Mr. He Rulong var skipaður sendiherra Kína á Íslandi í febrúar 2022. Tveimur og halfu ári síðar hafa hann og fjölskylda hans aðlagast vel, og þótt löndin tvö séu ólík í flestum tillitum, trúir hann því staðfastlega að þau geti lært eitt og annað af hvort öðru. Reyndar er fjarlægðin á milli miðpunkta Íslands og Kína 7.777 kílómetrar—sem er mikil happatala, að sögn sendiherrans.
„Fyrsta skiptið sem ég ferðaðist til Íslands var fyrir tuttugu árum, árið 2004, þegar ég kom hingað með kínverskri sendinefnd og dvaldi í þrjár nætur. Ég varð strax hrifinn af landinu og fallegu landslagi þess, svo gjörólíku Kína,“ útskýrir sendiherrann. „Þegar ég svo fékk tilkynningu þess efnis að ég hefði verið skipaður í þetta embætti, í febrúar 2022, varð ég mjög spenntur. Sama er að segja um konuna mína, sem hafði einnig áður ferðast til Íslands árið 2003. Hún hafði góða reynslu af Íslandi og vissi heilmikið um landið frá íslenskum herbergisfélaga sínum frá því hún stundaði nám í Bretlandi. Svo ég er hér með allri fjölskyldunni, og í sannleika sagt, þá erum við að elska það.“
Vaxandi áhugi á Íslandi
Samkvæmt Hr. He er Ísland í augum Kínverja mjög frábrugðið heimalandinu—ekki aðeins vegna þess að það er eyja í miðju Norður-Atlantshafi og því landfræðilega fjarlægt Kína, heldur einnig vegna náttúru og landslags sem iðulega hefur verið áberandi í vinsælum Hollywood-kvikmyndum undanfarin ár þar sem atriði voru tekin upp á Íslandi. Þetta, ásamt öðru, hefur vakið mikinn áhuga á Íslandi meðal Kínverja, og í kjölfarið hafa vinsældir Íslands sem áfangastaður aukist til muna meðal kínverskra ferðamanna. Fyrir bragðið komst Ísland—nokkuð óvænt—inn á topp 10 lista yfir eftirsóttra áfangastaði í árlegri könnun meðal kínverskra ferðalanga fyrir árin 2023 og 2024. „Þess vegna sér maður nú töluvert af Kínverjum ganga um götur Reykjavíkur og ferðast um Ísland,“ bætir sendiherrann við.
Þegar rætt er um hinn augljósa mun á löndunum tveimur, samsinnir hr. He því að vissulega séu ákveðnir landshlutar Kína, eins og til að mynda þéttbýlið við austurströndina, með útbreiddu gróðurlendi og hávöxnum trjám, séu mjög ólíkir Íslandi. „Hins vegar þá heimsótti ég miðhálendið og varð heillaður af fjöllunum og fallegu litunum. Það er merkilegt að í norðvesturhluta Kína er landslag sem er í raun mjög svipað að sjá, með áberandi náttúrulitbrigðum.“
Beint flug mun skipta sköpum
Í ljósi vaxandi áhuga Kínverja á Íslandi sem áfangastað, verður fréttum um væntanlegt beint flug til Íslands án efa verða vel tekið í Kína. Hér er auðheyrilega um hjartans mál að ræða fyrir sendiherrann.
