Vörumerki fyrir Reykjavík

Eitt stærsta uppbyggingarverkefnið í miðborg Reykjavíkur til þessa verður tvímælalaust að teljast Höfðatorgsreiturinn, sem kemur til með að setja sterkan svip á borgarmyndina í náinni framtíð. Reiturinn afmarkast af Borgartúni, Skúlatúni, Skúlagötu og Höfðatúni og mun þar rísa blönduð byggð með fjölda fyrirtækja, íbúðum og hóteli, kvikmyndahúsi og ráðstefnumiðstöð.

Pétur Guðmundsson, stjórnarformaður Höfðatorgs og Eyktar, segir að við skipulagningu og hönnun á Höfðatorgi hafi verið lögð megináhersla á samræmi og gott heildaryfirbragð svæðisins og bygginganna sem munu rísa þar. Atvinnuhúsnæði á svæðinu sé ætlað að mæta óskum kröfuharðra fyrirtækja og stofnana um vandaða umgjörð, gott aðgengi og fallegt umhverfi. „Hvað varðar arkítektúrinn sérstaklega höfum við lagt mikla áherslu á að allar byggingar á Höfðatorgi verði fallegar og vandaðar, en við skipulagningu svæðisins var beitt ýmsum nýjum aðferðum sem ekki höfðu tíðkast hérlendis við þróun byggðakjarna.

Strax í upphafi var ákveðið að við ætluðum ekki að búa til enn eitt byggingaverkefnið hér í borginni. Þvert á móti settum við okkur það markmið að nýta okkur hugmyndafræði byggingarlistarinnar ásamt ímyndarsköpun og markaðsfræðum til þess að móta nokkurs konar vörumerki fyrir Reykjavík. Vel má hugsa sér að Höfðatorg verði í framtíðinni ákveðið kennileiti Reykjavíkur og eftirsóttur viðkomustaður borgarbúa og innlendra og erlendra gesta borgarinnar,“ segir Pétur.

_E9F9076

Tenging við Laugaveginn

Höfðatorgsreiturinn hentar sérstaklega vel til atvinnureksturs, að sögn Péturs, vegna hentugrar staðsetningar og nálægðar við góðar umferðaræðar. „Á undanförnum árum og áratugum hefur mikið verið byggt upp við Borgartún og um svipað leyti og sú uppbygging hófst tók eldri starfsemi á svæðinu að flytjast burt. Á Höfðatorgsreitnum var til dæmis áður gamalt iðnaðarhúsnæði Trésmiðju Reykjavíkur og Vélamiðstöðvar Reykjavíkurborgar.

Þá var Sögin hér einnig með sína starfsemi. Grófari iðnaðarstarfsemi hefur nú að mestu flust á ný iðnaðarsvæði á höfuðborgarsvæðinu sem henta betur fyrir starfsemi af þeim toga. Miðborgin hefur svo stækkað inn í þá eyðu sem við þetta skapaðist og þangað hefur nú flust starfsemi ýmissa stofnana og þjónustufyrirtækja. Það má því segja að Höfðatorg stækki miðborgina til austurs og tengi þjónustuhverfið í Borgartúni við verslunarumhverfi Laugavegar og nágrennis,“ segir Pétur.

Frágangi turnsins að ljúka

Á Höfðatorgsreitnum hefur á skömmum tíma risið upp 19 hæða turn sem setur sterkan svip á borgarmyndina. Frágangi hússins að utan er lokið og einnig lóðarframkvæmdum framan við húsið. Vinna við frágang sameignar innanhúss er á lokastigi og eru allar stofnlagnir komnar upp allt húsið, frá kjallara og upp á 19. hæð. Starfsemi er þegar hafin í húsinu en Serrano opnaði þar veitingastað um miðjan september. Gunnar Valur Gíslason, forstjóri Eyktar, segir að starfsemi fyrirtækja á efstu hæðum turnsins muni hefjast í byrjun nóvember, um leið og vinnu í innréttingum þar ljúki.

Gunnar Valur segir að turninn sé hugsaður fyrir bæði stór og smærri fyrirtæki, en jarðhæðin henti vel undir veitingastarfsemi og ýmsa þjónustu sem þurfi að vera á jarðhæð og þá jafnvel þjónustu fyrir aðra rekstraraðila í byggingunni. Aðrar hæðir séu hugsaðar fyrir skrifstofustarfsemi, bæði einkafyrirtækja og opinberra stofnanna.

