Staðfesting á samkomulagi um að Vigdísarstofnun – miðstöð tungumála og menningar (Vigdís International Centre of Multilingualism and Intercultural Understanding) starfi á vegum UNESCO, þann 27. júní 2013. Frá vinstri er Berglind Ásgeirsdóttir sendiherra Íslands, Vigdís Finnbogadóttir, Irina Bokova aðalframkvæmdastjóri UNESCO, og lengst til hægri er Hans d´Orville aðstoðarframkvæmdastjóri UNESCO.

Vigdísi Finnbogadóttur

Tungumál geyma minningar
Tuttugu ár eru nú liðin frá því Vigdís Finnbogadóttir lét af embætti forseta Íslands og er hún enn önnum kafin við margvísleg verkefni. Framkvæmdir við Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum hófust á árinu og segir Vigdís stofnunina muni vekja athygli um víða veröld. Tungumálin skipa þannig stóran sess í lífi hennar og segir hún að þau séu lykillinn að bættum samskiptum og því að styrkja og viðhalda menningu.

Stofnun Vigdisar Finnbogadottur vid Hi - vinningstillaga uti2Ráðið bug á andúð
Á tímum mikillar óvissu og óeiningar í heiminum leggur Vigdís mikla áherslu á mátt tungumála til að sameina ólíka menningarheima. „Tungumálin opna skilning á menningu þjóða,“ segir Vigdís. „Það að geta skipst á skoðunum án aðkomu túlka færir okkur mannverurnar nær hver annarri. Þannig er auðveldara að styrkja vináttu og kveða niður óvináttu og þá miklu andúð sem nú ríkir á herskáum stöðum  í heiminum.“

Forseti
Forseti

Þannig segir Vigdís að samhygð sé henni mjög hugleikin á tímum ófriðar á alþjóðavettvangi. „Það brennur nú á mér að við á Íslandi ræktum með okkur samhygð. Við erum hluti af heiminum og þurfum að rækta með okkur skilning á því að fólk hefur rétt á því að vera á þessari jörð rétt eins og við. Við erum nú að upplifa mestu fólksflutninga síðan á miðöldum og því skyldum við Íslendingar fara varhluta af því? Við skulum ekki gleyma því að við erum sjálf afkomendur flóttamanna, samkvæmt Landnámu, og erum annars góð að muna þúsund ár aftur í tímann. Okkur er farsælast að taka á móti fólki sem hingað kemur frá stríðshrjáðum löndum með hlýju og skilningi. Það hlýtur að vera nokkuð erfitt að setjast hér að, ekki síst fyrir fólk sem hingað kemur úr mjög ólíku umhverfi. Við eigum að hjálpa því eftir bestu getu við að aðlagast okkar þjóðfélagsháttum, rétt eins og við sjálf myndum helst óska ef við þyrftum að flýja í gerólíka menningu úti í heimi.“

Vigdís segir að ný menningaráhrif ættu ekki að hafa áhrif á íslenska menningu og tungu öðru vísi en á jákvæðan hátt. „Fyrr mætti nú vera aumingjahátturinn í Íslendingum ef við gætum ekki leyst þau mál. Ég hafna því að hafa slíka vantrú á okkur sjálfum. Stóra málið varðandi íslenska tungu í dag er að koma íslensku máli, og þeim minningum sem það geymir, í stafrænt form og að hún fái skjól í stafrænum heimi. Tækninni fleygir fram og við þurfum að gæta að því að íslenskan fylgi með.

En við höldum okkar striki og tökum á móti  því fólki sem vill vera með okkur í okkar menningu, enda erum við sterk í lund og afstöðu, en það þýðir ekki að við þurfum að tileinka okkur aðra menningarsýn  en við höfum búið við  í aldaraðir“ segir Vigdís.

