Það er óvíða sem sumarkvöldin og næturbirtan er fallegri en í Skagafirði. Breiður fjörðurinn opnast á móti norðri og tvær og hálf eyjan í firðinum fullkomna myndina. Drangey, á myndinni ásamt klettinum Kerlingu liggur í miðjum firðinum. Þar er einstaklega fjölbreytt fuglalíf og mest ber á stuttnefju, langvíu, álku og lunda, auk ritu og fýls. Eyjunnar er fyrst getið í Grettis sögu, en útlaginn Grettir Ásmundsson bjó þar síðustu þrjú árin ásamt Illuga bróður sínum og þrælnum Glaumi. Grettir sterki var veginn í Drangey árið 1031. Málmey en önnur eyja, norðar og austar í firðinum, en þar var búið frá landnámi til 1950, þegar bærinn brann ofan af 14 manna fjölskyldu, síðan hefur eyjan verið í eyði. Sagt er að álög séu á Málmey. Þar má engin búa lengur en 20 ár, og ekki mátti koma með hest í Málmey, þá yrði húsfreyjan brjáluð. Rétt sunnan Málmeyar og norðan við þorpið Hofsós er Þórðarhöfði, eyja sem er ekki eyja, því tvö lág eiði tengja klettahöfðan við fastlandið.
Skagafjörður 18/07/2021 19:51 200-600mm
The picture: Looking west from Höfðaströnd to Drangey in Skagafjörður
Photo and text: Páll Stefánsson