Mun efla fræðslu, meðvitund og umræðu um frið
Friðarsetur mun að öllu óbreyttu taka til starfa í Reykjavík í haust og verður því m.a. ætlað að vera til ráðgjafar um hvernig Reykjavík geti unnið að friði hér heima og erlendis. Jón Gnarr, formaður ráðgjafarnendar um hið væntanlega friðarsetur, segir að draumur sinn sé að Ísland og Reykjavík geti orðið leiðandi aðilar í friðarmálefnum á alþjóðavettvangi.
Jón Gnarr verður formaður ráðgjafarnefndar um væntanlegt friðarsetur í Reykjavík sem verður ætlað að styrkja borgina sem borg friðar. Um er að ræða samstarfsverkefni á milli Reykjavíkurborgar og Alþjóðamálastofnunar Háskóla Íslands. Setrið mun að öllu óbreyttu taka til starfa í haust og verða hýst innan Alþjóðamálastofnunar Háskóla Íslands.
Að sögn Jóns Gnarr er markmiðið að styrkja Reykjavík sem borg friðar og vera til ráðgjafar um hvernig Reykjavík geti unnið að friði hér heima og erlendis. Með starfi friðarseturs verður stuðlað að uppbyggilegum samskiptum, minnkandi ofbeldi og friðsamlegum samskiptum ríkja og alþjóðastofnana.
„Hugmyndin að friðarsetrinu hefur verið til staðar nokkuð lengi,“ segir Jón Gnarr, „og hefur verið vilji hjá Reykjavíkurborg til þess að formfesta friðarmál innan stjórnkerfisins.
Þetta er svolítið flókið í framkvæmd þegar til kastanna kemur. Það er svo erfitt að skipuleggja frið eða friðarmál. Það er hins vegar svo auðvelt að skipuleggja ófrið.
Hugmyndin að friðarsetrinu byggir á því að styrkja þá sterku friðarmenningu sem er á Íslandi, í íslenskri menningu og íslenskri sögu og reyna einhvern veginn að virkja hana, greina hver hún er, hvað felst í henni og hvernig hægt væri að vinna með þá þræði bæði til þess að styrkja friðarmál og baráttuna gegn ofbeldi og líka hugsanlega til þess að einhverjar aðrar þjóðir geti tileinkað sér aðferðir okkar.“
Fræðsla um friðarmál
Jón Gnarr segir að draumur sinn sé að Ísland og Reykjavík gætu orðið leiðandi aðilar í friðarmálefnum á alþjóðavettvangi.
„Nokkrar þjóðir hafa verið svolítið leiðandi hvað það varðar og þá sérstaklega Norðmenn og ég sé ekkert því til fyrirstöðu að Íslendingar leggi þessu góða máli lið.“
Hann segir að sem formaður ráðgjafarnefndarinnar muni hann byrja á að leggja áherslu á fræðslu um friðarmál og mikilvægi þeirra og kannski opna augu almennings fyrir mikilvægi friðarmála.
„Fólk hefur oft ákveðnar hugmyndir um friðarmál sem eru ekkert alltaf í samræmi við raunveruleikann og oft eru það einhverjir fordómar eða klisjur. Fólk tengir oft friðarmál við einhvers konar hippaheimspeki og mér finnst vera mikilvægt að leggja áherslu á að efla fræðslu, meðvitund og umræðu um frið og gildi friðar og síðan hvernig við getum styrkt þá friðarstarfsemi sem er nú þegar á Íslandi eins og til dæmis friðarsúlan í Viðey, Höfði, sem gegndi lykilhlutverki í endalokum kalda stríðsins, og hvað megi gera meira.“
Samtal eða ofbeldi
Jón Gnarr segir að þegar kemur að lausn mála sé um tvennt að velja: Að leysa þau með samtali eða ofbeldi. „Markmiðið með því að vinna að friði og tala fyrir friði er að tala fyrir samræðum en ekki fyrir ofbeldi. Friðarumræða er hluti af öllu samfélaginu og varðar allt frá friði í hjartanu og heimilisfriði og upp í heimsfrið og allt þar á milli. Þessi umræða er eins og margt annað – það er oft verið að takast á við ákveðið hugarfar og við þekkjum þetta varðandi umræðu í tengslum við mannréttindamál svo sem stöðu kvenna eða samkynhneigðra. Og allt byrjar þetta á umræðu, aukinni nærvitund og meðvitund.“
Þótt vindar blási víða þá segir Jón Gnarr að ófriður og ofbeldi séu á undanhaldi í heiminum. „Fólk sættir sig sífellt minna við óréttlæti og ofbeldi og mér finnst vera mikilvægt að hver manneskja leggi sitt af mörkum til þess að auka hraðann á því að útrýma ofbeldi þannig að það heyri meira og meira til undantekninga frekar en reglu. Ég trúi því að við munum einn daginn sjá það að við lifum í nokkuð ofbeldislausum heimi.“
Búum að sérstakri friðarhefð
Þegar hefur komið fram að hugmyndin að friðarsetrinu byggi á því að styrkja þá sterku friðarmenningu sem er á Íslandi, í íslenskri menningu og íslenskri sögu. „Við Íslendingar búum að sérstakri friðarhefð og hún hefur verið á Íslandi í langan tíma. Íslendingar hafa alltaf verið hikandi við það að taka þátt í einhverju sem tengist hernaði og er það mikilvægur hluti af sjálfsmynd okkar sem þjóðar að vera herlaus og ofbeldislaust fólk og það er hluti af sjálfsmynd okkar sem kúltíveraðar manneskjur að við leysum ágreining og deilur með samræðum en ekki ofbeldi. Þetta er ekki sjálfgefið vegna þess að mjög víða um heim er ofbeldi oft einhvern veginn fyrsti kostur í lausn vandamála. Friðsemdin, sem er líka nátengd náungakærleika og gestrisni, er hluti af því sem við erum sem þjóð. Í friðarsetrinu verður reynt að virkja þennan kraft með einhverjum formlegum hætti.
Ég ber miklar væntingar til friðarsetursins. Ég held að fólk muni hugsa um frið þegar það hugsar um Reykjavík í framtíðinni; að það tengi saman Reykjavík og frið. Ég held að það væri alveg dásamlegt.“
Mannréttindi og jafnrétti
Jón Gnarr hefur verið orðaður við slaginn um forsetastólinn. Á hvað myndi hann leggja áherslu varðandi friðarmál sem forseti Íslands? „Ef ég gæfi kost á mér og yrði kjörinn forseti myndi ég leggja áherslu á mannréttindi og jafnrétti og ég myndi beita mér og reyna að nota það embætti til þess sem ég teldi vera gott, jákvætt og uppbyggilegt í þeim málum t.d. með því að taka afstöðu með mannréttindum og á móti mannréttindabrotum. Ég fann það þegar ég var borgarstjóri að það skiptir gríðarlega miklu máli.“