Fiskurinn ævinlega í aðalhlutverki
Á bjórdaginn 1. mars 1989 opnaði veitingastaðurinn Þrír Frakkar hjá Úlfari. Hvort það að loks var aftur leyft að selja bjór á Íslandi hefur eitthvað með velgegni staðarins að gera er erfitt að segja en víst er að Þrír Frakkar hjá Úlfari er með vinsælustu veitingastöðum landsins og ómissandi hluti af vinnuvikunni hjá mörgum að líta þar við í hádegismat.
Þessi notalegi veitingastaður á horni Baldursgötu er í hjarta miðbæjarins en samt nægilega fjarri ys og þys aðalumferðargatnanna til að vera eins vin kyrrðar. Þetta er fjölskyldufyrirtæki og góðar líkur á að starfsfólkið sem mætir gestinum sé skylt.
„Dóttir mín er þjónn, sonurinn kokkur og barnabörnin vaska upp og þjóna í veitingasalnum,“ segir Úlfar. „Við leggjum áherslu á ferskan fisk en hvalkjöt, svartfugl og saltfiskur eru einnig á matseðlinum. Við leggjum mikið upp úr að hráefnið sé ávallt það besta sem býðst.“
Hvalveiðar eru umdeildar og margir ferðamenn heimsækja staðinn. Hvers vegna kýst þú að bjóða upp á hvalkjöt?
„Vegna þess að að er besta rauða kjöt sem býðst. Hreint kjöt engin fita og fullt af omega 3 fitusýrum. Skíðishvalir hafa engar tennur og í holdi þeirra finnst ekkert kvikasilfur sem eykur enn á hollustuna. Um þetta er hins vegar lítið talað en er ein helsta ástæða þess að ég kýs að bjóða áfram upp á þetta kjöt. Hvalkjöt var algengur réttur á borðum Íslendinga hér í eina tíð en heil kynslóð hefur ekki alist upp við þennan mat. Ég hef haldið hefðinni gangandi og kennt ungu fólki að meta þetta afbragðskjöt. Galdurinn er að steikja það ekki of lengi og passa að það sé alveg nýtt ferskt. Meyrara kjöt finnst ekki. “
Nafn staðarins Þrír Frakkar hjá Úlfari er óneitanlega sérstakt. Hver er sagan á bak við nafnið?
„Tveir Frakkar búsettir hér á landi og kona eins þeirra stofnuðu veitingastaðinn Þrír Frakkar. Ég keypti staðinn eftir að hafa rekið lengi annan stað sem hét Hjá Úlfari Ég var að hugsa um að skíra staðinn Þrjú herbergi og eldhús en ákvað að hafa þetta svona. Merkingin orðins frakki er tvíbent og menn geta því túlkað það að vild.“
Salurinn er ekki stór, aðeins um 120 fm, en veggirnir eru fallega skreyttir m.a. má nefna fiskamyndir eftir franska listamanninn Auguste Mayer sem hingað kom með Paul Gaimard árið 1836 og ferðaðist um . Ef hann væri á ferð hér á landi í dag myndi hann kannski feta í fótsor margra þekktra einstaklinga sem þar hafa litið við og borðað. Úlfar hvetur alla til að smakka séríslenska rétti og nefna má að hann fékk Omar Sharif, og Shia Muhammed til að smakka hákarl þegar þeir voru hér á bridsmóti. Bobby Fischer fór að borða hjá Úlfari fljótlega eftir að hann settist að á Íslandi og sat alla tíð í ákveðnu sæti í salnum.
Þrír Frakkar hjá Úlfari er opinn í hádeginu og á kvöldmatartíma en svo er tekin síesta eða síðdegishvíld þar til opnað er aftur klukkan sex. Þetta er fjölskylduvænn staður sem gott er að heimsækja.