„Ég vel mér liti og eitthvað kemur til mín“

Ragnheiður Gunnarsdóttir er kona eigi einhöm, eins og sagt er. Í vinnunni sjá haukfrán augu hennar til þess að rekstrargögn stemmi og tölur passi upp á punkt og prik, en þess á milli málar hún af listfengi og finnur þar að eigin sögn ómissandi mótvægi við bókhaldið.

„Ég er bókari og hef verið alla mína hunds- og kattartíð,“ segir Ragnheiður í gamansömum tón. „En listsköpun blundaði alltaf í mér og árið 2010 hófst ég handa við að mála. Þá flutti sonur minn ásamt fjölskyldu til útlanda til að leggja stund á sérnám og þegar barnabörnin voru ekki lengur til staðar þurfti að verja ömmutímanum einhvern veginn öðruvísi,“ útskýrir hún. Myndir sínar málar Ragnheiður með akrýl á striga. „Ég mátaði mig við olíuna en hún átti ekki við mig,“ segir myndlistarkonan kankvís.

Málarinn og listamaðurinn

Ragnheiður fór í kjölfarið á nokkur námskeið til að slípa tæknina til og hefur ekki litið um öxl síðan. Í dag segist hún ekki ekki getað hugsað sér lífið án listarinnar. „Ég get ekki án þess verið að mála. Ég finn slökun og hugarró þegar ég mála og finnst það nauðsynlegt mótvægi við vinnuna.“ Ragnheiður nýtur líka dyggs stuðning frá hendi eiginmannsins því hann tekur tilbúin verk hennar og smíðar ramma utan um þau, enda handlaginn með eindæmum að hennar sögn. „Ég segi oft að ég sé málarinn og hann listamaðurinn,“ bætir hún við og hlær.

Veit ekki fyrirfram hvað kemur á strigann

Mótífin eru margvísleg í list Ragnheiðar, fólk í bland við hlutbundið myndefni á borð við blóm í vasa. „Um tíma málaði ég líka mikið af gömlum húsum, ég veit samt ekki alveg hvaðan það myndefni kom,“ segir Ragnheiður og brosir hugsi. „Ég mála líka talsvert abstrakt – ætli það sé ekki viðfangsefnið sem helst kallar í dag.“ Engu að síður er það svo að hún ákveður aldrei fyrirfram hvað hún er að fara mála þegar hún mundar penslana. „Ég vel mér bara liti sem kalla á mig í það skiptið og eitthvað kemur til mín í framhaldinu.“

Sumar myndir þurfa pásu

Að sögn Ragnheiðar er hún yfirleitt fljót að ljúka við myndir þegar hún hefur á annað borð byrjað að mála. Flestar málverkin klárast í einni setu þó þau taki mislangan tíma að verða fullgerð. „Stundum hef ég klárað verk á tveimur klukkutímum, aðrar taka lengri tíma. Svo kemur það fyrir að ég skynja að ég er ekki að finna réttu lausnina á tilteknu verki. Þá þýðir ekkert annað en að taka sér pásu frá myndinni og byrja á annarri. Þá bregst ekki að leiðin til að klára fyrri myndina kemur til mín og þá sný ég mér aftur að henni til að loka henni. Og ég veit alltaf upp á hár hvenær mynd er tilbúin og ekki þarf að vinna við hana meir.“

Þurfti stöðugt að fylla á sýninguna

Aðspurð um sýningahald á næstunni segir Ragnheiður ekkert ákveðið í þeim efnum; hún sé hlédræg að eðlisfari og þyki frekar óþægilegt að koma sér á framfæri. Hún setti þó upp sölusýningu í veitingastaðnum Viðvík á Hellissandi í sumar og þurfti ítrekað að fylla á veggina því verkin seldust grimmt. Ragnheiður segist vel geta hugsað sér að endurtaka þann leik. „Svo er ekki loku fyrir það skotið að ég setji nokkrar myndir upp hjá mér í bílskúrnum því þar er ég með ljómandi góða aðstöðu. Hver veit?“

Ragnheiður Gunnarsdóttir

Ragnheiður fær líka töluvert af beiðnum um að mála myndir eftir pöntun og hefur nóg fyrir stafni í myndlistinni. Hæfileikar hafa jú lag á að spyrjast út, óháð því hve röskur listamaðurinn er að koma sér á framfæri hverju sinni. Einföld hagfræði kveður líka á um að verð hækki jafnan með eftirspurn svo nú gæti verið lag fyrir áhugasama. Verk eftir Ragnheiði má skoða hér á meðfylgjandi myndum.

Texti: Jón Agnar Ólason