Ef Öskjuhlíðin, hæð sem rís upp suðaustan við miðbæ Reykjavíkur væri í Danmörku, væri þessi hóll líklega kallaður fjall. Enda blasir Öskjuhlíðin við af öllu höfuðborgarsvæðinu, með Perluna, hitaveitutanka byggða árið 1991 sem sterkt kennileiti. Þeir komu í stað hitaveitutanka sem voru byggðir 1940, þegar fyrstu skrefin voru farin í að hitaveituvæða Reykjavík. Tæplega þrjátíu árum áður var mikið grjótnám úr Öskjuhlíð, þegar grjót var flutt með lest, þeirri einu sem verið hefur á Íslandi, til að byggja upp Reykjavíkurhöfn eins og við þekkjum hana í dag. Í suðurhlíðum Öskjuhlíðar er stærsti kirkjugarður landsins, Fossvogskirkjugarður, vígður árið 1932. Fyrir vestan kirkjugarðinn, er mikið skógræktarsvæði, útivistarsvæði en byrjað var að planta trjám í sunnan og vestanverðum hólnum fyrir um 70 árum síðan. Þar má finna leifar seinni heimstyrjaldarinnar, en bandamenn byggðu þar vígi til að verja Reykjavíkurflugvöll. en flugvöllurinn stendur nú í stappi að fá að höggva hluta skógarins, hæstu trén eru farin að trufla flugtök og lendingar á austur vestur brautinni. Öskjuhlíð er óvenjulegur staður, vin til að njóta útiveru, náttúru, og sjá og horfa yfir höfuðborgarsvæðið og sundin blá.
Reykjavík 09/07/2024 : RX1R II, A7C R – 2.0/35mm Z, FE 1.8/20mm G
Ljósmyndir & texti : Páll Stefánsson