_E9F9035Mikill áhugi fyrirtækja

Gunnar Valur segir að þrátt fyrir áhrif kreppunnar sé hann nokkuð bjartsýnn á framgang mála um útleigu húsnæðisins. „Fyrir hrunið var reyndar búið að ráðstafa rúmlega 40% í turninum, en einn stór leigutaki hefur dregið sig til baka. Við skynjum hins vegar mikinn áhuga fyrirtækja á að koma í turninn. Áhugi fólks hefur aukist undanfarnar vikur eftir að húsinu var lokað. Við vorum með opinn dag á síðastliðinni Menningarnótt þar sem við buðum gestum og gangandi að koma og skoða turninn. Við fengum til okkar yfir 2000 gesti og þar af fóru um 1600 manns upp á efstu hæð og nutu útsýnisins.”

 
Unnið að hagkvæmum lausnum í kjölfar verðhækkanna

“Þessa dagana erum við að ganga frá leigusamningum, en við erum að vinna með mjög framsæknum fyrirtækjum að húsnæðismálum þeirra. Við leggjum mikið upp úr því að vinna með fyrirtækjum að hagkvæmum útfærslum og lausnum í kjölfar þeirra miklu verðhækkana sem orðið hafa í byggingariðnaði á undanförnum mánuðum. Stóra spurningin er nú hvernig staða fjármálamarkaðar verður eftir endurreisn bankanna og hversu háir vextir verða í þjóðfélaginu í framtíðinni,“ segir Gunnar Valur.
_E9F9067

Fjögur hundruð ársverk við byggingu hótels

Höfðatorgssvæðið er þó fjarri því fullklárað þar sem annar turn er í farvatninu. Sá turn verður þó lægri í loftinu, en hann verður að hluta til sjö hæða og rís hæst í 16 hæðir. Grunnflöturinn verður einnig mun minni. Að mati Gunnars Vals og Péturs liggja um 400 ársverk fyrir byggingariðnaðinn í þeirri framkvæmd. Ef fyrirætlanir um fjármögnun ganga eftir segir Pétur að hönnunarvinna í nýja turninum muni hefjast upp úr áramótum og að framkvæmdir geti hafist næsta vor. Í þeirri byggingu verður hótel sem búið er að finna rekstraraðila að og er fyrirhugað að hótelið taki til starfa vorið 2012.

Hofdatorg055-2Gunnar Valur segir að þó að ákveðnir kostir fylgi því að byggja hátt, sé það ekki sérstök stefna Eyktar að reisa háhýsi frekar en aðrar byggingar. „Á ýmsum stöðum hentar vel að byggja hátt á meðan annars staðar hentar betur að byggja lægri hús. Með hærri byggð gefst kostur á að nýta betur land og opinberar fjárfestingar á borð við gatnakerfi, veitukerfi og fleira. Slík uppbygging getur líka skapað stærri opin svæði milli húsa. En há byggð getur líka haft ókosti ef menn gæta sín ekki við hönnunina,“ segir Gunnar Valur.

Pétur segir að kröfur um aukna landnýtingu á liðnum árum hafi kallað á meiri þéttingu byggðar og sú stefna hafi meðal annars verið mótuð fyrir um áratug síðan með svæðisskipulagi höfuðborgarvæðisins. „Hvernig þeirri stefnu verður fylgt eftir í framtíðinni er borgaryfirvalda að ákveða. Aðalskipulag borgarinnar hefur nú um nokkurt skeið verið í endurskoðun og í kynningu um þá vinnu hefur komið fram að til standi að marka stefnu um hvar megi byggja hátt í borginni og hvar slík uppbygging verði takmörkuð,“ segir Pétur.

Höfðatorgsreiturinn hentar sérstaklega vel til atvinnureksturs vegna hentugrar staðsetningar og nálægðar við góðar umferðaræðar..

_E9F9062Hlýlegur miðbæjarkjarni

Pétur og Gunnar Valur segja að stefnan sé nú tekin á að klára uppbygginguna á Höfðatorgi og byggja þar upp hlýlegan miðbæjarkjarna þar sem fjölbreytt mannlíf getur þrifist. Þar vilji þeir búa til fallegt umhverfi með vönduðu skrifstofuhúsnæði, veitingastöðum, kaffihúsum, verslunum og ýmislegri annarri þjónustu þar sem fólk getur átt skemmtilegar og góðar stundir.

Við skynjum hins vegar mikinn áhuga fyrirtækja á að koma í turninn. Áhugi fólks hefur aukist undanfarnar vikur eftir að húsinu var lokað. Við vorum með opinn dag á síðastliðinni Menningarnótt þar sem við buðum gestum og gangandi að koma og skoða turninn. Við fengum til okkar yfir 2000 gesti og þar af fóru um 1600 manns upp á efstu hæð og nutu útsýnisins.”

Eykt ehf. Þekkingarfyrirtæki í byggingariðnaði

Skúlagötu 63 | 105 Reykjavík
Sími: 595 4400 | Fax: 595 4499
[email protected]  www.eykt.is