Please contact for tours and booking information.
Ferðafélag Íslands í fararbroddi í 90 ár
Ferðafélag Íslands var stofnað 1927 og hefur það markmið að byggja upp aðstöðu fyrir ferðamenn á hálendinu og í óbyggðum og greiða götu ferðamanna á landinu. Þá gefur FÍ út bækur og kort og stendur fyrir fjölbreyttum ferðum um landið. Félagið á 40 skála og undir merkjum félagsins starfa 15 deildir út um allt land. Ferðafélagið er í eðli sínu íhaldssamt og rótgróið og heldur fast í gömul og góð gildi. Um leið hefur það þó þróast í takt við tímann. Til dæmis var Ferðafélag barnanna stofnað fyrir nokkrum árum en það sérhæfir sig í ferðum fyrir börn og fjölskyldur og hefur fengið afar góðar móttökur. Þá hefur félagið verið í fararbroddi í ferðamennsku og byggt upp skála, gönguleiðir, göngubrýr og staðið fyrir fræðslu. Markmið félagsins eru í dag enn þau sömu og í upphafi, að greiða götu ferðamanna, byggja upp aðstöðu sem og standa fyrir ferðum, útgáfu og fræðslu. Stór þáttur í útgáfustarfi félagsins er útgáfa Árbókar Ferðafélagsins sem hefur komið út óslitið í 85 ár og er einstök ritröð um náttúru landsins.