Kristján Ingi Einarsson, uppruni, bakgrunnur:
Kristján Ingi Einarsson (KIE) ljósmyndari er fæddur í Reykjavík árið 1952 og ólst hér upp eins og hver annar Reykjavíkurpjakkur, eignaðist sína fyrstu myndavél tíu ára og fékk þá algjöra ljósmyndadellu og hefur eiginlega verið að taka myndir síðan. Lærði þó prentiðn og fékk starfsréttindi 1971. Engu að síður vann Kristján Ingi eftir það svo til eingöngu við ljósmyndun, alltaf og allsstaðar takandi myndir, bæði sem blaðaljósmyndari og einnig fyrir hin ýmsu fyrirtæki og stofnanir. Árið 1985 tók KIE við rekstri prentsmiðju af föður sínum sem hann rak allt til ársins 2007, en seldi þá reksturinn og byrjaði af alvöru að taka myndir aftur og hellti sér á kaf í áhugamálið. Þá fór að vakna þessi tenging og sýn á landið okkar og hin myndrænu sérkenni þess. Kristján Ingi gaf út fyrstu landkynningarbókina 2009 The ESSENCE OF ICELAND. Síðan þá KIE gefið út fimm landslagsljósmyndabækur; ICELAND SO QUITE, I WAS HERE , NICELAND og HORSES & NATURE. Þessum bókum hefur öllum verið mjög vel tekið og hafa verið vinsælar meðal ferðamanna og til gjafa til erlendra vina og viðskiptamanna. Þess má samt geta að um 1980 hafði KIE gefið út þrjár ljósmyndabækur fyrir börn en þær eru löngu uppseldar og ófáanlegar.
Kristján Ingi hefur haldið nokkrar ljósmyndasýningar, birt myndir víða erlendis og á myndir hérlendis sem erlendis í stofnunum og fyrirtækjum
Horft til íslenskrar náttúru í ljósmyndum KIE? Hversvegna?
KIE: „Á ferðum um landið, sem ferðamaður, göngumaður og sem ljósmyndari er auðvelt að koma auga á sérstöðu og gæfu okkar Íslendinga; víðáttuna, tærleikann og litina, þögnina. Allt eru þetta verðmæti sem okkur er trúað fyrir og eru engan vegin okkar einkaeign, næstu kynslóðir og umheimurinn eiga þau líka. Okkur ber skylda til að varðveita þennan arf og bera hann áfram. Fyrir ljósmyndara eins og mig er auðvelt að falla lengra inn í þessa hugsun, en ég hef mest heillast af myndatökum í náttúrunni. Hvernig er t.d. hægt að setja þögnina inn í ljósmyndina? Þótt ég hafi einnig gaman af mannlífsmyndum, en á annan hátt, þá forðast ég yfirleitt að hafa fólk á myndunum mínum úr náttúrunni. Ég sit oft löngum stundum til fjalla, hlusta og jafnvel horfi á þögnina. Reyni síðan við hana með myndavélinni“.
Um bókina UNIQUE ISLAND.
Í bókunum sínum hefur KIE lagt áherslu á að sýna kyrrðina í óspilltri náttúru Íslands eins og að framan er lýst. Í þessari nýjustu bókinni, UNIQUE ISLAND er leitast við að hafa skýrari efnistök en fyrr. Efninu er skipt niður í kafla eftir landshlutum ásamt því að fjallað er annars vegar um hina vinsælu ferðamannaslóð, „Gullna hringinn“ og hinsvegar hálendið sjálft.
Texta- og myndaskýringar í bókinni eru eftir Ara Trausta Guðmundsson, jarðfræðing og alþingismann.
Kristján Ingi, höfundur og útgefandi bókarinnar UNIQUE ISLAND hefur ákveðið að láta 5% af söluandvirði hennar renna til umhverfisverndar á Íslandi og hefur gert samning við Landvernd um ráðstöfun fjárins.
Hversvegna að gefa 5% ágóðans af nýju bókinni til landverndar?
KIE: „Ja, það er þetta með að bera tærleikann og þögnina áfram til umheimsins og næstu kynslóða sem ég nefndi áðan. Fyrir löngu rakst ég á tilvitnun frá árinu 1980 eftir þekktan náttúruljósmyndara baráttumann fyrir náttúruvernd, Ansel Adams sem ég hef miklar mætur á. Hún var svona: „It is horrifying that we have to fight our own government to save the enviroment“. Þessi tilvitnun heillaði mig, þessi hrái raunveruleiki finnst mér eiga svo vel við í dag. Ég gerði mér allt í einu ljóst að ég er ómeðvitað að vinna eftir þessu. Það er skylda nútímamannsins að bera verðmætin áfram. Ég ákvað á því augnabliki að setja þess tilvitnun á baksíðu bókarinnar. Í framhaldinu hugsaði ég: Af hverju ekki að gefa eitthvað smáræði, þótt ekki værii nema táknrænt til baka til íslenskrar náttúru sem hefur gefið mér svo mikið og fóstrað mig í áratugi? Eftir að hafa hugsað málið, fannst mér eðlilegast að gefa hluta af söluverði hverrar bókar til Landverndar, framsækinna samtaka sem vinna eftir hugsun í náttúruvernd sem er mér að skapi“.
