Húsfell, lítill ævintýraheimur

Húsfell, lítill ævintýraheimur

Fegurð Íslands er engu lík og fjölbreytni landslagsins meiri hér að víðast hvar annars staðar. Á fáum stöðum á landinu er það jafn augljóst og í Húsafell í Borgarfirði. Jökulá og bergvatnsá mætast með tilheyrandi litabrigðum, kjarr og líflegur lyngmóagróður stangast á við eyðilegan jökulruðning, ár og lækir skoppa um brekkur og liðast um láglendi og heita vatnið kraumar rétt undir yfirborðinu. Upp yfir vakir svo Eiríksjökull með sínum kalda skalla og Okið eins og hvít kollhúfa.

_MG_7726 Í þessari paradís á mörkum hálendisins hefur íslensk gestrisni verið höfð í hávegum öldum saman. Húsafell var við þjóðleiðina milli Norður- og Suðurlands og göngumóðir ferðamenn bönkuðu þar reglulega upp á og fengu beina því bændur á Húsafelli vísuðu engum frá. Það var hins vegar ekki fyrr en í um 1960 að Kristleifur Þorsteinsson hóf að byggja upp orlofshúsabyggð og tjaldsvæði á staðnum.

Síðan þá hefur fjölskyldan á Húsafelli rekið orlofsbyggðina og aukið þjónustuna og þægindin smátt og smátt. Reynt er að bæta einhverju hagræði við árlega og nú er svo komið að Húsafell er lítill sjálfbær heimur þar sem allir í fjölskyldunni geta fundið eitthvað við sitt hæfi. Golfvöllur, sundlaug, verslun, veitingastaður og leikvöllur með stærsta trampólíni á landinu eru innan orlofshúsakjarnans en hestaferðir, fjölbreyttar gönguleiðir, hellaskoðun, hálendisferðir, veiði og allar dásemdir íslenskrar náttúru við húsdyrnar.

 _MG_7887Sjálfbær fjölskyldustaður

Heita vatnið kraumar rétt undir yfirborðinu og það hefur verið virkjað til að húshitunar og uppbyggingar einnar notalegustu sundlaugar á landinu. Húsafellsbændur eru framsýnir og verklagnir og byggðu fyrstu vatnsaflsvirkjun sína árið 1948. Stíflurnar eru nú orðnar þrjár og segja má að hver kynslóð frá Kristleifi hafi byggt sína stíflu. Til stendur að bæta þeirri fjórðu við en Húsfellsvirkjanir framleiða meira en nóg rafmagn til að lýsa upp sumarhúsabyggðina og bæinn. Landsvirkjun kaupir og nýtir þá umfram orku. Nóg er líka af fersku og tæru köldu vatni í bergvatnslindum undir hrauninu og finnst varla betra drykkjarvatn á landinu.

_MG_7967 Frá upphafi hefur Húsafell verið skipulagt með þarfir fjölskyldufólks í huga. Börn og unglingar fá þar að njóta samvista við foreldra sína og allar kynslóðir skemmta sér saman. Skipulögð dagskrá er í gangi allt sumarið og má nefna keppni í strandblaki, körfuboltamót, sögugöngur, ratleikir og ótalmargt fleira. Á tjaldstæðinu er mjög góð aðstaða, hugsuð með þarfir fjölskyldunnar í huga. Góðar sturtur og þægilegt þvottahús gera það að verkum að auðvelt er að vera með börn á öllum aldri í Húsafelli. Bannað er að vera með hávaða eftir miðnætti og leitast er við að tryggja snyrtilega og góða umgegni um allt svæðið.

_MG_7952 Virðing fyrir landinu og viðkvæmu vistkerfi íslenskrar náttúru er innbyggð í íslenska bændur. Fjölskyldan á Húsafelli hefur þegið þetta viðhorf í arf og sjálfbærni er höfð að leiðarljósi í öllum framkvæmdum. Búið er að koma upp göngustígakerfi um svæðið sem er í stöðugri endurnýjun og uppbyggingu. Orlofshúsaeigendur og gestir á svæðinu smitast af eldmóði þeirra og áhuga. Húsafellsbændur eru hreyknir af því hversu vel hefur gengið allt frá stofnun orlofsbyggðarinnar og óhætt að segja að Húsafell sé gott dæmi um að stórir hópar fólks geti notið upplifunar í íslenskri náttúru án þess að ofbjóða henni.

_MG_7676

 Nýtt orlofshúsahverfi

En Húsafell býður ekki bara upp á fallega náttúru og útivist. Listunnendur geta notið verka Páls á Húsafelli í Bæjargilinu og nú stendur til að opna gestastofu í tengslum við vinnustofu listamannsins þar sem sérhæfðir leiðsögumenn munu leiða gesti um og fræða þá um listsköpun Páls. Merkri sögu Húsafellsbæjarins og þeirra einstöku manna sem staðinn sátu eru gerð skil í sögugöngunum og ekki úr vegi að undirbúa sig undir komuna í þessa perlu milli hrauns og jökla með því að lesa ævisögu Snorra á Húsafelli eftir Þórunni Valdimarsdóttur og lýsingu Halldórs Laxness á samskiptum Jóns Hreggviðssonar við klerkinn og kvenfólk hans.

_MG_8290 Þessi orlofsparadís er engum lokuð og nú eru að opnast nýir möguleikar fyrir áhugasama. Búið er að skipuleggja nýtt sautján húsa hverfi sem stendur hærra en það sem fyrir er. Útsýn er þaðan til fimm jökla á góðum degi og þar má skýrt finna að Húsafell er byggt í hrauni. Fjölbreytileg form og myndanir hraunsins gefa kost á fallegri lóðum en ella og margir kunna að nýta sér til hins ýtrasta skjólið og ræktunarmöguleikana sem búa í hrauninu.

IMG_3101 En hvort sem fólk kýs að kaupa sér lóð á Húsafelli eða heimsækja staðinn tíma og tíma verður seint hægt að tæma alla þá möguleika til afþreyingar sem hann býr yfir. Tekið er á móti fjölskyldunni af hlýju og umhyggju og starfsfólkið er boðið og búið til að aðstoða og leiðbeina eftir fremsta megni. Gönguleiðakort auðvelda mönnum að ferðast á eigin vegum en líka er sjálfsagt að nýta sér leiðsögn og þekkingu ferðaþjónustuaðila á svæðinu. Húsafell er indæll heimur í hnotskurn, sumarland sem gestir verða seint leiðir á.

Shopping cart0
There are no products in the cart!
Continue shopping
0