 

Forseti
Forseti

Ein af stofnunum UNESCO
Fyrsta skóflustungan að nýju húsnæði Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum var tekin 8. mars síðastliðinn, en byggingin mun hýsa alþjóðlega tungumálamiðstöð og alla kennslu og rannsóknir í erlendum tungumálum við Háskóla Íslands.

Vigdís fylgist vel með framkvæmdum og bíður með eftirvæntingu eftir því að starfsemi hefjist í byggingunni, enda muni stofnunin áreiðanlega verða víða kunn og vekja athygli. „Ég er afar hreykin af og þakklát fyrir að Háskóli Íslands hafi beðið mig um að þessi stofnun beri nafn mitt. Það kemur til með að hafa mikla þýðingu  í framtíðinni að hér skuli vera tungumálasetur, sem er um leið tungumálasafn. Það er svo við hæfi að stofnunin sé staðsett hér á Íslandi, hjá þessari fámennu þjóð sem talar svo til óbreytt aldagamalt tungumál. – Ísland er stikla á milli gamla heimsins og þess nýja og því nokkuð viðeigandi að hér á miðju Atlantshafinu , sem aðskilur heimsálfur, verði til safn um tungumál heimsins,“ segir Vigdís.

Vigdís er velgjörðasendiherra tungumála hjá Mennta-, vísinda- og menningarstofnunar Sameinuðu þjóðanna, UNESCO, og er í senn sá fyrsti og eini og hefur sinnt því verkerfni frá árinu 1998. Hún tók meðal annars þátt í að kortleggja tungumál heimsins á fyrstu árunum og fer enn þann daginn í dag öðru hvoru á fundi hjá stofnuninni í París.Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur í Háskóla Íslands starfar undir formerkjum UNESCO, og segir Vigdís það staðfestingu á því mikilvæga hlutverki sem stofnuninni er ætlað að gegna á heimsvísu. „Að vera undir verndarvæng UNESCO gefur þessu verkefni mikið vægi og má líkja við að vera á heimsminjaskrá, rétt eins og handritin okkar og Þingvellir,“ segir Vigdís.

Í tungumálasafninu stendur til að safna saman eins mörgum tungumálum heimsins og mögulegt er. Vigdís segir það verkefni brýnt, því talið er að hætta sé á því að um helmingur af þeim tæplega sjö þúsund tungumálum sem vitað er af í dag muni verða horfin um næstu aldamót. Ástæður þess segir Vigdís meðal annars vera skort á  tæknivæðingu  tungumála þar sem smærri málsvæði hafi ekki bolmagn til að nýta sér þá tækni að gera tungumálið stafrænt, svo þau standi styrk á sviði nútíma máltækni. Það er að vera skilyrði  fyrir lifandi notkun tungumála að hægt sé að nota þau á öllum sviðum innan tölvutækninnar.  Eins hafi aukin menntun í ýmsum löndum þar sem menntun fer fram á einu opinberu tungumáli, því miður,  þau áhrif að tungumál afskekktra svæða fyrnast og gleymast.

Vigdis_minni„Út um allan heim sitja nú sérfræðingar og keppast við að skrá þau tungumál sem eru að hverfa. Um víða veröld eru aldagömul tungumál að hverfa og kynslóðir að renna upp sem skilja ekki tungumál forfeðra sinna. Í samstarfi okkar við UNESCO, tungumálastofnanir og háskóla um allan heim munum við eftir bestu getu hjálpa til við að varðveita þekkingu á sem flestum tungumálum. Ég er þess fullviss að  erlendir gestir sem heimsækja okkur  muni vilja skoða þessa tungumálamiðstöð, þó ekki væri nema til að skoða hvort þeirra eigið tungumál sé þar. Gestir og gangandi munu þannig geta ýtt á hnapp og heyrt tungumálið talað, séð hvar í heiminum það er staðsett, hvernig menning þeirra sem tala tungumálið er, listsköpun og lifnaðarhættir.“  segir Vigdís.

