Tónlistarverðlaun Norðurlandaráðs árið 2018 hlýtur Nils Henrik Asheim frá Noregi fyrir verkið Muohta.  Tónlistarverðlaun Norðurlandaráðs árið 2018 hlýtur Nils Henrik Asheim frá Noregi fyrir verkið Muohta. Ljósmyndari johannes Jansson

Nils Henrik Asheim hlaut tónlistarverðlaun Norðurlandaráðs 2018

Tónlistarverðlaun Norðurlandaráðs 2018 hlýtur norska tónskáldið Nils Henrik Asheim fyrir verkið Muohta, sem er einkar nútímalegt en býr jafnframt yfir sögulegri meðvitund.

Nils Henrik Asheim tók við verðlaununum úr hendi hinnar sænsku Sofia Jernberg, söngkonu og tónskálds, á stjörnum prýddri verðlaunaafhendingu Norðurlandaráðs í Óperunni í Ósló. Tónlistarverðlaunum Norðurlandaráðs er ætlað að vekja athygli á tónlistarsköpun og tónlistarflutningi sem telst hafa mikið listrænt gildi. Annað hvert ár eru verðlaunin veitt tónlistarhópi eða -flytjanda og hitt árið, eins og í ár, eru þau veitt fyrir tónverk eftir núlifandi tónskáld.

Rökstuðningur dómnefndar

Tónlistarverðlaun Norðurlandaráðs 2018 hlýtur tónverk sem er einkar nútímalegt en býr jafnframt yfir sögulegri meðvitund. Fyrsta hljóðfæri okkar allra, mannsröddin, leikur lykilhlutverk í þessu verki þar sem tungumálið er fléttað varfærnislega inn í hljóðheiminn. Hlustendum er boðið að stíga inn í öðruvísi upplifun á tíma, eða öllu heldur inn í síbreytilegt ástand sem inniheldur snert af áhættu og óróleika. Verkið er í 18 hlutum og í hverjum hluta er rýnt í eitt orð úr samískri tungu sem tengist snjó. Orðin eru fengin úr doktorsritgerð Inger Marie Gaup Eira, „Muohttaga jávohis giella“ (Hið þögla tungumál snjósins). Sum orðin ná beint yfir snjó en önnur lýsa áhrifum hans á hversdagslíf manna – til dæmis ulahat, sem þýðir „vetrarslóði sem hefur snjóað yfir og er vart sýnilegur“. Muohta, verk Nils Henrik Asheim fyrir kór og strengjasveit, lýsir hægum breytingum sem eru nánast ósýnilegar mannsauganu. Verkið var frumflutt í Ósló árið 2017 ásamt Árstíðunum eftir Joseph Haydn. Í tengslum við viðburðinn sagðist tónskáldið hafa fengið innblástur til að stíga út fyrir þá heimssýn sem á rætur að rekja til tíma Haydns og gerir ráð fyrir stöðugum framförum og stjórn mannsins á umhverfi sínu, og halda á vit upprunaþjóða og reynslu þeirra af nánu samlífi með náttúrunni.

Nils Henrik Asheim er fæddur árið 1960. Hann hefur starfað sem tónskáld, orgelleikari, skipuleggjandi og listrænn stjórnandi frá upphafi ferils síns og er gæddur einstökum hæfileikum til að opna heim samtímatónlistar fyrir ólíkum tónlistarstefnum og þar með tengjast nýjum hlustendum.

Um verðlaun Norðurlandaráðs

Norðurlandaráð veitir árlega fimm verðlaun: Barna- og unglingabókmenntaverðlaun, kvikmyndaverðlaun, bókmenntaverðlaun, tónlistarverðlaun og umhverfisverðlaun. Hver verðlaun nema 350 þúsundum danskra króna og eru þau veitt í tengslum við árlegt þing Norðurlandaráðs.

Shopping cart0
There are no products in the cart!
Continue shopping
0