Eigin sýn KIE á starf sitt og viðfangsefni:
„Umhverfismál skipta mig öllu máli, málaflokkurinn er flókinn en ég nálgast hann á einfaldan hátt: Ef maðurinn á að lifa áfram á jörðinni, verður hann að ganga betur um hana. Jörðin er heimili mannsins og maðurinn verður að gæta betur að þeim sporum sem hann skilur eftir sig. Ég hef tekið tugþúsundir mynda af landinu okkar; ferðast fram og til baka, til sjávar og sveita, úti um allar trissur og hef séð sitt lítið af hverju. Við einfaldlega verðum að skila landinu óskemdu áfram inn í framtíðina. Hugsum eins og skátarnir: „Skildu við tjaldstæðið í betra ástandi en það var, þegar þú komst að því“.
Ég hef mest gaman að því að taka myndir á hálendinu. Þar er kyrrðin, víðáttan og náttúran óspillt. Ég reyni alltaf að njóta mín þar og stundum næ ég góðri mynd og stundum ekki. En það er eins með að taka ljósmyndir og að fara í veiðitúr: Stundum fiskast og stundum ekki.
Ég lít á ljósmyndavinnu mína og bókaútgáfu sem baráttu – í mínu tilviki sjónræna baráttu. Baráttu fyrir landinu, náttúrunni og andrýminu, – gegn mengun og ofnýtingu. Við þurfum virðingu og skilning fyrir þessum viðhorfum hjá almenningi og ekki síður stjórnvöldum, og þá vísa ég til tilvitnunar Ansel Adams hér að framan. Horfum í kring um okkur á Íslandi: Auðlindirnar okkar; fiskurinn spriklar upp úr hafinu í kring um okkur, rafmagnið rennur niður í jökulánum og húshitinn flæðir upp úr jörðinni. Það er orka allsstaðar sem við eigum öll saman og enginn getur eyðilagt nema við sjálf.
Gegn því þarf að berjast, það geri ég með minni myndavél“.
*Áttu þér uppáhalds ljósmynd af íslenskri náttúru, eða stað sem þér finnst sérstaklega gaman að mynda?
Maður gerir ekki upp á milli barna sinna. Annars er maður alltaf ánægðastur með nýjustu myndina þegar vel til tekst.
*Hvað með ferðalög erlendis? Uppáhalds staður?
Ég hef ferðast víða. Það er alltaf jafn gaman að koma á nýja staði. Ég fór meðal annars í sjálfboðavinnu fyrir Hjálparstofnun íslensku kirkjunnar til Indlands að taka ljósmyndir af börnum sem höfðu verið sett í þrælkunarvinnu vegna skulda foreldranna. Það var mikil en um leið ömurleg lífsreynsla. Ég tók samt mikið af myndum og reyndi að túlka ástandið í þeim.
Skemmtilegasta upplifunin af myndatöku var í Myanmar (áður Burma) en þangað fór ég ári eftir að landið var opnað eftir að hafa verið lokað almenningi af herforingjastjórninni.
*Stendur eitthvert ferðalag eða augnablik úr ferðalagi upp úr fyrir þér? Eða einhver skemmtileg frásögn úr myndatöku?
Þegar ég var að taka myndina sem prýðir forsíðuna á nýju bókinni UNIQUE ISLAND af Hvítserk, lenti ég í skondnu atviki. Ég hafði verið að mynda þarna niðri í fjörunni við Hvítserk í dágóðan tíma og var lagður af stað á næsta áfangastað. Eftir hálftíma akstur uppgvötvaði ég að ég var búinn að týna símanum mínum. Þannig að ég fór til baka að Hvítserk þar sem ég hlaut að hafa misst símann en þar var farið að flæða að þannig að ég var ekki bjartsýnn á að finna símann. Ég fór þó niður í fjöruna leitaði og bað Ásdísi konuna mína að hringja stanslaust í símann svo ég gæti ratað á hringinguna, en símann fann ég samt ekki. Þá mundi ég að ég hafði stokkið yfir lækjarsprænu sem rann þarna í fjörunni og ákvað að leita þar. Þegar mér var litið niður í sprænuna sá ég símann blikkandi í vatninu: „Asdis calling“ og þar var komin iPhone síminn minn. Hann er enn í notkun og virkur, þrátt fyrir að hafa verið á bólakafi í vatni í hálftíma.