Solid Clouds

Herkænska sem kemur sér vel

Solid Clouds

Starfsmenn fyrirtækisins Solid Clouds vinna að þróun tölvuleikjarins Starborne og er búist við að allt að 20.000 manns geti spilað á hverju korti fyrir sig. Stefán Gunnarsson, einn eigenda og framkvæmdstjóri fyrirtækisins, segir að leikurinn gangi út á herkænsku sem gott sé að kunna í daglegu lífi.

Starfsmenn fyrirtækisins Solid Clouds hafa í rúm tvö ár unnið að gerð tölvuleikjarins Starborne og er gert ráð fyrir að hann komi á markað næsta haust. Hugmyndin að leiknum kviknaði fyrir um 20 árum. „Ég kynntist herkænskuleiknum Austerlitz sem var spilaður í gegnum póst og varð svo hrifinn af honum að ég fékk einkaleyfi á honum á Íslandi,“ segir Stefán.

solid cloud icelandic times sc-okt2015-4„Sá leikur gerðist í Napóleonsstríðunum og var ég kominn með tæplega 200 spilara á Íslandi sem sendu mér aðgerðir sínar í gegnum póst á tveggja vikna fresti. Upp úr þessu myndaðist félagsskapur og ég ásamt þremur öðrum spilurum stofnuðum fjárfestingarfélag sem meðal annars fjárfesti í CCP og höfum síðan verið í stöðugum samskiptum.“Með tilkomu internetsins færðust þessir póstleikir þangað. Netútgáfur af þessum leikjum heilluðu Stefán en þróun þeirra staðnaði full fljótt að hans mati og þar sá hann tækifæri. „Til að undirbúa mig fyrir verkefnið fór ég bara í tölvunarfræði og kláraði hana. Síðan stofnaði ég ásamt öðrum Solid Clouds skömmu eftir útskrift.“

Starborne_Logo_artwork03printBandalög mikilvæg
„Líkja má Starborne við borðspil þar sem í einum leik geti allt að 20.000 spilarar barist um yfirráð á risastóru korti. Svo geta verið eins mörg kort í gangi og leikmannafjöldinn krefst en vilji leikmaður hafa mikil áhrif á heimsmynd síns leiks skipta samskipti við aðra spilara miklu máli. Það er vel hugsanlegt að spila við leikmann frá Kína og þá reynir á mannleg samskipti en alls konar fólk gæti verið saman komið á hverju leikborði.
Þetta er ákveðin leikjategund, sem oftast kallast 4X leikur, og er hin vinsæla leikjasería Civilization í þeim hópi. Fólk sem fílar þann leik getur auðveldlega séð sig í Starborne. Fólk byrjar smátt og stækkar með tíð og tíma og planar og plottar. Leikurinn á að gerast í kringum árið 2300 og í breyttum heimi. Búið er að nema land og mynda þjóðfélög bæði á tunglinu og á Mars og geimferðalög eru orðin hvunndagshlutur. Jörðin er byrjuð að dala og hefur ESA (European Space Agency) hafið veitingu leyfa fyrir landnámi á nýjum svæðum í geimnum. Þetta er sagan að endurtaka sig, líkt og landnámskapphlaupið í Norður Ameríku.“

LightattackShipSex mánaða ferli
Hver spilari fær í upphafi litla geimstöð og smá svæði í kringum hana. „Þessi spilda vex svo og dafnar undir stjórn spilarans, fleiri stöðvar bætast við og landamæri þenjast út. Spilarinn framleiðir orustuskip sem hann nýtir til að herja á andstæðinga sína. Það skal tekið fram að leikurinn stöðvast í raun aldrei. Þótt spilari skrái sig út úr leiknum í einhvern tíma heldur leikurinn áfram sínum gangi.“

Stefán segir að hver leikur geti tekið um hálft ár. „Fyrstu tvo mánuðina er viðkomandi að koma sér fyrir á kortinu og að kynnast nágrönnum sínum. Bandalög myndast á þriðja og fjórða mánuði og ákveðin pólitík fer í gang. Á fimmta og sjötta mánuði opnast fyrir leikkerfi og pólitískar leikfléttur sem þessi bandalög þurfa að spila sig í gegnum til að vinna leikinn. Leikborðið skiptist niður í svæði og á endanum hópa nálæg svæði sig oftast saman og berjast við hin svæðin. Fyrsta bandalagið sem nær að klóra sig í gegnum endaleikinn vinnur og hlýtur heiður fyrir það með táknrænum verðlaunum sem færast á milli leikja.“

solid cloud icelandic times TradePost_01Herkænska
Stefán segist lofa því að Starborne sé einstakur leikur og að þeir sem hafa á annað borð gaman af herkænsku muni geta fundið sig í honum. „Ég nota herkænsku daglega hvort sem það tengist stjórnun, samskiptum við fólk eða mótun framtíðaráætlana; þetta er allt kænska. Herkænska er ákveðinn hæfileiki sem nýtist fólki til framtíðar. Kortið verður líka þannig að bara það að skoða það er ákveðin upplifun. Það verða fullt af smáatriðum til að kanna nánar og pæla í, fyrirbrigði eins og svarthol og dvergstjörnur. Fólk getur líka sent út flota sína til að leysa úr alls konar verkefnum. Þetta verður smá Star Trek.”

solid cloud icelandic times UI_OpenFleet_it_01Grunnur til framtíðar
Áætlað er að þessi týpa herkænskuleikja velti hátt í milljarði dollara í ár og er fjöldi spilara að jafnaði um 20 milljónir. Stefán og félagar fengu frumkvöðlastyrk og verkefnastyrk frá Rannís sem hafa nýst gífurlega vel og auðveldað frekari fjármögnum. Íslenskir frammámenn í tölvuleikjaframleiðslu hafa gengið til liðs við Solid Clouds. Hrafnkell Óskarsson, sem var einn af fyrstu starfsmönnum CCP og átti ríkan þátt í hönnun og sögusköpun EVE Online, er framleiðslustjóri Starborne og Ásgeir Ásgeirsson, fyrrverandi listrænn stjórnandi EVE, er einnig kominn um borð. Tæpt ár er í að leikurinn fari á markað og segir Stefán að vinnan sem fari í Starborne nýtist Solid Clouds í framtíðinni.

Solid Clouds

„Þetta er grunnur að framtíðinni, vinnan hérna mun endurnýtast í framtíðarverkefni. Þetta er skemmtilega krefjandi verkefni, enda stærsti tölvuleikur sem smíðaður hefur verið hérlendis síðan EVE Online.“

Nánari upplýsingar um Starborne er hægt að nálgast á www.starborne.com. Þess má einnig geta að umsóknir til þátttöku í prófunum á Starborne eru opnar og finnast á síðunni.-SJ

Sjá nánar hér 

Solid Clouds

www.starborne.com

 

https://www.youtube.com/watch?v=5__ZLeOMkLM&feature=emb_logo