Eitt af nýlegum byggingaverkefnum Búseta, íbúðarhús við Keilugranda 1-11, séð úr lofti.

Að skapa virði til framtíðar í meira en 40 ár

Búseti er húsnæðissamvinnufélag að norrænni fyrirmynd. Félagið hefur vaxið ört á síðustu árum og hefur fjölgað íbúðum í eignasafni sínu um ríflega 100 íbúðir á ári síðustu sex árin. Nú býður samstæða félagsins alls upp á ríflega 1.400 íbúðir. Félagið á farsæla sögu og fagnaði á síðasta ári 40 ára afmæli.

Tölvugerð mynd af nýbyggingarverkefni Búseta við Hallgerðargötu 24-26 í Reykjavík, skammt frá Íslandsbankalóðinni á Kirkjusandi í Laugarnesinu. Íbúðirnar verða afhentar í nóvember á þessu ári.

Í dag eru um 1.000 íbúðir á vegum Búseta húsnæðissamvinnufélags og um 400 íbúðir eru leigðar út með hefðbundnum hætti á vegum dótturfélags Búseta sem kallast Leigufélag Búseta, útskýrir Bjarni Þór Þórólfsson, framkvæmdastjóri. „Félög eins og Búseti eru í eigu allra félagsmanna og opin öllum óháð aldri og búsetu. Félagið þjónar þannig mjög breiðum hópi fólks um leið og sjálfbærni og langtímahugsun eru samofin rekstri og menningu Búseta.“
Búseti vinnur að hagsmunum félagsmanna, tryggir umsjón, viðhald, endurnýjun og fjölgun fasteigna með hagkvæmum hætti, eins og Bjarni útskýrir. „Félagsmenn fá úthlutað félagsnúmeri þegar þeir ganga í félagið og er það hagur hvers og eins að skrá sig snemma í félagið því lægra félagsnúmer hefur forgang á það sem hærra er. Þegar ákveðið er að sækja um búseturétt þá ræður félagsnúmerið m.ö.o. hvar viðkomandi lendir í röð umsækjenda,“ bætir hann við.

Nýleg hús Búseta við Tangabryggju í Bryggjuhverfinu.
Hvað er Búseturéttur?

„Búseturéttur er þín skilgreinda eign sem íbúa og búseturéttarhafa,“ bendir Bjarni á. „Á Norðurlöndunum, þar sem þetta fyrirkomulag er algengt, talar fólk gjarnan um að kaupa íbúð þegar það kaupir búseturétt því búseturétturinn er ávallt bundinn sömu íbúðinni. Einungis eigandi búseturéttarins getur ákveðið að selja búseturéttinn.“
Markmið félagsins er að byggja, reka og viðhalda íbúðarhúsnæði til langs tíma í þágu félagsmanna, útskýrir Bjarni. Félagið gætir hagsmuna félagsmanna með sjálfbærni og langtímahugsun að leiðarljósi. „Byggt á nútímalegum og faglegum stjórnarháttum lætur félagið gott af sér leiða og framtíðarsýnin er að skapa félagsmönnum og búseturéttarhöfum virði til framtíðar í formi húsnæðis af gæðum og góðrar þjónustu.“

Bjarni Þór Þórólfsson, framkvæmdastjóri Búseta.
Farsæll kostur fyrir fyrstu kaupendur

Félagið hefur í gegnum árin reynst fyrstu kaupendum farsæll kostur, bendir Bjarni á. „Í síðustu nýbyggingarverkefnum félagsins hefur verið að finna minni íbúðir á hagkvæmum kjörum sem höfða til þessa hóps. Búseti býr að mikilli reynslu og þekkingu hvað varðar fasteignaþróun og hefur tekist að mæta búsetuþörf félagsmanna sinna í víðu samhengi.
Þessa dagana standa yfir framkvæmdir við Hallgerðargötu í Reykjavík, skammt frá Kirkjusandi. Verkefnið, sem hefur að geyma 42 íbúðir, gengur vel og verða íbúðirnar afhentar nýjum íbúum í nóvember.“ Um er að ræða tvískipta byggingu með bílakjallari sem er staðsteypt og klædd að utan. Íbúðirnar eru fjölbreyttar að stærð og gerð, tveggja til fimm herbergja og verða góð viðbót við eignasafn Búseta á svæðinu. „Við hjá Búseta erum mjög spennt að byggja á þessu svæði sem er í nálægð við fjölmörg útivistar- og náttúrusvæði í Lauganeshverfi og Laugardal. Stíll húsanna rímar við útlit þeirra húsa sem fyrir eru og þau sem áformað er að byggja við Kirkjusand, samkvæmt gildandi skipulagi svæðisins,“ segir Bjarni Þór. Það eru Gláma-Kím arkitektar sem eiga heiðurinn af hönnun húsanna við Hallgerðargötu en þau samrýmast viðmiðum um algilda hönnun þar sem áhersla er á gott aðgengi fyrir alla. „Innréttingar og eldhústæki eru af vandaðri gerð og byggingarnar eru í samræmi við stefnu Búseta um vandaðar og endingargóðar íbúðir þar sem fólki líður vel,“ segir Bjarni Þór.

