Þjóðleikhúsið er að sigla inn í tímamótaár en það fagnar 75 ára afmæli sínu árið 2025. Um leið og áhugaverð ný verk bíða þess að tjaldið verði dregið frá, þar sem gaman og drama koma bæði við sögu, sýnir leikhúsið áfram fjögur geysivinsæl sviðsverk frá síðasta leikári—meðbyr sem Magnús Geir Þórðarson Þjóðleikhússtjóri tekur fagnandi.
„Skemmst er frá því að segja að það er alveg ótrúlega fjölbreytt dagskrá hjá okkur framundan, margt í boði og sjaldan meira,“ segir Magnús Geir þegar talið berst að leikárinu framundan. „Eitt af því sem einkennir leikárið hjá okkur að það eru óvenju margar sýningar eru á gríðarlega miklu flugi frá síðasta ári og halda því áfram hjá okkur í vetur. Þar á meðal eru Grímuverðlaunasýningin Saknaðarilmur, stórsöngleikurinn Frost og svo Orð gegn orði. Að ógleymdu uppistandssýningunni Á rauðu ljósi sem sló í gegn. Af nýjum sýningum langar mig að nefna drepfyndið íslenskt gamanleikrit sem heitir Eltum veðrið sem verður frumsýnt strax í byrjun október. Þar eru margir helstu gamanleikarar landsins samankomnir og við finnum mikinn spenning fyrir þessu verki þar sem við sjáum íslensku þjóðina í hnotskurn að elta veðrið.“
Jólasýning Þjóðleikhússins er að þessu sinni leikritið Yerma – gríðarlega kraftmikið verk að sögn Magnúsar. „Þetta er nýtt nútímaverk sem Gísli Örn Garðarsson ætlar að setja á svið með Nínu Dögg Filippusdóttur í aðalhlutverki, og ég á von að muni hreyfa við áhorfendum með áþekkum hætti og Mayenburg-þríleikurinn sem við sýndum í fyrra, sælla minninga, enda verk á svipuðum nótum.“ Að auki nefnir Magnús Geir nýtt verk eftir Hrafnhildi Hagalín, sem nefnist Heim. „Þetta er feikilega vel skrifað verk um íslenskt fólk, íslenska fjölskyldu í dag.“ Magnús nefnir einnig Taktu flugið beibí, Jólaboðið og Blómin á þakinu sem er eitt af sex barnaverkum sem verða á boðstólum í vetur.
Íslenskur veruleiki og sagasem hreyfir við okkur
Eftir áramót verður svo nýr íslenskur söngleikur frumsýndur. Hann nefnist Stormur og byggir á lögum hinnar vinsælu tónlistarkonu Unu Torfadóttur. „Þetta er saga sem Unnur Ösp Stefánsdóttir skrifar og leikstýrir, og vinnur í samráði við Unu. Þetta er saga sprottin beint úr íslenskum veruleika, saga sem við tengjum öll við og hreyfir við okkur, með þessari dásamlegu tónlist Unu,“ segir Magnús Geir. „Ég held mér sé óhætt að fullyrða að leikárið einkennist af sögum sem standa nálægt okkur. Mikil frumsköpun í gangi, miklar tilfinningar og frábærir leikarar.“
Maður gæti ætlað að erfitt væri að fylgja eftir svo sterku leikári sem hið síðasta var í Þjóðleikhúsinu, með vísan til þess að fjórar sýningar eru enn á fjölunum, en Magnús Geir segir það öðru nær. Þvert á móti gefi það ótvíræðan byr í seglin í haust og vetur. „Þetta er í reynd alger lúxusstaða og við erum ákaflega glöð með það hvað við komum sterk og stolt út úr síðasta leikári. Mörg verk með metaðsókn og sýningarnar okkar komu um leið afskaplega vel út á Grímuverðlaununum. Þegar við þurfum að hætta sýningum fyrir fullu húsi þá gefur auga leið að við förum inn í nýtt leikár með troðfulla sali og allt komið á fleygiferð strax í lok ágúst. Þetta snýst jú alltaf um áhorfendur og það er alltaf skemmtilegra í leikhúsi þegar maður finnur að áhuginn er ótvíræður og fullt á sýningum. Öðru fremur er staðan okkur mikil hvatning til að halda áfram á sömu braut.“
Leikhúsið endurspeglar alltaf samtímann