Tungumálin geyma minningarnar
Jafnvel þó tungumál og samskiptavenjur heimsins taki miklum breytingum, þar sem sum tungumál hverfa og önnur ná sífellt meiri útbreiðslu, segir Vigdís að íslenskan muni alltaf eiga sér sérstakan stað í heimi tungumála. „Íslenska er auðvitað hvergi töluð í heiminum nema á Íslandi og við búum við þau gæði að geta lesið miðaldabókmenntir okkar á eigin tungumáli, sem er einstakt í heiminum. Ég veit ekki hvort Íslendingar átti sig almennt á því. Ég er þeirrar skoðunar og hef verið lengi að það sé tungumálið sem bindur okkur saman sem þjóð,  meira en landið sjálft.

Við getum  farið út um allan heim en við höfum alltaf tungumálið okkar með okkur. Við getum lært öll heimsins tungumál, en það er alltaf okkar tungumál sem er grunnurinn. Þessu tók ég eftir á ferðalögum mínum á árum áður þegar ég ræddi við fólk sem hafði verið lengi erlendis að það þráði að koma heim, koma með börnin sín heim – vegna tungumálsins og þeirra tengsla sem það veitir í frændgarðinum. Landið er okkur ómetanlegt og það að vita að hér eigum við heima, en það er tungan sem bindur okkur saman. Það er tungumálið sem geymir minningar, það er límið í þessari þjóð.“

Vigdís segir það mikilvægt að þeir sem vilji viðhalda tungumálinu láti rödd sína heyrast. „Til allrar hamingju vilja flestir veg íslenskunnar sem mestan. Tungumálið hefur mikla aðlögunarhæfni og ekkert nema gott um það  að segja þegar nýjungar ber að garði. Ef við eigum orð sem eru skýr og falleg ættum við kappkosta að nota þau. Tungumálið býr yfir þeim kostum að það er tiltölulega auðvelt að þýða erlend tungumál yfir á íslensku og enn fremur að skapa nýyrði, og þarf ekki annað en að hugsa til nýyrðalistans hans Jónasar okkar Hallgrímssonar. Þar má finna safn augljósra orða sem okkur finnast sjálfsögð í dag, en voru ekki til á íslensku í hans tíð; orð eins og t.d. sjónauki, loftvog, jarðfræði, gangverk og hafflötur.“

„Tungumálið er lifandi og það verður að fá að þróast. Það læðast auðvitað inn erlend orð, en mörg þeirra hafa verið felld að íslenskum beygingum og  þannig gerð íslensk. Slettur og slangur eru kynslóðabundin fyrirbæri og eiga sér sinn líftíma þar til sá sem þau notar verður gamaldags. Í minni æsku var til dæmis um tíma í tísku að segja: „hamingjan í hesthúsinu“ þegar eitthvað kom á óvart, sem fáir myndu skilja í dag. Meginatriðið er að halda skýrri orðanotkun og skýrum framburði sem skilst vel,“ segir Vigdís.

Á toppnum í menningarmálum
Með stórfelldri aukningu ferðamanna sem sækja Ísland heim sjá einhverjir fyrir sér að menning og tunga muni þurfa að aðlagast nýjum menningaráhrifum, en Vigdís vill ekki að gert sé of mikið úr því að Íslendingar séu ekki vel á verði. „Við höfum alla tíð tileinkað okkur menningarstrauma að utan og eigum þar af leiðandi  í menningararfi okkar alla  -ismana í Evrópumenningu aldanna. Við Íslendingar nútímans erum síst annarra þjóða eftirbátar í menningarmálum. Við eigum  sögurnar okkar og bókmenntir fortíðar,   merka rithöfunda sem þýddir eru á erlend tungumál,  glæsilega tónlist, myndlist og kvikmyndagerð á heimsmælikvarða. Það er stórmerkilegt að svona fámenn þjóð, Íslendingar, skapi svo mikla hámenningu. Þess vegna megum við vara okkur á því að sýna þá hlið á okkur sem flokka mætti undir ómenningu.

