Hljómsveitin Flekar gefa út sína fyrstu plötu, Swamp Flowers, þann 8. október og mun hljómsveitin fagna því með veglegum útgáfutónleikum á Húrra þann 24. október næstkomandi. Stórvinkona hljómsveitarinnar, Lay Low, mun hjálpa okkur til við að koma gestum í gírinn. Miðaverð eru litlar 1500 kr. og má kaupa sig inn við innganginn.
Platan er alfarið spiluð, samin, tekin upp og hljóðblönduð af meðlimum sveitarinnar Sibba, Skúla og Vigni í heimahljóðveri og hefur verið legið yfir smáatriðum og farið á köflum hættulega nálægt sársaukamörkum í rit- og endurskoðun. Að baki liggur því mikil vinna og gæfi það henni stóraukið gildi að sjá ykkur úti í raunheimum. Platan verður að sjálfssögðu til sölu á staðnum á góðu verði.
Þó hljómsveitin sé tiltölulega ný á öldum ljósvakans má segja að saga hljómsveitarinnar Flekar hafi byrjað við lok níunda áratugarins þegar þá barnungir meðlimir sveitarinnar ,Sigubjörn, Vignir og systkini þeirra, söguðu sér út gítara úr krossvið, strengdu með böndum, röðuðu bílfelgum upp í trommusett og héldu tónleika fyrir búfénað og stolta foreldra. Þannig kviknuðu saklausir draumar um stærri hluti sem þó náðu ekki lengra. ‘Swamp Flowers’ er að hluta til uppgjör við þennan tíma og það ferðalag fór í hönd í kjölfarið. Við bjóðum ykkur því að koma og fagna með okkur og væri það góður mælikvarði um árangur ef fleiri manneskjur en hestar væru í salnum.
(Þar sem Facebook og internetið er víst klósett í stafrænu formi, þá er vert að taka það fram að Flekar hafa síður en svo nokkuð á móti hestum og telja þá yfirleitt fyrirtaks tónleikagesti. Við biðjum því alla hesta fyrirfram afsökunar á því sem kemur fram hér að ofan. Nema merin sem henti Sibba, hún má ekki koma.)