– umbreyting frá iðnaði í íbúðabyggð
Það er kunnara en frá þurfi að segja hversu mikill skortur hefur verið á íbúðamarkaði á höfuðborgarsvæðinu hin seinni ár. Góðu heilli eru heilu hverfin að verða til og eitt af þeim áhugaverðari hlýtur að teljast svokallaður Borgarhöfði – nýtt, nútímalegt og blómlegt hverfi sem rís á stað sem undanfarnar kynslóðir hafa þekkt sem iðnaðarhverfið Ártúnshöfða.
Síðustu áratugina hefur Ártúnshöfðinn og nágrenni hans einkennst af ýmis konar iðnaðarstarfsemi enda var hann í útjaðri borgarinnar. Á þeim tíma sem hefur liðið frá því höfðinn var skipulagður sem slíkur hefur Reykjavík vaxið gríðarlega, svo mjög að nú er svo komið að svæðið liggur beinlínis miðsvæðis í borgarlandinu.
„Við höfum lengi unnið eftir því að tímabært væri að skila þessu einstaka og frábærlega staðsetta svæði aftur til íbúanna,“ segir Ingvi Jónasson, framkvæmdastjóri fasteignaþróunarfélagsins Klasa sem hefur unnið að skipulagi svæðisins í samstarfi við Reykjavíkurborg undanfarin ár, og er lóðarhafi hluta svæðis. Umbreyting svæðisins hefur gengið vel á Höfðanum, að sögn Ingva, og hann bendir á að umbreytingin hafi verið tímabær því lóðir hafi verið illa nýttar í gegnum árin og víkjandi fjárfesting því minni en annars. Þau fyrirtæki sem hafa flutt starfsemi sína hafa undirbúið þá flutninga lengi og því gefist gott ráðrúm í að finna hentuga staðsetningu í nýju umhverfi þar sem hægt er að þróa starfsemina til lengri tíma. „Borgarhöfði verður sjálfbær borgarhluti, fjölbreytt notkun bygginga með alla þjónustu í göngufæri. Þarna rís svæði með framtíðarheimili á besta stað en fyrsti hluti uppbyggingar gerir ráð fyrir um 3.500 íbúðum auk þess að rúma vinnustaði fyrir allt að 1.500 starfsmenn í blönduðu borgarumhverfi,“ bætir hann við.
Stutt í allt og aftur heim
Á Borgarhöfða verður blómlegt mannlíf í hverfi sem hugsað er frá grunni með tilliti til allra sem þar munu búa—með áherslu á lífsgæði allra aldurshópa. „Það má alveg segja að Borgarhöfði sé hverfi þar sem kynslóðirnar mætast því þar verða íbúðir við allra hæfi fyrir þá sem vilja búa miðsvæðis í borgarhverfi. Þá mun svæðið uppfylla öll viðmið um svokallað 15 mínútna hverfi þar sem öll þjónusta verður í göngufæri og jafnvel vinnustaðurinn. Fyrsti áfangi Borgarlínu fer um svæðið frá Krossamýrartorgi sem er í hjarta hverfis. Þar er því hægt að miða við bílléttari lífstíl samhliða því að hafa þjónustu við höndina,“ útskýrir Ingvi. Samkvæmt skipulagi er gert ráð fyrir fleiri en einum skóla í hverfinu og þar verður öll önnur almenn þjónusta sem sveitarfélag veitir. „Mikilvægt er að það fari saman, að búa til aðstæður þar sem minni áhersla er á einkabílinn, og þá að samgöngur og skólar og leikskólar séu í göngufæri. Við vinnslu deiliskipulags þá voru innviðir kostnaðarmetnir og gjald á uppbyggingu reiknað út frá því, þannig að í raun má segja að innviðir séu sjálfbærir, þ.e. fjármögnun innviða kemur uppbyggingunni sjálfri en ekki úr ótengdum sjóðum borgarinnar.“
Nýtt miðsvæði
„Í hjarta hverfisins verður ýmis þjónusta í boði. Þar er gert ráð fyrir stórri matvörubúð ásamt annarri verslun og þjónustu. Gert er ráð fyrir skrifstofuhúsnæði en auk þess er í skoðun að á einni lóðinni verði lífsgæðakjarni með hjúkrunarheimili og þjónustuíbúðum fyrir 60+ ára í tengslum við það heimili,“ segir Ingvi. „Verkefnið er nú þegar hafið og eru framkvæmdir við um 250 íbúðir farnar af stað og annað eins gæti farið af stað á næstu mánuðum. Við sjáum fyrir okkur að eftir um þrjú ár verði 600 íbúðar komnar í notkun og því geti hátt í 2.000 manns búið í þessum nýja borgarhluta.“
Önnur verkefni Klasa.
Klasi stendur að uppbyggingu á fleiri svæðum en á Borgarhöfða. Í Kópavogi, sunnan við Smáralind, hefur félagið staðið að uppbyggingu á íbúðum í því sem kallast hefur verið 201 Smári. Það verkefni hófst árið 2015 með vinnslu deiliskipulags fyrir um 700 íbúðir og er gert ráð fyrir að íbúðahlutinn klárist að mestu á árinu 2024. Um þessar mundir er Klasi að byggja 4ra hæða skrifstofuhús á svæðinu sem verður Svansvottað, byggt úr CLT einingum, stáli og steypu. Framkvæmdir hófust vorið 2024 og er gert ráð fyrir að þeim ljúki næsta vor. Gert er ráð fyrir auknu framboði atvinnuhúsnæðis og íbúða á lóðum Klasa. „Miklu skiptir að nýta vel það land sem við höfum til þróunar, og þá sérstaklega þau miðsvæði sem eru vel tengd stofnbrautum og hafa mikið þjónustuframboð,“ bendir Ingvi á. „Í Smáranum var verkefnið að móta byggð í þegar grónu hverfi, sem er talsvert annað verkefni en að byrja á grunni eins og við erum að gera á Borgarhöfða. Klasi hefur einnig í vinnslu skipulag í Norður- Mjódd, á svokölluðum Garðheimareit sem svipar að miklu til uppbyggingar í Smáranum, með tilliti til tenginga en þar er einnig ýmsa þjónustu að finna þó það sé í öðrum mæli en í Smáranum.“
Texti: Jón Agnar Ólason