Ég get hinsvegar ekki leynt því  að ég hef miklar áhyggjur af landinu sjálfu. Við megum ekki gleyma því að þetta land er svo viðkvæmt. Það tekur mosa mörg hundruð ár að gróa á hrauni og það er mikið áhyggjuefni að landið verði troðið niður af mannafótum. Þess vegna er ég þeirrar skoðunar að hið opinbera, sem erum við öll, verði að bregðast mjög skjótt við í að standa með sóma að því að erlendir fætur geti gengið á Íslandi eins og íslenskir,“ segir Vigdís.

Sjálf hefur Vigdís ekki látið sitt eftir liggja í náttúruvernd á Íslandi. Skógrækt  og landgræðsla hefur verið henni hugleikin um árabil og hefur hún lagt áherslu á gildi þess að æska landsins læri að umgangast náttúruna með virðingu. Þá er hún verndari Auðlindar – Minningarsjóðs Guðmundar Páls Ólafssonar sem hefur það meðal annars á stefnuskrá sinni að vernda og efla votlendi Íslands. Vigdís segir málefnið brýnt og bendir á að votlendi séu „lungu landsins,“ eins og Laxness komst svo vel að orði, en votlendi gegna meðal annars hlutverki við  bindingu kolefnis, miðlun vatns og hringrás næringarefna.

Það sem stendur upp úr
Á þeim 35 árum sem hafa liðið frá því Vigdís tók við embætti forseta Íslands hefur mikið gerst á sviði jafnréttis á Íslandi. Jafnréttismál á alþjóðavettvangi segir Vigdís enn eiga gríðarlega langt í land og standi það friði og þróunarmálum fyrir þrifum. „Takið eftir því að á þeim svæðum þar sem menn eru hvað herskáastir í heiminum í dag hafa konur minnst að segja. Þess vegna er mikilvægt að reyna að aðstoða konur í að öðlast þá virðingu og fá þá menntun sem þeim ber. Ég tók einu sinni þátt í læsisátaki fyrir konur í Katar á vegum UNESCO og þar var eins og konur hækkuðu í loftinu um nokkra sentimetra þegar þær höfðu lært að lesa. Þær höfðu fengið sjálfstraust – og kannski öðlast rödd. Svo er það margrannsakað og sannað að þegar jafnrétti hefur verið komið á, þar sem konur höfðu áður lítið hlutverk, tekur samfélagið gríðarlegum framförum á öllum sviðum,“ segir Vigdís.

Vigdís segir að sjálfsöryggi og sjálfsmynd íslenskra kvenna hafi mikið breyst á undanförnum árum og að konur séu hættar að afsaka tilveru sína.

„Ég átti í sjálfu sér ekki von á neinu, hvað jafnréttismál varðar, þegar ég tók við þessu embætti. En ég sé það núna að það að ungar stelpur hafi alist upp við að sjá konu í þessu embætti sem ég gegndi um skeið hefur breytt miklu og ég dáist að íslensku þjóðinni fyrir að hafa orðið fyrst til að þora  að kjósa konu í þetta embætti. Mér hefur alltaf þótt börn sérstaklega skemmtilegur hópur í þjóðfélaginu og ber mikla virðingu fyrir þeim. Það var nú hlegið að því í byrjun þegar mér datt í hug að gróðursetja með þeim tré, en ég hafði ekkert að gefa þeim og datt í hug að gefa þeim tré sem nú eru orðin að skógi. Það er það sem stendur upp úr í mínu lífsstarfi –  að gefa ungum stúlkum sjálfstraust og gera landið grænna. Svo var reyndar ógurlega gaman að vera leikhússtjóri,“ segir Vigdís að lokum.

-VAG

Shopping cart0
There are no products in the cart!
Continue shopping
0