„Sjáðu til, fjarlægðin á milli miðpunkta Kína og Íslands hefur verið reiknuð nákvæmlega og merkilegt nokk þá er hún 7.777 kílómetrar. Fjórar sjöur, það er mikil happatala,“ bætir hann við með bros á vör. „Það er ansi langt samt sem áður og sem stendur er ferðin ekki auðveld, þar sem fólk þarf að millilenda og taka tengiflug einhvers staðar í meginlandi Evrópu. En vonin er sú að þegar beint flug verður að veruleika, munum við geta tengt löndin okkar enn frekar hvað varðar viðskipti, flæði fólks og fólk mun ferðast í meiri mæli í báðar áttir. Þetta verður gríðarleg lyftistöng fyrir gagnkvæman skilning landanna á milli og tvíhliða samskipti.“
Sendiherrann bætir við að allt frá því að hann var skipaður í embættið, hafi það verið eitt af hans helstu forgangsverkefnum að koma á beinu flugi milli Íslands og Kína, jafnvel það allra mikilvægasta, þar sem hann telur það grundvallaratriði í samskiptum ríkjanna tveggja. „Ég legg höfuðáherslu á að vinna með kínverskum stjórnvöldum sem og íslenskum stjórnvöldum sem og fyrirtækjum til að liðka fyrir nauðsynlegum ráðstöfunum svo þetta markmið verði að veruleika. Ég myndi segja að við séum komin býsna vel á veg og ég vona að verði að veruleika jafnvel fyrr en innan þriggja til fimm ára áætlunarinnar sem nú er á borðinu.“
Samstarf á Norðurslóðum
Ísland og Kína hafa bæði tekið virkan þátt í Arctic Circle Assembly, sem er stærsti alþjóðlegi viðburðurinn sem beinir sjónum að Norðurskautinu, framtíð þess, tækifærum og áskorunum. „Ég tel að málefni Norðurskautsins séu mjög mikilvæg í tvíhliða samskiptum okkar, og það eru nokkur sameiginleg atriði milli Kína og Íslands þegar kemur að þessu svæði. Ísland er aðili að Norðurskautsráðinu, meðan Kína er áheyrnarfulltrúi í ráðinu, og við þökkum Íslandi fyrir stuðning þeirra á þeim vettvangi. Einnig held ég að Ísland hafi verið fyrsta landi sem tilheyrir Norðurskautssvæðinu til að undirrita tvíhliða samkomulag við Kína um samstarf á Norðurskautssvæðinu. Þetta ber virni um gott samstarf milli landanna tveggja. Kína lítur svo á að málefni Norðurslóða snerti öll lönd heimsins þegar kemur að loftslagsbreytingum, siglingaleiðum á Norðurskautinu, o.s.frv. Þar af leiðandi, hafa mörg lönd áhuga á, jafnvel áhyggjur af, þessu málefni, og Kína er hagsmunaaðili í málefnum Norðurskautssvæðisins. Þannig að ég er þakklátur fyrir góðan vilja íslenskra stjórnvalda varðandi samstarf við Kína, og það hvernig lönd okkar tvö taka bæði loftslagsbreytingar mjög alvarlega. Það hefur skapað traustan grundvöll fyrir frekara samstarf.“
Hr. He nefnir einnig Aurora Arctic Observatory við Kárhól, skammt austan við Akureyri, sem gott dæmi um samstarf landanna tveggja. „Þetta verkefni er opin vettvangur fyrir vísindamenn, ekki aðeins frá Kína og Íslandi, heldur fyrir alla vísindamenn frá öllum löndum til að koma og rannsaka málefni Norðurskautsins. Það er annað dæmi um jákvætt samstarfsverkefni.“
Breytt til hins betra með jarðvarmanýtingu
Það er auðheyrt á öllu að hr. He er mjög áhugasamur um að efla enn frekar samskipti milli heimalands síns og landsins sem hann býr nú í. „Samband okkar felur í sér gagnkvæman ávinning, og þó um sé að ræða ólík lönd að stærð, samfélagsbyggingu og mannfjölda, hefur það ekki hindrað Ísland og Kína í að ná saman, skiptast á skoðunum og leggja sitt af mörkum til vaxandi samskipta. Við lítum á Ísland sem mjög dýrmætan samstarfsaðila í alþjóðasamskiptum. Til dæmis sjáum við styrk landsins ykkar þegar kemur að tækni varðandi nýtingu jarðvarma.“
Hr. He útskýrir í framhaldinu að Kína sé nú á farsælli vegferð grænna orkuskipta og hefur sett fram metnaðarfullt markmið kallað 30/60, sem felur í sér að árið 2030 verði hefjist öflug minnkun kolefnisútblásturs og árið 2060 hafi landið náð kolefnishlutleysi. „Þess vegna þurfum við að nýta mikið af grænni tækni til að koma Kína lengra áfram á þessari braut og breyta orkusamsetningu landsins. Reyndar hefur jarðhitasamstarf verið ákveðinn hápunktur í samvinnu landanna tveggja, og eitt slíkt dæmi er samstarfsverkefni Arctic Green frá Íslandi og Sinopec frá Kína. Þau stofnuðu sameiginlegt fyrirtæki fyrir 18 árum, og það hefur verið gríðarlega árangursríkt. Annars vegar hefur það skapað tekjur allt frá byrjun, og hins vegar hefur það hjálpað Kína að breyta um það bil 60 borgum og sýslum í mengunarlaus svæði. Við skiptum úr kolakyndingu í húshitun með jarðvarma, sem hefur gert þéttbýlisstaði okkar hreinni og lífvænlegri—eitthvað sem hefur reynst gríðarlega mikilvægt. Þessu verkefni hefur raunar verið hampað af Sameinuðu þjóðunum sem eitt af þeim árangursríkustu á heimsvísu í að draga úr losun koltvísýrings. Þannig að á hverju ári fáum við hópa kínverskra embættismanna í heimsókn til Íslands til að kynna sér jarðvarmavirkjanir í landinu ykkar, til dæmis Hellisheiðarvirkjun, og læra af sérfræðiþekkingu ykkar og möguleikum jarðvarmasamstarfs.“
Sameiginlegir þættir þrátt fyrir mismun
Sendiherrann er sannfærður um að þrátt fyrir mikinn mun á milli landanna tveggja—kínversk siðmenning á sér til að mynda 5000 ára sögu, á meðan Ísland var uppgötvað fyrir um það bil 1150 árum, og kínverska þjóðin er um það bil 1,4 milljarðar á meðan Ísland telur tæplega 385.000 manns—geti þau samt lært margt hvort af öðru.
