Meðan á heimsókninni til Georgíu stóð fór Guðni Th. Johannessen, forseti Íslands, meðal annars að leiði Íslandsvinarins Grigol Matchavariani en hann hvílir í kirkjugarði í höfuðborginni Tíblisi.
Það vakti mikla athygli á Íslandi þegar lesendabréf birtist á síðum Morgunblaðsins haustið 1992 frá manni í fyrrum Sovétlýðveldinu Georgíu. Ekki þótti síður merkilegt að maðurinn skrifaði einkar góða íslensku og lýsti í bréfi sínu mikilli aðdáun á Íslandi, íslenskri tungu, fornbókmenntum og fleiru.

Bréfið sendi Georgíumaðurinn að tillögu Guðna sem var þá námsmaður í Englandi. Skólasystir Guðna sagði honum um það leyti frá landa sínum, Grigol Matchavariani að nafni, sem ekki einasta hefði brennandi áhuga á Íslandi heldur talaði hann íslensku eftir að hafa lært málið upp á eigin spýtur á lestri íslenskra bóka. Guðna þótti mikið til koma.
Þannig komust á kynni milli íslenska námsmannsins í Englandi og Íslandsvinarins í Georgíu. Bréfið sem birtist í Morgunblaðinu, í lesendadálkinum Velvakandi, varð svo til þess að þáverandi forsætisráðherra, Davíð Oddsson, bauð Grigol ásamt eiginkonu hans Irmu til Íslands í desember 1992.
Á daginn kom að Grigol ritaði ekki aðeins framúrskarandi góða íslensku, heldur talaði málið jafn fallega. Þar sem hann hafði lært málið af fornum ritum bar orðaforði hans þess merki og höfðu menn á orði að leitun væri að heimamanni sem hefði talaði jafn fallega íslensku og Grigol gerði, og það með hnökralausum hætti.
Grigol Matchavariani lést í bílslysi í Georgíu vorið 1996 og varð Íslendingum mikill harmdauði enda höfðu þeir tekið ástfóstri við þennan einlæga Íslandsvin. Í kjölfarið flutti Irma, kona hans, og dóttirin Tamar til Íslands. Minningin lifir hins vegar áfram um þennan mæta Georgíumann sem unni Íslandi og íslenskri tungu svo mjög.