Eins og vera ber tekur lifandi leikhús mið af sínu ytra umhverfi – dregur dám af tíðarandanum, ef svo mætti að orði komast. Magnús Geir tekur heilshugar undir þetta. „Leikhúsið er alltaf ákveðinn spegill samtímans hverju sinni. Í aðra röndina fjallar svo leikhúsið um eitthvað sem er sam-mannlegt og eilíft—mannlegar tilfinningar, ást og kærlegik, hatur og átök, fjölskyldur, elskhugar og þannig mætti lengi telja og það er partur af því sem við erum að gera. Þess vegna eru leikhús almennt enn að sýna Shakespeare, Chekhov, klassísku Grikkina.“
En um leið eru Magnús Geir og samstarfsfólk hans stöðugt að reyna að tengja leikhúsið lífi fólks í dag og láta verkefnavalið endurspegla málefni sem brenna á fólki. „Það sem er kannski svolítið áberandi hjá okkur í vetur er að við erum að velta fyrir okkur samböndum fólks og fjölskyldunni sem kjölfestunni í þessu öllu saman,“ bendir Magnús Geir á. „Svo erum við líka að taka á málum sem hafa verið ofarlega á baugi og þar nefni ég kannski fyrst Orð gegn orði en við erum að fara sýna 70. sýninguna innan skamms. Þetta er verk sem við frumsýndum í fyrra, ótrúlega kröftugt og flott verk þar sem Ebba Katrín Finnsdóttir fer með aðalhlutverkið. Þar er verið að fjalla um kynferðislega áreitni og hvernig réttarkerfið vinnur úr slíkum málum. Þetta er feikilega klókt verk þar sem við komumst mjög nálægt þessu máli og kynnumst því á allt annan hátt en þann sem við erum að sjá í fjölmiðlum alla daga.“
Annað verk sem er að sögn Magnúsar með báða fætur í samtímanum er áðurnefnt verk með tónlist Unu Torfadóttur, Stormur. „Þetta verk fjallar um líf ungs fólks sem er að klára háskóla og er að stíga inn í líf fullorðna fólksins og fóta sig í þeim heimi. Þar ber margt á góma sem tengist lífinu á Íslandi í dag og þessu flókna umhverfi sem við lifum í. Ég get sagt þér að það var samlestur á þessu verki í gær og hér hreinlega táraðist fólk yfir ýmsu sem hefur svo ríka skírskotun akkúrat í dag út af því sem við erum að upplifa allt í kringum okkur.“
Kúnstin að setja saman nýtt leikár
Það er viðbúið að virðuleg stofnun eins og Þjóðleikhúsið þarf að koma til móts við sem flesta og gæta að víðtæku hlutverki sínu í menningarlífi landsmanna en vera um leið nýtt og ferskt og með puttann á púlsinum þegar kemur að efnisvali. Hvernig ber ábyrgðarmaðurinn —sjálfur Þjóðleikhússtjórinn—sig að þegar kemur að því að leggja drög að nýju leikári? Magnús Geir kímir við. “Það er rétt, þetta er snúið verkefni en alveg ótrúlega skemmtilegt. Í leikhúsinu hér vinnum við á þann hátt að þó leikhússtjóri beri endanlega ábyrgð og leiði vinnuna þá vinnur hann með öflugu teymi, verkefnavalsnefnd sem er að störfum allt árið. Og við erum alltaf að reyna að lesa í—hvaða sögur vilja áhrorfendur heyra og hvaða sögur þurfa áhorfendur að heyra, og hvað er það sem skiptir máli fyrir samfélagið að borið sé á borð. Með þetta í huga erum við stöðugt að fálma út í umhverfið, með því að fylgjast með því sem er að gerast í leikhúsunum úti í heimi, lesum nýútkomnar skáldsögur, erum í stöðugu sambandi við höfunda. Við erum alltaf með ótal hugmyndir og ótal verk í skoðun og umræðu. Hægt og rólega þrengist þetta niður og á endanum erum við með leikár.“
Og það er einmitt það sem Magnús Geir og samstarfsfólk hans ber á borð fyrir landsmenn nú í haust og vetur. Það er ekki annað að sjá og heyra en að Þjóðleikhúsið fari inn í 75. árið á fullu stími, ferskt og framsækið.
Texti: Jón Agnar Ólason