„Vissulega er Kína þjóð með sögu sem nær langt aftur, og við erum stolt af því að segja að hún sé eina menningarþjóðin í heiminum sem hefur haldist órofin af ytri áhrifum í gegnum söguna. En eins og þið Íslendingar, sem getið lesið ykkar eigin fornu texta þar sem tungumálið hefur varla breyst frá landnámsöld, þá getum við Kínverjar lesið kínverskt letur frá því fyrir 2000 árum.
Annað sem Kína og Ísland eiga sameiginlegt, og hefur oft vakið mig til umhugsunar frá því ég kom, er sú staðreynd að bæði löndin hafa náð að rísa úr því að vera á margan hátt vanþróuð og fátæk yfir í að vera leiðandi lönd á tiltölulega stuttum tíma. Á Íslandi hafið þið náð stórkostlegum framförum aðeins frá seinni heimsstyrjöldinni, frá því að vera meðal síst þróuðu landanna í Vestur-Evrópu til að vera leiðandi fyrirmynd á mörgum sviðum í heiminum. Hér er landsframleiðsla á mann með því sem hæst gerist í heiminum, og í Kína er því eins farið. Á stuttum tíma, um 40 ár eða svo, frá því að stefna um umbætur og opnun var sett á laggirnarí Kína, hefur okkur tekist að losa um 800 milljónir Kínverja úr sárri fátækt, bætt lífsskilyrði þeirra verulega og séð þeim fyrir betri mat. Í dag er Kína annað stærsta hagkerfi heimsins, og lífslíkur fólks eru betri og það er bjartsýnna á framtíð landsins. Þetta er sameiginlegur þáttur sem slær mig alltaf, þrátt fyrir mikinn mun á löndunum með svo ólíkar sögur. Við erum tvær þjóðir sem eru gjörólíkar þeim sem við vorum aðeins fyrir þremur til fjórum kynslóðum.“
Auk þess að skipuleggja aukið samstarf milli Kína og Íslands á ýmsum sviðum, er sendiherrann einnig í óða önn að skipuleggja frítíma sinn meðan á hinu stutta, íslenska sumri stendur. Hann er virkur í útivist, ástríðufullur hlaupari og hefur nú þegar lokið heilu maraþoni í Reykjavíkurmaraþoni á síðasta ári, svo og Puffin Run og Suzuki Midnight Run. „Á þessu ári held ég að mér dugi hálft maraþon. Fjölskylda mín og ég höfum svo ýmsar áætlanir um að heimsækja fallega staði í nágrenni Reykjavíkur, þar sem allt er svo aðgengilegt og innan seilingar, sem og um fallega landið ykkar. Ég hef nú þegar farið í gönguferðina um Fimmvörðuháls frá Skógum til Þórsmerkur og naut þess stórkostlega. Mig langar mikið til að endurtaka þá reynslu.“
Óvæntur fjöldi kínverskra undirskrifta
Að lokum, sem mótvægi við innlendar fréttir upp á síðkastiðá þá leið að erlendir ferðamenn virðist hafa minnkandi áhuga á Íslandi sem áfangastað, rekur sendiherrann upplífgandi frásögn. „Ég var að ferðast um austfirðina, svæðið sem almennt er sagt vera sá hluti landsins sem fær fæsta erlenda ferðamenn. Mér til mikillar undrunar kom ég auga á ótalmargar kínverskar undirskriftir í gestabókinni þar sem ég gisti. Samkvæmt því sem þeir skrifuðu höfðu þeir verið að ferðast um Ísland í 16 eða 18 daga, svo það virðist sem þeir hafi verið að fara um allt landið. Þetta rennir enn frekari stoðum undir þá trú mína á að Kínverjar hreinlega elska Ísland vegna þess að það er svo ólíkt Kína og þeir munu heimsækja það í síauknum mæli. Nú þegar ég veit hversu fallegt það er, hlakka ég til að landar mínir upplifi það.“
Texti: Jon Agnar Olason
Ljósmyndir: Páll Stefánsson