkvæmdastjóri Hannarr
Sigurður Ingólfsson, framkvæmdastjóri Hannarr

Efni og innihald Byggingarlykilsins

Byggingarverðskráin er aðall lykilsins enda sá þáttur sem olli því að Byggingarlykillinn sem upplýsingarit varð að veruleika. Verðskráin hefur að geyma 3500 kostnaðarliði við byggingaframkvæmdir. Einnig er hægt að finna verðdæmi á 21 mismunandi húsagerðum eftir því hver stærðin er og hvaða efniviður er notaður. Reynt er að endurspegla markaðsverð hverju sinni, en fylgst er með gangverði við þá vinnu Hannarrs þegar fyrirtækið aðstoðar verktaka við gerð tilboða og kostnaðaráætlana. Þar af leiðandi hefur Hannarr betri yfirsýn en ella yfir þau verð sem eru í gangi hverju sinni. Aðaluppistaða verðskrárinnar flokkast í almenna þætti á borð við hönnun, teikningar og opinber gjöld, og síðan jarðvinnu, burðavirki, lagnir, raforkuvirki, frágang innanhúss, frágang utanhúss og frágang lóðar. Auk byggingaverðskrárinnar má finna skrá í Byggingarlyklinum yfir aðila sem tengjast byggingariðnaðinum með einum eða öðrum hætti. Einnig efni yfir vísitölur og verðlagsbreytingar sem og ýmis eyðublöð sem koma að góðum notum við byggingaframkvæmdir svo sem varðandi verkáætlanir og samninga. Eins og gefur að skilja hefur Byggingarlykillinn þróast með breyttum tímum frá árinu ´79. Þar af leiðandi er lykillinn mjög reglulega uppfærður eða fjórum sinnum á ári. Hægt er að fá Byggingarlykilinn í tölvutæku formi fyrir kerfi sem vinna með upplýsingar úr lyklinum. Um tvenns konar kerfi er þar að ræða, annars vegar Sporkerfið sem hentar vel þeim sem vinna að útboðs- og tilboðsgerð. Hins vegar BL-kerfi Hannarrs fyrir þá sem vinna sjaldnar að tilboðsgerð og kostnaðaráætlunum, en þurfa samt sem áður að vinna með útreikninga sem þessa á handhægan hátt.

 

Ráðgjöf við utanhússviðhald

Hannarr sér ekki aðeins um að útvega aðilum í byggingariðnaðinum handhægan leiðarvísi heldur veitir fyrirtækið einnig öllum þeim ráðgjöf sem þurfa á einn eða annan hátt að huga að byggingum og rekstri. Sem dæmi má nefnda að Hannarr veitir ráðgjöf við viðhald bygginga utanhúss, en eins og gefur að skilja þarf að halda við byggingum og húsnæði í hvaða árferði sem er. Þessi ráðgjöf felst aðallega í þremur atriðum. Í fyrsta lagi gerir fyrirtækið lauslega úttekt á þörf fyrir viðhald byggingar að utan. Í öðru lagi er gerð nákvæm úttekt á húseigninni með kostnaðaráætlun auk þess sem viðhaldsframkvæmdirnar eru boðnar út og vertaki valinn. Í þriðja lagi getur Hannarr einnig stjórnað og haft eftirlit með verkinu. Samkvæmt upplýsingum frá Hannarri kemur það oftast húseigendum til góða að bjóða út verkið, þá sé hægt að gera sér grein fyrir því í upphafi hvaða kostnaður liggi fyrir auk þess sem þannig fáist sem hagstæðast verð. Hins vegar kunni ávallt að vera maðkur í mysunni við lág tilboð og því gerir Hannarr ávallt úttekt á verktakanum til þess að velja traustan aðila til verksins. Velji húseigendur Hannarr einnig til stjórnar og eftirlits með verkinu gætir fyrirtækið þess að unnið sé eftir verklýsingum, að gæðin séu í lagi, að reikningar séu í samræmi við framkvæmdina, hafa almennt eftirlit með verktaka og bregðast við ef hann stendur sig ekki í stykkinu. Hannarr getur einnig komið að fjármögnun verksins og hjálpar húseigendum eða húsfélögum að semja við banka eða sparisjóði um lán til verksins. Eins og gefur að skilja kemur Byggingarlykill Hannars einnig vel að notum við hvers kyns viðhaldsvinnu sem og þau tölvukerfi sem Hannarr býður upp á í tengslum við lykilinn.

Að vinna að og tryggja gæðaverk

Ljóst er að um þessar mundir er byggingargleði landsmanna ekki söm og í góðærinu. En nýir tímar bjóða upp á ný gildi, ef magnið var það sem skipti máli fyrir hrun eru það gæðin sem skipta máli núna, að vinna verkin vel og skapa sér faglegan grundvöll í hverju því sem maður tekur fyrir hendur. Til þess er mikilvægt að vera vel upplýstur um viðkomandi verk. Til slíks verkefnis á sviði bygginga og framkvæmda ætti Byggingalykill Hannarrs að koma vel til brúks og fyrir þá sem þurfa að fá aðila til framkvæmda fyrir sig ætti fagleg skoðun, stjórnun og eftirlit að fara langt með að tryggja gæðaverk. Nánari upplýsingar um starfsemi Hannarrs má finna á www. hannarr.com eða í síma 553 3900.