Arkitektastofan Basalt

Sigríður Sigþórsdóttir stofnandi og einn eiganda arkitektastofunnar Basalt, stýrir í samstarfi við Hrólf Karl Cela, Marcos Zotes og Perlu Dís Kristinsdóttur, kraftmiklu teymi arkitekta og hönnuða sem búa yfir ríkri og víðtækri reynslu arkitektúrs, hönnunar og byggingalistar bæði hérlendis og erlendis.

Basalt var stofnað árið 2009 og telur starfsmannahópurinn um 25 starfsmenn í dag. Sinna þeir hönnun á mismunandi verkefna af hinum ýmsu stærðargráðum, en hafa verk arkitekta fyrirtækisins hlotið fjölda verðlauna og viðurkenninga.

Bláa Lónið

Ferill Sigríðar hófst í Svíþjóð eftir stúdentspróf frá Akureyri, en hún og eiginmaður hennar, Hallmar Sigurðsson heitinn héldu til Stokkhólms þar sem Sigríður lagði stund á nám í listasögu. Ekki leið þó á löngu þar til arkitektúrinn kveikti í henni og má segja að sá neisti hafi aldeilis orðið að báli.

Velgengni, nákvæmni og útsjónarsemi einkenna verk hennar sem arkitekt, til viðbótar við sterka umhverfisvitund. Segir Sigríður eitt það helsta sem standi upp úr á ferlinum sé hönnun Bláa Lónsins, en hún er arkitekt allra mannvirkja þess. Hefur starf hennar viðkomandi Bláa Lóninu staðið yfir í um þrjá áratugi, eða frá því að undirbúningur þeirra hófst  um miðjan níunda áratuginn og hefur hönnunin hlotið lof bæði hérlendis og utan landsteinanna.

Vök Baths við Urriðavatn

Hlaut arkitektastofan Basalt svo Hönnunarverðlaun Íslands árið 2018 fyrir framlag sitt til íslenskrar baðmenningar en stofan hefur lagt ríkulega til þróunar baðstaða og baðmenningar á Íslandi. Má einnig nefna hönnun þeirra á Hofsós sundlauginni, GeoSea sjóböðum Húsavíkur, Vök við Urriðavatn, Guðlaugu á Akranesi, Skógarböðin á Akureyri,  svo og hönnun The Retreat hótelsins við Bláa lónið í samstarfi við Design Group Italia. Árið 2019 hlaut afrakstur þess samstarfs ein virtustu og eftirsóttustu hönnunarverðlaun heims, Red Dot, í flokknum „Best of the Best.“ fyrir framúrskarandi hönnun á hótelinu. Að auki hlaut stofan ein virtustu  alþjóðlegu verðlaun í byggingarlist „Architecture Masterprize“ fyrir The Retreat sama ár.

 

Leggur teymi Basalts áherslu á sérkenni hvers verkefnis og tekur þá til umhverfis-, landfræði-, menningar og sögulegs samhengis, sem er kjarninn í hönnunarnálgun stofunnar. Fyrir vikið uppfylla hönnuðirnir ýtrustu hagsmuni viðskiptavinarins og einstaka upplifun á sama tíma.

Skógarböðin á Akureyri

Áhugavert er að nefna að Basalt er einn af stofnaðilum í Green Building Council (Grænni Byggð) sem og Nordic Built sem meðal annars miða að sjálfbærri þróun byggðar. Þar er lögð áhersla á að efla umhverfisvitund og virkja grænar aðgerðaáætlanir fyrir byggingar- og mannvirkjageirann, yfirvöld hvött til að setja á löggjöf sem beinir markaðnum í sjálfbærari átt og er fræðsla, tenging og hvatning hagsmunaaðila í byggingargeiranum í forgrunni.

Hafa starfsmenn Basalts heilt yfir fengist við margbreytileg og misstór verkefni og tekið allt mögulegt að sér, enda bjóði markaðurinn lítið upp á sérhæfingu í faginu. Segir Sigríður vinnu- og sköpunargleðina sem ríkir innan veggja Basalts, endurspegla velgengnina þar og unnið sé sem ein heild, enda gott andrúmsloft og samvinna gulli betri.

GeoSea, sjóböðin á Húsavík
Sundlaugin á Hofsósi
Guðlaug Akranesi
Landspítali Meðferðarkjarni
Laugin í Kerlingafjöllum