Margir aka hringveginn, jafnvel árlega, njóta þess að koma við á sögufrægum stöðum og þéttbýlisstöðum og njóta í leið auðvitað náttúrunnar sem er afar margbreytileg. En það er líka hægt að leggja lykkju á leiðina á þessum akstri, m.a. þegar komið er á Blönduós eftir að hafa ekið um Húnavatssýsluna. Eftir að vegur var lagður um Þverárhlíð opnast möguleiki að aka hann til Sauðárkróks, þaðan til Hofsós þar sem m.a. má fá sér sundsprett í einnu fallegustu sundlaug lands sem gefir var sveitarfélaginu af Ingibjörgu Pálmadóttur. Þegar synt er til norðurs í lauginni blasir Skagafjörður og Drangey við og það er rétt eins og Skagafjörðurinn taki við á nyrðri bakka laugarinnar. Þaðan liggur leiðin um Fljótin til Siglufjarðar en sveitarfélagið hefur jarðgöng í ,,báða enda,” Strákagöng og Héðinsfjarðargöng, og síðan um nýjan veg um Héðinsfjörð og jarðgöng til Ólafsfjarðar, ekið um Ólafsfjarðarmúla þar sem útýni yfir Eyjafjörð og Hrísey er frábært, komið til Dalvíkur og þaðan til Akureyrar. Þessi leið er um 220 km löng en ef farið er um Langadal í Varmahlíð um Öxnadal til Akureyrar er leiðin 144 km, svo mismunurinn er ekki nema um 75 km eða um klukkutíma akstur, og þarna er hægt að njóta alls þess sem þetta landsvæði hefur upp á að bjóða, þarna eru mörg söfn, stórkostleg náttúra og enginn þarf að verða svangur, fjöldi veitingastaða stendur ferðalanginum til boða.
Síldarminjasafn og Þjóðlagasetur
Sveitarfélagið Fjallabyggð varð til við sameiningu Ólafsfjarðarbæjar og Siglufjarðarkaupstaðar árið 2006. Í Fjallabyggð búa um 2000 manns. Héðinsfjarðargöng tengja saman þessi tvö byggðarlög, en þau voru vígð 2. október 2010. Fyrir ferðamenn og útivistarfólk er margt skemmtilegt að skoða og gera í Fjallabyggð. Á veturna er staðurinn skíðaparadís og draumur útivistarmannsins. Hægt er að fara á svigskíði, gönguskíði, skauta, þeytast um á snjósleða eða dorga í Ólafsfjarðarvatni. Á sumrin eru það fjöllin, vatnið og svört sandfjaran sem heilla. Í stórbrotnu landslagi Fjallabyggðar má finna fjölbreyttar gönguleiðir um fjöll og dali og njóta einstaks útsýnis í kyrrð og ró. Afþreyingarmöguleikar eru nánast ótæmandi. Í Fjallabyggð er boðið er upp á sjóstöng og auk þess er hægt að stunda stangveiðar í Ólafsfjarðará, í Ólafsfjarðarvatni, í Héðinsfirði, og í Hólsá á Siglufirði. Svo má ekki gleyma því að hægt er að veiða á bryggjum bæjanna. Síldarminjasafnið er á Siglufirði, en það er stærsta
sjóminja- og iðnaðarsafn landsins, jafnvel í allri Evrópu. Í þremur ólíkum húsum er hægt að kynna sér síldveiðar og vinnslu á silfri hafsins. Á Siglufirði er einnig Þjóðlagasetur og í Ólafsfirði er glæsilegt náttúrgripasafn með fjölda uppstoppaðra fugla.
Bakkabræðasýning á Dalvík
Um Dalvík má ekki fara án þess að skoða safn um þann merka Svarfdæling, Jóhann risa sem er í Hvoli, aka um Svarfaðardal og Skíðadal, og fyrir göngufólk er hægt að ganga yfir Heljardalsheiiði yfir í Hjaltadal í Skagafirði, og þá liggur beinast við að koma við á Hólum, og skoða þann sögufræga stað og njóta veitinga. Úr Svarfaðardal og Skíðadal er einnig hægt að velja fjölmargar aðrar gönguleiðir um Tröllaskagann, af nógu er að taka.
Nokkur togstreita hefur staðið um það milli nokkurra sveitarfélaga hvar Bakkabræður, þeir Gísli, Eiríkur og Helgi bjuggu ásamt föður sínum, en Dalvíkingar eru þess fullvissir að það var á Bakka í Svarfaðardal. Þessa dagana er verið að koma um safni til minningar um Bakkabræður í Siggabúð á Dalvík, verslun sem rekin var á Dalvík fyrir margtlöngu en er enn með gömlu innréttingunum. Sýningin verður einnig í Ungmennafélagshúsinu þar við hliðina yfir sumartímann, en á veturna hefur Leikfélag Dalvíkur húsið til umráða. Bakkabræðasafnið er hugmynd hjónanna Aðalheiðar Símonardóttur og Bjarna Gunnarssonar.
