Leiðsögn Gjörningaklúbbsins:

Leiðsögn Gjörningaklúbbsins:
List er okkar eina von!
Gjörningaklúbburinn segir frá verkum sínum á sýningunni List er okkar eina von! ásamt Ólöfu K. Sigurðardóttir safnstjóra á síðasta degi sýningarinnar 8. maí kl. 20.00.

Sýningin List er okkar eina von! státar af nýjum aðföngum, innkaupum og gjöfum, eftir núlifandi konur. Hér má sjá verk kvenna á öllum aldri, unnin í ýmsa miðla og með tilvísanir í ólík viðfangsefni. Sýnd eru verk úr veglegri gjöf Gjörningaklúbbsins til safnsins, auk verka sem hafa verið keypt á síðustu fimm árum.

List er okkar eina von! er yfirskrift þriggja ljósmynda sem fanga gjörning Katrínar Ingu Jónsdóttur Hjördísardóttur. Þar kinkar hún kolli til Carolee Schneemann sem framdi gjörning snemma á sjöunda áratugnum sem Erró skrásetti í ljósmyndaseríu á sínum tíma og er varðveitt í safneign Listasafns Reykjavíkur. Verk Katrínar dregur fram áratuga tímabil þrotlausrar baráttu kvenna fyrir því að öðlast pláss á myndlistarsviðinu. Þegar litið er til þess árangurs sem náðst hefur verður sá tími afstæður, bæði er ótrúlegt til þess að hugsa hversu stutt er síðan listsköpun kvenna var jaðarsett og um leið er furðulegt að enn sé nokkuð langt í land að fullu jafnrétti sé náð.

Listasafn Reykjavíkur heldur utan um 17 þúsund færslur í safnskrá sinni og þar hallar verulega á hlut kvenna. Fyrir þessu eru ýmsar skýringar, stofn safneignar í upphafi var að mestu verk karla, safnið varðveitir þrjú yfirgripsmikil einkasöfn karla og innkaup fyrr á tímum voru karllæg. Síðustu ár hefur orðið vitundarvakning, bæði hvað varðar safneignina og sýningadagskrána. Unnið hefur verið markvisst að því að rétta hlut kvenna í sögu og samtíma með átaki í aðföngum, rannsóknum og miðlun.

Fimmtudag 8. maí.20.00
Hafnarhús

RELATED LOCAL SERVICES