Fimmvörðuháls vinsælastur í ár

Fimmvörðuháls vinsælastur í ár

Sumardagskrá Útivistar býður að vanda upp á fjölda ferða fyrir alla þá sem vilja komast út í náttúruna og njóta hennar í góðum félagsskap.  Útivist er áhugamannafélag um ferðalög og holla útiveru og leggur áherslu á að bjóða upp á góðar ferðir á eins góðu verði og kostur er.  Ekki síst er áhersla á að ferðirnar séu skemmtilegar.
Að sögn Skúla H. Skúlasonar starfsmanns Útivistar nýtur Fimmvörðuháls mikilla vinsælda í ár,  enda gengið í gegnum eldstöðvarnar frá 2010 sem er einstök upplifun. Útivist á skemmtilegan skála efst á Fimmvörðuhálsi sem er aðeins 2-3 kílómetra frá gosstöðvunum. Félagið er með ferðir á hálsinn flestar helgar sumarsins og er ýmist að göngunni sé skipt í tvo áfanga og gist í skálanum eða farið yfir á einum degi og gist í Básum.

„Hjá Útivist segjum við gjarnan að hjartað slái í Básum á Goðalandi og hvergi sé betra að vera á sumardögum en einmitt þar,“ segir Skúli.  „Skálarnir taka yfir 80 manns í gistingu, en vissara getur verið að bóka gistingu þar með góðum fyrirvara, sérstaklega ef ætlunin er að vera þar um helgi. Það þarf þó ekki að stoppa neinn í að heimsækja Bása því þar eru skjólgóð og falleg tjaldsvæði. Þótt Goðaland sé ekki hin eiginlega Þórsmörk þá er gjarnan talað um Þórsmerkursvæðið beggja megin Krossár. Náttúran þarna er einstök og óendanlega mikið af skemmtilegum gönguleiðum sem henta öllum.“
SkælingarÚtivist hefur byggt upp góða skála að Fjallabaki sem henta vel þeim sem vilja ferðast um það einstaka svæði.  Innan við Mælifell á Mælifellssandi í fallegu dalverpi er Strútsskáli sem var byggður af Útivistarfélögum fyrir 10 árum síðan. Í göngufæri frá skálanum er Strútslaug og út frá skálanum er hægt að fara í mjög skemmtilegar dagsgöngur. Þess vegna gaf Útivist út nýtt gönguleiðakort af svæðinu núna í vor og fæst það bæði á skrifstofu Útivistar og hjá skálavörðum í Strútsskála.  Þá er ágætt tjaldsvæði við skálann.
Hverasvæði í ReykjadölumNýjast skáli Útivistar er Dalakofinn í Reykjadölum. Þar hefur verið byggð upp góð aðstaða og hentar hann mjög vel fyrir gönguhópa í bækistöðvaferð. „Nágrenni skálans ber þess glöggt merki að vera eitt mesta háhitasvæði landsins og þar finnast einstök hverasvæði,“ segir Skúli.“Í sumar verðum við með skálavörð í skálanum og því hægt að fá í leiðsögn um nágrennið. Náttúran þar er viðkvæm og því er brýnt að umgengni sé góð, en hugi menn að því hvar þeir stíga niður fæti er mjög skemmtilegt að ferðast þarna um.“
UtivistStrutsskaliMaelifellsandurMeðal spennandi ferða í sumar má nefna fjögurra daga ferð í Lónsöræfi þar sem höfð er bækistöð í Múlaskála og gengið um þetta einstaka gönguland. Lónsöræfi er svæði sem allir náttúru-unnendur þurfa að heimsækja. Þá verður gengið niður Austurdal í Skagafirði frá skálanum Grána.  Austurdalur er einstakur fyrir þá gróðursæld sem þar er á bökkum jökulsárinnar. Það sem gerir þessa ferð ennþá skemmtilegri er að þarna verður farangur trússaður á hestum eins og vera ber, enda ekki akvegur fram dalinn. Síðast en ekki síst, eru gönguleiðirnar um Sveinstind-Skælinga og Strútsstíg alltaf vinsælar. Þar er gengið um stórkostlegt landsvæði að Fjallabaki og þangað ættu allir að koma að minnsta kosti einu sinni á ævinni.

Basar utivistbasar utivist islandFerðafélagið Útivist
Laugavegur 178 • 105 Reykjavík
+354 562 1000
[email protected]
www.utivist.is