Búseti er þátttakandi í uppbyggingunni á Höfðanum og á þessari tölvugerðu mynd sést hús Búseta, Eirhöfði 1, en það er stærsta húsið á litaða reitnum, efst fyrir miðju.
Nálægð við hafið – fallegar gönguleiðir

Fyrir skömmu keypti Búseti 133 nýlegar íbúðir af leigufélaginu Heimstaden og tók þá við gildandi leigusamningum með það í huga að selja íbúðirnar til félagsmanna þegar þeim er skilað af leigjendum. Íbúðirnar, sem eru staðsettar við Tangabryggju í Reykjavík eru fjölbreyttar að stærð og gerð, með vönduðum innréttingum og allar með stæði í lokaðri bílageymslu. „Mikil eftirspurn hefur skapast þegar búseturéttir hafa verið auglýstir, enda um skemmtilegar íbúðir að ræða í fallegu og vaxandi hverfi á góðum stað í borginni,“ útskýrir Bjarni. „Þar sem áður var athafnasvæði fyrirtækisins Björgunar rís nú íbúðabyggð og mannvænt borgarhverfi í góðum tengslum við aðra borgarhluta. Í hverfinu er einstök nálægð við hafið og fallegar gönguleiðir.“
Skóflustunga að 46 nýjum íbúðum sem Búseti byggir við Eirhöfða 1 á Ártúnshöfða Reykjavíkur var tekin í nóvember 2023. Sérverk sér um byggingu íbúðanna og ASK arkitektar sáu um hönnun húsanna. Fyrirhugaðar framkvæmdir á Ártúnshöfðanum munu gjörbreyta ásýnd þessa rótgróna atvinnu- og iðnaðarhverfis. Fjölmenn íbúðabyggð mun rísa á höfðanum þar sem áður hafa verið bílasölur og iðnfyrirtæki. „Á byggingarreitnum sem um ræðir verða samtals byggðar 148 íbúðir í fjórum húsum af fyrirtækinu Sérverki. Íbúðirnar verða fjölbreyttar að stærð og gerð. Um er að ræða sex hæða hús með tveimur stigagöngum sem áætlað er að verði tilbúið til afhendingar í lok árs 2025,“ segir Bjarni Þór að endingu.

Framkvæmdastjórinn og Frumherjinn: Bjarni Þór og Páll Gunnlaugsson arkitekt blaða í fyrsta eintakinu af bókinni Búseti 1983-2023: Baráttusaga sem Páll skrifaði og kom út á síðasta ári. Páll nam í Lundi í Svíþjóð á sínum tíma og kynntist þar fyrirkomulagi húsnæðissamvinnufélaga. Eftir heimkomuna barðist hann fyrir stofnun slíks félags hér á landi og var bæði í hópi stofnfélaga Búseta og einn af fyrstu stjórnarmönnunum.
Að skapa fólki falleg og vönduð heimili

Rekstur Búseta gengur mjög vel og hefur félagið vaxið og dafnað á síðustu árum. Á undanförnum sex árum hafa heildareignir samstæðu félagsins vaxið úr um 39 milljörðum króna í yfir 90 milljarða. Nýframkvæmdir hafa gengið vel sem og rekstur félagsins og er fjárhagsstaða þess sterk. Á þessu sama tímabili hefur verið mikil eftirspurn eftir íbúðum félagsins og ekki útlit fyrir að breyting verði þar á.

Bjarni Þór (til vinstri) ásamt vel búnu starfsfólki og stjórnarmönnum Búseta á vettvangi nýbyggingar.

Bjarni segir að uppbygging og framþróun félaga eins og Búseta byggi á liðsheild og traustum mannauði. „Við búum svo vel að í okkar teymi starfsfólks eru sumir starfsmenn búnir að vera mjög lengi hjá okkur og þetta er svo góð blanda af fólki sem er með mikla þekkingu og reynslu og nýrra starfsfólki sem kemur inn með nýja strauma. Það sem skiptir öllu máli er kjarnahæfnin, liðsheildin og andinn sem ríkir í teyminu. Bjarni bætir við að mikilvægt sé að hlúa vel að starfsfólki og skapa jákvætt hlaðna menningu og dýnamík í öllu samstarfi. Þetta er svolítið eins og að þjálfa hóp íþróttafólks. Við þurfum að hafa sameiginleg markmið, það þurfa allir að vita hvert við stefnum og svo má aldrei gleyma að fagna sigrunum. Það er hvetjandi fyrir starfsfólkið að fagna þegar markmiðum er náð. Enda málstaðurinn góður, að skapa fólki falleg og vönduð heimili.”

Nýleg hús Búseta við Tangabryggju í Bryggjuhverfinu, skammt frá Gullinbrú við Grafarvog.

Texti: Jón Agnar Ólason

Shopping cart0
There are no products in the cart!
Continue shopping
0