Er ekki tíminn akkúrat núna að láta sig dreyma… hvert á að fara nú í vetur eða skipuleggja lengri ferðir um Ísland næsta sumar. Einn af þessum sérkennilegum stöðum á Íslandi er Grænihryggur í Jökulgili í Landmannalaugum. Græni liturinn, sem er ekki algengur er gler-túff og græni liturinn stafar af smá tvígildu járni í glerinu. Þangað er bara hægt að fara að sumarlagi, og er gangan frá Kýlingarvatni um 4 klukkutímar fram og til baka. Annar dásamlegur staður, eru Hveradalirnir í Kerlingafjöllum, þar sem hiti og jökull mætast, þangað er bara fært að sumri til. Dyrhólaey, er syðsti hluti meginlands Íslands, þangað er aðeins tveggja tíma akstur úr höfuðborginni, og fært allan ársins hring. Þar uppi er magnað að horfa á suðurströndina, bæði í austur- og vesturátt. Það eru fimm tímar akstur austur í Hornafjörð, en þar eru hornin tvö Eystra- og Vestrahorn, en fá fjöll eru eins mikið mynduð, en þangað er fært eftir Hringvegi 1, allan ársins hring. Síðasti staðurinn sem ég ætla að minnast á eru Jökulsárgljúfur norður í Öxarfirði. Tveggja klukkustunda akstur er þangað frá Akureyri, staður sem lætur engan ósnortin vetur sem sumar. Nýr góður vegur hefur verið opnaður vestan við Jökulsá, en hafa ber í huga að það er ekki vetrarþjónusta á veginum, svo huga þarf að færð og veðurspá þegar farið er um þessar slóðir um hávetur.
Ísland 2018/2012 : A7R III, RX1R II : FE 1.8/135mm GM, FE 1.4/50mm Z, 2.0/35mm Z, FE 2.8/100mm GM, FE 1.4/24mm GM – Ljósmyndir & texti : Páll Stefánsson