Mannlíf og menning í Hörpu í sumar

Harpa er miðstöð menningar og mannlífs í hjarta Reykjavíkur og þar verður fjöldi spennandi viðburða í sumar – þar á meðal má nefna notalega hádegistónleika, alvöru klúbbastemningu og eftirminnilega upplifunarsýningu.

Eldborg

„Það eru tvö afar spennandi verkefni að fara af stað núna í júní,“ segir Hildur Ottesen Hauksdóttir, markaðsstjóri Hörpu um sumarið framundan. „Í öðru verkefninu erum við að endurvekja hádegistónleika í Eldborg og hitt er nýtt af nálinni en það er klúbbastemning í Norðurljósum á föstudags- og laugardagskvöldum.“ Að sögn Hildar er hér verið að svara mikilli eftirspurn. „Fólk, bæði heimamenn og ekki síður erlendir ferðamenn, hafa mikinn og stöðugan áhuga á að upplifa Eldborg og langar að heyra þar lifandi tónlist.“ Hvað klúbbakvöldið varðar þá er verið að svara eftirspurn fyrir tónleikastaði í miðborginni.

Hildur Ottesen Hauksdóttir

Náin hádegisstund í Eldborg

Á hádegistónleikunum munu sumir af fremstu tónlistarmönnum Íslands flytja uppáhaldslög sín á stóra sviði Hörpu með tilkomumikinn Eldborgarsalinn sem bakgrunn. Hér geta áhorfendur notið töfrandi 30 mínútna tónlistarstundar í hádeginu, að sögn Hildar.  „Áhorfendur mega búast við íslenskri dægurlagaklassík í bland við sígildar erlendar perlur þar sem þeir sitja á sviðinu í náinni og einlægri stemningu, og tónlistin samanstendur af rödd flytjanda og hljómunum frá dýrindis Steinway flyglinum í Eldborg.“

Norðurljós

Sumarklúbbur í Hörpu: uppistand og tónleikar

„Hin nýjungin er alveg nýtt konsept sem heitir Sumarklúbbur í Hörpu og er á vegum Senu,“ segir Hildur. „Þetta er ný uppistands- og tónleikaröð á föstudags- og laugardagskvöldum í Norðurljósum með alvöru klúbbastemningu þar sem uppistandið fer fram á ensku. Andrúmsloftið verður í senn afslappað og skemmtilegt, með lítil hringborð og stóla fyrir gesti og opinn bar inni í salnum. Tónleikarnir hefjast svo eftir stutt hlé.“

Hringátta upplifun með tónlist Högna Egilssonar

Hildur segist að lokum verða að benda á upplifunarsýninguna Hringátta sem fangar kraftana í náttúru Íslands með framsækinni tækni í myndrænni miðlun, skemmtilegri gagnvirkni og heillandi tónlist. „Hringátta er gagnvirk sýning fyrir alla fjölskylduna sem sækir innblástur í einstaka og lifandi náttúru Íslands, bæði hraunið, vatnið, gróðurinn, og svo framvegis, og kemur þannig heillandi hringrás lífsins til skila. Áhorfendur geta haft áhrif á listaverkið með því að hreyfa hendur og ganga um salinn. Á meðan magnar töfrandi tónlist Högna Egilssonar upplifunina.“