Snemma í morgun þegar þessar dömur ákváðu að taka sér sundsprett í Fossvoginum, var lofthitinn 16°C / 60°F og sjávarhitinn 14°C / 57°F. Nauthólsvíkin í Fossvogi hefur frá árinu 1949 verið einn helsti sjóbaðsstaður höfuðborgarbúa. Ylströnd með heitum potti og manngerðu volgu sjávarlóni opnaði þarna vorið 2000. Á sama tíma opnaði þarna þjónustumiðstöð með heitum sturtum, salernum, og sjoppu. Í seinni heimsstyrjöldinni var þarna í Nauthólsvíkinni aðstaða fyrir norsku flugsveitina RAF 330, en hennar aðalstarf var að vernda skipalestir bandamanna, og eftirlit og njósnaflug með þýskum kafbátum. Norska sveitin flaug sjóflugvélum af gerðinni Northrop. Ein slík liggur á hafsbotninum í minni Fossvogs á 22 m / 72 ft dýpi. Þjónustumiðstöðin er opin alla daga frá 10 til 19 GMT.
Reykjavík 10/08/2021 09:09 28mm
Ljósmynd og texti : Páll Stefánsson