Söguöld Íslands lifir enn góðu lífi og áhuginn á Íslendingasögunum og vettvangi þeirra nær langt út fyrir landsteinana. Þessum áhuga er einkar vel sinnt á Vesturlandi þar sem sögustaðirnir eru hvað flestir. Þar eiga gestir þess kost að sækja heim fjórar mismunandi sögusýningar sem saman mynda hina einstöku Söguslóð (e. The Saga Path). Með heimsókn á sögusýningarnar fjórar fæst heildstæð og ljóslifandi mynd af viðburðaríkum umbrota- og örlagatímum í sögu lands og þjóðar, þá er hetjur riðu um héruð. Sýningarnar eiga það sammerkt að þar er sagan endursköpuð með áhrifamiklum hætti og Söguslóðin er í senn skemmtileg og fróðleg, mögnuð upplifun sem engin ættu að láta framhjá sér fara.
Landnámssetrið í Borgarnesi
Landnámssetrið býður upp á tvær sýningar þar sem gestir ganga í gegnum sýningarrými með hljóðleiðsögn; Landnámssýningu sem sýnir hvernig norrænir menn fóru að því að rata yfir opið haf, af hverju þeir yfirgáfu heimkynni sín og hvað beið fyrstu landnámsmannanna, og svo Egils Sögu sýningu um eina eftiminnilegustu persónu Íslendingasagnanna, Egil Skallagrímsson; mikið skáld en líka víkingur og ribbaldi í útlöndum. Sýningarnar eru hvor um sig 30 mínútur og val um 15 tungumál. Í Landnámssetrinu blandast saman skemmtun og fræðsla um landið, sögu þess og þjóð. Þar er einnig að finna minjagripaverslun byggða inn í Búðarklett, elstu jarðfræðiminjar á Vesturlandi ásamt veitingasölu í einu af elstu húsum Borgarness.
Landnámssetur Ísland – The Settlement Center
Brákarbraut 13 – 15, 310 Borgarnes
[email protected] – +354 437-1600
Snorrastofa í Reykholti
Snorrastofa, menningar- og miðaldasetur í Reykholti, var stofnað í minningu Snorra Sturlusonar, sem var goðorðsmaður í Reykholti, sagnaritari og stjórnmálamaður, höfundur Eddu (sem geymir goðafræðin), Heimskringlu (Konungasögurnar) og sennilega Egils sögu Skallagrímssonar. Snorri er einna nafnkunnastur Íslendinga á heimsvísu fyrr og síðar og sögu hans má kynnast í inni- og útileiðsögn sem aðgengileg er á 7 tungumálum og heimsókn í Reykholt veitir gestum margvíslega innsýn í Íslandssöguna og býður einnig upp á möguleika til heillandi útveru, gönguferða og friðsældar. Vegna merkrar sögu staðarins hefur Snorrastofa stundað og tekið þátt í fjölda rannsókna tengdum staðnum og miðaldafræðum almennt. Í gestastofunni er svo rekin verslun með úrvali af bókum og fallegu íslensku handverki.
Snorrastofa
320 Reykholt – +354 433 8000
[email protected]
Eiríksstaðir í Haukadal
Eiríksstaðir eru endurgerð af raunverulegu húsi sem byggt var á 10. öld á sömu slóðum og húsið stendur nú. Heimsókn þangað er sannkallað tímaferðalag í annan heim sögualdar á Íslandi enda húsið sett upp sem fullbúið heimili en ekki eins og safn sem aðeins er til á bak við gler. Þvert á móti eru gestir hvattir til að koma og upplifa söguna með því að skoða sig um og snerta söguna – bókstaflega – meðan þeir lifa sig inn í liðna tíð. Eiríksstaðir voru fæðingarstaður Leifs Eiríkssonar, sem fann Ameríku fyrstur Evrópumanna, og staðurinn er jafnt fyrir unga sem eldri, fróðleiksfúsa sem fræðinga. Verslunin gerir gestum svo kleift að taka með sér endurgert handverk sögualdar til minja.
Eiríksstaðir
Haukadal, 371 Búðardal
+354 8997111 – [email protected]
Vínlandssetrið í Búðardal
Vínlandssetrið Leifsbúð í Búðardal er spennandi áfangastaður fyrir unga sem aldna, þar sem sögum af landafundum Eiríks rauða og Leifs heppna Eiríkssonar á Grænlandi, Kanada og í Bandaríkjunum eru gerð skil í nýrri sýningu sem samanstendur af myndverkum tíu þekkra íslenskra myndlistarmanna. Þar kynnast gestir einnig Guðríði Þorbjarnardóttur, helsta kvenlandkönnuði Íslandssögunnar. Heimsókn á Vínlandssetrið er veisla fyrir auga og eyra þar sem fræðast má um fyrsta Evrópumanninn sem kom til Ameríku og hentar jafnvel fyrir einstaklinga sem hópa. Í sýningunni renna saman fornleifafræði, sagnfræði, ættfræði og bókmenntafræði við list og margmiðlun, og þangað er alltaf notalegt að koma hvernig sem viðrar. Minjagripabúðin skartar spennandi munum af ýmsu tagi og í veitingasal okkar bíða þín svo ljúffengar veitingar og sannkallað eðalkaffi.
Vínlandssetrið – Leifsbúð
Búðarbraut 1 – 370 Búðardal
+354 434 1441 – [email protected]