Stórurð

Sjö (einstakir) staðir….

Geysir og Gullfoss eru stórfenglegar náttúruperlur, þess vegna koma þúsundir ferðamanna þangað á degi hverjum. En það eru fleiri perlur á Íslandi, ekki síðri, sem fáir heimsækja. Þar getur þú notið náttúru í friði og spekt. Land & Saga velur hér sjö staði sem þú ættir að heimsækja í sumar – staði sem bjóða upp á svo margt, fallega ósnortna náttúru, fuglalíf og friðsæld. Hesteyri við Hesteyrarfjörð í Jökulfjörðum, nyrst á Vestfjörðum, er þorp sem fór í eyði fyrir 70 árum. Magnaður staður, sem auðvelt er að komast til á bát frá Ísafirði. Frábærar gönguleiðir eru frá Hesteyri um Friðlandið á Hornströndum. Hrísey í miðjum Eyjafirði er einstök, með sínu fallega þorpi á suðurenda eyjunnar. Góðar samgöngur eru til Hríseyjar með ferju frá Árskógssandi. Þjórsárdalur á suðurlandi er sannkölluð náttúru- og söguperla undir Heklu, sem fyllti dalinn af ösku og vikri í geysimiklu eldgosi árið 1104. Þeistareykir rétt austan við Húsavík, norðan við Mývatn, er litríkt svæði, eitt fallegasta háhitasvæði á Íslandi. Flatey á Skjálfanda er undurfögur, þar sem tíminn hefur staðið í stað. Þorpið er eins og það var fyrir sextíu árum, þegar allir íbúarnir fluttu í land. Bátsferðir í Flatey eru frá Húsavík. Stórurð í Borgarfirði Eystri er tilkomumikill staður, þar sem góðir gönguskór er það sem skiptir máli. Það er engin akvegur að þessu ógleymanlega svæði. Ekki má gleyma Rauðanúp vestast á Melrakkasléttunni, hvergi á Íslandi er miðnætursólin fallegri, og síðan skreyta súlur, kríur, lundar og spóar himininn á þessu nyrsta nesi landsins.

Hrísey
Þjórsárdalur
Flatey á Skjálfanda
Þeistareykir
Rauðinúpur

Ísland 19/06/2024 : A7R III, A7R IV, RX1R II – FE 2.8/100mm GM, FE 1.4/24mm GM, FE 1.2/50mm GM, 2.0/35mm Z – Ljósmyndir & texti : Páll Stefánsson