„Heldurðu að guð hafi skapað þennan stein?“ Þannig hófst atburðarásin þegar steinkista Páls biskups fannst í Skálholti 21. ágúst 1954 – sennilega merkilegasti fornleifafundur í sögu Íslands.
Sá sem spurði svona skáldlega var ungur aðstoðarmaður fornleifafræðinga, Jökull Jakobsson þegar hann sýndi öðrum ungum aðstoðarmanni, Sveini Einarssyni tilhöggvin stein sem hann hafði grafið niður á í Skálholti hinu forna biskupssetri. Báðir þessir ungu menn áttu eftir að setja mark sitt á menningarlíf Íslands, Jökull sem rithöfundur og leikritaskáld, Sveinn sem leikstjóri og þjóðleikhússtjóri.
Þegar Ísland endurheimti sjálfstæði sitt 1918 hófst endurreisn fornrar menningar og sögu, hinnar Gullnu aldar sem hafði verið hvati í sjálfstæðisbaráttunni. Eftir seinna stríð beindu menn þeirri viðleitni að hinu forna biskupssetri í Skálholti. Þar hafði verið stofnað biskupsembætti 1056, það fyrsta á Íslandi eftir kristnitökuna og þar hafði löngum verið miðstöð stjórnsýslu, ritstarfa og skólahalds í landinu, seinna ásamt Hólum. Í Skálholti voru skráðar og þýddar bækur, byrjað að þýða Nýja testamentið og reistar einhverjar stærstu timburbyggingar í Norður-Evrópu, hinar stóru miðaldadómkirkjur. Þar gerðust örlagaríkir atburðir siðaskiptanna – og hin sér-íslenska útgáfa af Rómeó og Júlíu, frægasta og harmrænasta ástarævintýri Íslandssögunnar, ástir Ragnheiðar biskupsdóttur og Daða. Og frægasta handrit hins íslenska bókmenntarfs Konungsbók Eddukvæða var geymt í Skálholti um tíma eftir að Brynjólfur biskup Sveinsson, faðir Ragnheiðar hafði bjargað því úr glatkistunni.
Það kemur þessari sögu kannski ekki við en Konungsbók Eddukvæða hefur haft áhrif á ekki ómerkari listamenn en Richard Wagner og JRR Tolkien, Jorge Luis Borges og jafnvel höfund Game of Thrones, George Martin. Og sennilega væru Marvel hetjan Þór og andhetjan Loki ekki nema skuggi af sjálfum sér ef þessarar bókar hefði ekki notið við!
Áhugi var á því að endurreisa eitthvað af hinni fornu frægð Skálholts sem segja má að hafi verið höfuðstaður Íslands í 700 ár, einn af fáum þéttbýlisstöðum í bændasamfélagi. Þar voru rústir einar en nú skyldi reisa kirkju á stað þar sem ekki færri en 10 kirkjur höfðu áður staðið frá 11. öld.
Vitað var að margt væri að finna af fornum leifum sem varpað gætu ljósi á sögu Íslands. Því var ráðist í fornleifagröft m.a. undir stjórn dr. Kristjáns Eldjárns þjóðminjavarðar, seinna forseta Íslands.
Og menn töldu sig vita ýmislegt um Skálholt af fornum sögum. Í einni þeirra, Sögu Páls biskups var sagt að biskupinn hafi látið höggva út steinkistu fyrir sjálfan sig að hvíla í. Því vaknaði spurningin; skyldi hún finnast þessi kista með jarðneskum leifum Páls biskups sem jarðsettur var 1211? Eða voru þessar fornu sögur frá 13. öld bara þjóðsögur?
En aftur að fornleifafundinum. Eftir að hinn ungi Jökull jakobsson hafði komið niður á eitthvað sem gat verið steinkista var ákveðið að bíða eftir Kristjáni Eldjárn. Þegar hann svo kom í Skálholt fannst honum menn vera íbyggnir og spurði hvað væri á seyði:
„Ég held að við höfum fundið Palla biskup,“ svaraði þá Jón Steffensen prófessor einn rannsakenda. Kristján gat varla hamið sig af æsingi og brátt var hafist handa við að hreinsa moldina frá. Og það stóð heima; myndarleg úthöggvin og heilleg kista blasti við.
Kistan var svo opnuð með pompi og prakt viku seinna við athöfn sem útvarpað var beint um allt landið. Prestar sungu yfir hinni fornu kistu og svo var steinlokið dregið af. Og viti menn – þar blöstu við bein hins forna biskups og krókur af biskupsstaf úr rostungstönn. Og mönnum fannst þeir beinlínis horfast í augu við söguna þegar þeir virtu tómar augntóftir Páls biskups fyrir sér.
En hver var þessi forni biskup? Hann var kominn út af helstu ættum landsins, sonur Jóns Loftssonar einhvers mesta höfðingja þjóðveldisaldar á Íslandi. Langafi hans var þjóðsagnapersónan Sæmundur fróði, sá er sagður var hafa riðið Kölska í selslíki frá Svartaskóla eða Sorbonne í París út til Íslands. Annar langafi hans var Magnús Noregskonungur kallaður berfættur. Uppeldisbróðir Snorri Sturluson skáld og höfðingi.
Biskupsstafurinn með rostungskróknum er talinn gerður af fyrstu íslensku listakonunni sem kunn er. Margrét hin haga var hún kölluð og bjó í Skálholti á biskupstíð Páls. Það bendir á enn eina staðreynd; rostungar voru margir við strendur Íslands við landnám en var svo fljótlega útrýmt.
Kistu Páls biskups er nú að finna í kjallara dómkirkjunnar í Skálholti ásamt myndum frá fundinum en biskupsstafurinn útskorni er til sýnis á Þjóðminjasafni Íslands í Reykjavík.
-Halldór Reynisson