Hornbjarg er þverhnípt sjávarbjarg og fuglabjarg sem rís úr sjó á norðvestur horni Vestfjarða. Hæstu tindar þess eru Kálfatindur 534 m og Jörundur 429 m. Nyrsta nef Hornbjargs heitir Horn en það er nyrsti tangi Vestfjarða og miðja Hornstranda en þar skiptast þær í Austur- og Vesturstrandir. Hornstrandir draga nafn sitt af Horni. Innst við sunnanvert Hornbjarg standa berggangarnir Fjalir.
Í Flateyjarbók er sagt frá ferð fóstbræðranna Þormóðs Kolbrúnarskálds og Þorgeirs Hávarðssonar í Hornbjarg þar sem Þorgeir missti fótfestu í bjarginu en bjargaði sér með að halda í hvannnjóla þar til Þormóður kom honum til bjargar.
Mikið er um langvíu í Hornbjargi en einnig eru þar milljónir af stuttnefju, máfi og ritu. Einnig eru þar fuglategundir eins og hvítmáfur, álka, fýll, æðarfugl, svartbakur, hávella, toppönd, óðinshani, lundi og teista. Fuglabjargið er þéttsetnast á Jörundi og í þræðingum Dyraskarða sem liggja milli Jörundar og Kálfatinda. Hornbjarg hefur verið nytjað til eggjatöku frá fornu fari og er eggjataka ennþá stunduð í Harðvirðisgjá.
Örnefnið Kálfatindur
Í Íslenzkar þjóðsögur og ævintýri segir svo um tilurð örnefnisins Kálfatindur:
„Efsti tindur á Hornbjargi heitir Kálfatindur og á nafnið að vera þannig komið til: Frændur tveir bjuggu á Horni, næsta bæ við Hornbjörg. Var annar kathólskrar trúar, en annar lútherskrar trúar; þrættust þeir mjög um það hver trúin væri betri; því hver hélt með sinni trú. Kom þeim að lokum saman um að reyna kraft trúarinnar þannig: Þeir áttu báðir alikálfa og fóru með þá upp á efstu gnípu bjargsins, beiddust þar fyrir. Hinn lútherski beiddi guð þríeinan að bjarga kálfi sínum, en hinn beiddi Maríu og alla helga menn að varðveita sinn kálf. Var síðan kálfunum báðum hrundið ofan fyrir bjargið. En þegar að var gáð þá var kálfur lútherska mannsins lifandi að leika sér í fjörunni, en hinn týndist svo ekki sáust eftir nema blóðslettur. Játaði þá hinn kathólski að Lútherstrú væri betri og snérist til hennar.“
Hornbjarg
Yst á Hornströndum heitir
Hornbjarg og Kópatjörn;
þeir vita það fyrir vestan,
þar verpir hvítur örn.
Um sumarnótt, er sveimar
sól yfir norðurslóð
og þoka sígur um sjóinn,
hann situr rauður sem blóð.
Og örninn lítur ekki
oná hið dimma haf,
og horfir í himinljómann –
hafskipið sökkur í kaf.
Ljóðmæli eptir Jónas Hallgrímsson