Miðnætursólin kyssir klettinn Karl, norður á Langanesi

Uppáhalds

Eftir yfir 40 ár sem atvinnuljósmyndari, þá lærir maður að það er ekkert sjálfgefið í ljósmyndun. Maður er alltaf að læra meira. Þegar maður er að glíma við landslagið, þá er maður bara peð. Því það er birtan sem býr stemminguna, birta sem þú hefur enga stjórn á. Maður er bara heppinn að vera á réttum stað, á réttum tíma. Eða ekki. Hér eru tvær uppáhalds myndirnar mínar. Önnur tekin norður á Langanesi, nokkrum mínútum fyrir miðnætti um sumarsólstöður. Hef verið þar hátt í tuttugu sinnum á þessum árstíma. Veit hvað nesið hefur upp á bjóða. En maður veit aldrei, hvað maður fangar þarna einn með nætursólinni. Hin myndin er tekin í dagrenningu, nálægt hádegi yfir Holtsós undir Eyjafjöllum, í janúar. Þar sem himininn og vatnið renna saman, með kambinn milli Holtsós og Atlantshafsins sem hvíta línu, eftir snjókomu næturinnar. Það var kalt, hvasst og ég á hraðferð austur í Vestur-Skaftafellssýslu. Setti upp þrífót, rammaði inn, tók síðan bara eina mynd, og hélt svo áfram. Enda stuttur dagur. 

Dagrenning um hávetur við Holtsós, undir Eyjafjöllum

Ísland 13/05/2024 : A7R III, A7R IV – FE 2.8/100mm GM, FE 2.8/90mm G
Ljósmyndir & texti : Páll Stefánsson