,,Við ákváðum árið 2010 að setja á fót ferðaþjónustu sem við köllum ,,Á Vegamótum,” segir Aðaheiður. ,,Við bjóðum gistingu í gamla bænum, þremur smáhýsum og í Gimli sem er gistihús í miðjum bænum á Dalvík. Allt þetta er hluti af ,,hostelkeðjunni” eða farfuglum. Það má því segja að við rekum fjölbreytilegt farfuglaheimili. Við höfum fengið góðar viðtökur hingað til og erum mjög ánægð með hvernig gengið hefur í ár.” Svo má auðvitað ekki gleyma að um aðra helgi ágústmánaðar er haldinn ,,Fiskidagurinn mikli” á Dalvík þar sem gestum og gangandi er boðið upp á fjölmarga fiskrétti, þeim að kostnaðarlausu. Fiskdagurinn mikli hefur verið ein fjölsóttasta úthátíð landsins undanfarin ár.
Til perlu Eyjafjarðar, Hríseyrar, er siglt daglega frá höfninni á Árskógsströnd, og siglingin tekur ekki nema um 15 mínútur. Þegar í eyjuna er komið er hægt að taka ,,traktortaxann” fyrir það sem nenna ekki eða eiga erfitt með gang ,,Helsti kosturinn við Hrísey er að þetta er eyja umlukt hafinu á allar hliðar og svo er er hún lífrænt vottuð,” segir Michael Jón Clarke tónlistarkennari á Akureyri sem á bústað í Hrísey og ver þar mörgum stundum. ,,Það er einhver dásamleg orka þarna, Hrísorka, svo mikil kyrrð og ró sem ég finn ekki annars staðar. Fuglalífið þarna er alveg frábært, þrestir éta úr lófa manns, garðurinn er oft fullur af fuglum af mörgum tegundum, enda eru engir kettir í Hrísey. Kríuvarpið á norðurhluta eyjunnar er mikið og er aftur að aukast eftir að sandsílastofnunn fór að braggast. Svo vappar rjúpan þarna um götur alls óhrædd enda bannað er að veiða hana. Fjallasýn er þarna mikil, bæði yfir á Látraströnd og á Tröllaskaga. En auðvitað er þarna hafgola oftast síðdegis sem getur veið nöpur, en það gerir bara ekkert til, annað er svo ómótstæðilegt. Í Hrísey er góð sundlaug og svo auðvitað Júllabúð sem er með allt sem þú þarft, og kannski rúmlega það,” segir Michael Jón Clarke.
Hvalaskoðun frá Hauganesi
Hjalteyri er smábyggð norðan við Akureyri á Galmaströnd í Eyjafirði. Í dag starfar þar Fiskeldi Eyjafjarðar sem sérhæfir sig í lúðueldi. Þarna eru leyfar gamallar síldarverksmiðju, en Verksmiðjan er einmitt nafn á listamannasetri nokkurra listamanna, þar af eru 9 búsettir í Arnarneshreppi, sem hafa gert með sér samkomulag um að standa fyrir menningarviðburðum og bjóða upp á vinnuaðstöðu í gömlu Verksmiðjunni á Hjalteyri. Norðmenn hófu síldarsöltun á Hjalteyri um 1880, Svíar, Þjóðverjar og Skotar bættust í hópinn og upp byggðist sjávarpláss með mörgum þorsk- og síldveiðiskipum. Þegar fyrri heimsstyrjöldin braust út 1914 hurfu útlendingarnir á brott og Thor Jensen athafnamaður, sem tekið hafði Hjalteyri á leigu ári áður byggði upp síldarvinnslu. Árið 1937 var byggð stór síldarverksmiðja við Hjalteyri, sú stærsta í Evrópu. ftir því sem leið á 20. öldina dró úr umsvifum Thorsaranna og eftir að síldarbresturinn varð á sjöunda áratugnum var síldarverksmiðjunni lokað 1966.
Það er vel þess virði að koma við á Hauganesi, í litlu þorpi á Árskógsströnd. Þar starfar afar merkilegt sjávarútvegsfyrirtæki, Ekta fiskur, og þaðan er hægt að fara í hvalaskoðunaferð út Eyjafjörð, norður fyrir Hrólfssker, ef þannig viðrar, en hvalurinn lætur oft sjá sig þar og út með Látraströnd. Við þjóðveginn fyrir ofan Hauganes er Stærra-Árskógskirkja, afar merkileg sveitarkirkja, og á því svæði er eitt gjöfulasta berjasvæði landsins ásamt Svarfaðardal.
Það er því gríðarlega margt að skoða og njóta þegar ekið er um og kringum Tröllaskagann.