Ríkisútvarpið með fimmtungshlut í tekjum fjölmiðla árið 2016
11. apríl 2018
Verulegur samdráttur varð í tekjum fjölmiðla (þ.e. blaða og tímarita, hljóðvarps og sjónvarps og vefmiðla) í kjölfar efnahagshrunsins 2008. Frá árunum 2007 til 2010 lækkuðu tekjur fjölmiðla um fjórðung reiknað á verðlagi ársins 2016. Þrátt fyrir tilfinnanlegan samdrátt í tekjum er þetta þó talsvert minna en víða annars staðar¹. Mestu munar um samdrátt í auglýsingatekjum, en þær eru nú um fjórðungi lægri en þegar þær voru hæstar, reiknað á verðlagi 2016. Tekjur fjölmiðla af notendum hafa hins vegar lækkað um níu af hundraði. Síðustu ár hafa tekjur fjölmiðla lítillega hækkað og er nú svo komið að þær eru að raunvirði sambærilegar og skömmu eftir aldamótin (sjá mynd 1).
Tekjusamdráttarins gætir á ólíkan hátt eftir miðlum. Hann er tilfinnanlega mestur í útgáfu blaða og tímarita, sem rekja má að miklu leyti til breyttrar fjölmiðlanotkunar með tilkomu nýrra og fjölbreyttari leiða við miðlun sjónvarps og myndefnis og sífellt aukinnar netnotkunar almennings. Tekjur af útgáfu blaða- og tímarita hafa þannig lækkað að raunvirði um 45 af hundraði frá árinu 2006. Á sama tíma eru tekjur hljóðvarps og sjónvarps að mestu sambærilegar og er mest var árið 2007 á meðan tekjur vefmiðla hafa hins vegar margfaldast á föstu verðlagi (sjá töflu 1).
Tafla 1. Tekjur eftir tegund fjölmiðla á föstu verðlagi 1986-2016 (vísitala 100=2016) | ||||||
Fjölmiðlar, alls | Dagblöð og vikublöð | Tímarit og önnur blöð | Hljóðvarp | Sjónvarp | Vefmiðlar | |
1986 | .. | 137 | .. | 60 | 22 | . |
1987 | .. | 154 | .. | 64 | 37 | . |
1988 | .. | 159 | .. | 62 | 47 | . |
1989 | .. | 147 | .. | 66 | 50 | . |
1990 | .. | 145 | .. | 69 | 51 | . |
1991 | .. | 148 | .. | 72 | 53 | . |
1992 | .. | 138 | .. | 70 | 53 | . |
1993 | .. | 128 | .. | 70 | 53 | . |
1994 | .. | 126 | .. | 70 | 53 | . |
1995 | .. | 115 | .. | 70 | 56 | . |
1996 | .. | 122 | .. | 77 | 58 | . |
1997 | 79 | 123 | 112 | 79 | 64 | .. |
1998 | 87 | 136 | 123 | 83 | 71 | 2 |
1999 | 96 | 146 | 162 | 91 | 76 | 6 |
2000 | 99 | 144 | 176 | 90 | 83 | 11 |
2001 | 100 | 131 | 183 | 87 | 91 | 8 |
2002 | 96 | 124 | 186 | 83 | 88 | 7 |
2003 | 95 | 128 | 150 | 88 | 85 | 10 |
2004 | 98 | 143 | 151 | 85 | 84 | 17 |
2005 | 110 | 169 | 171 | 90 | 92 | 16 |
2006 | 120 | 189 | 168 | 92 | 101 | 18 |
2007 | 120 | 178 | 173 | 99 | 103 | 23 |
2008 | 111 | 153 | 149 | 96 | 101 | 27 |
2009 | 91 | 98 | 134 | 89 | 94 | 26 |
2010 | 89 | 93 | 109 | 87 | 93 | 29 |
2011 | 93 | 104 | 102 | 86 | 96 | 51 |
2012 | 91 | 99 | 100 | 86 | 95 | 48 |
2013 | 91 | 99 | 103 | 83 | 94 | 52 |
2014 | 92 | 97 | 100 | 89 | 93 | 65 |
2015 | 94 | 93 | 101 | 90 | 96 | 87 |
2016 | 100 | 100 | 100 | 100 | 100 | 100 |
Tekjur í millj. kr. 2016 | 26.970 | 7.025 | 1.435 | 3.497 | 12.986 | 2.027 |
Skýring: Dagblöð og vikublöð: dagblöð eingöngu 1986-1994. |
Breytt fjölmiðlaneysla almennings endurspeglast að nokkru í breyttri skiptingu á tekjum fjölmiðla milli ára eins og mynd 2 sýnir. Árið 2016 féllu 48 prósent fjölmiðlatekna til sjónvarps samanborið við 40 af hundraði árið 2000. Hlutur hljóðvarps stendur nær óbreyttur, eða 13 af hundraði árið 2016 samanborið við 12 prósent árið 2000. Hlutdeild tímarita hefur farið úr níu í fimm af hundraði á sama tíma. Mestur var samdráttur í blaðaútgáfu, en hlutdeild dag- og vikublaða í tekjum fjölmiðla lækkaði úr 38 í 26 af hundraði. Á sama tíma hefur þáttur vefmiðla aukist úr einu prósenti í átta af hundraði.
Mynd 2. Hlutfallsleg skipting fjölmiðlatekna eftir tegund fjölmiðla 2000 og 2016, %
Af tæplega 29 milljarða króna tekjum fjölmiðla árið 2016 runnu 21,2 milljarðar króna til fjölmiðla í einkaeigu á móti 5,8 milljörðum króna til Ríkisútvarpsins. Frá árinu 1997 hefur hlutur Ríkisútvarpsins í heildartekjum fjölmiðla lækkað úr 26 af hundraði í 21 af hundraði árið 2016 (sjá mynd 3).
Fyrstu árin eftir að einkaréttur Ríkisútvarpsins til útvarpsendinga var afnuminn í ársbyrjun 1986 lækkaði hlutdeild þess í tekjum hljóðvarps og sjónvarps hratt með tilkomu einkarekinna hljóðvarps- og sjónvarpsstöðva. Frá því um aldamót að telja hefur hlutdeild Ríkisútvarpsins haldist nær óbreyttur. Árið 2016 féllu um 59 af hundraði og 29 af hundraði af tekjum hljóðvarps- og sjónvarpsstarfsemi í hlut Ríkisútvarpsins, eða 35 af hundraði af samanlögðum tekjum hljóðvarp- og sjónvarps.
Árið 2016 runnu 11,5 milljarðar króna af auglýsingatekjum fjölmiðla til einkaaðila á móti tæpum tveimur milljörðum króna sem féllu í hlut Ríkisútvarpsins. Árið 2016 nam hlutdeild Ríkisútvarpsins í auglýsingatekjum fjölmiðla laust 15 af hundraði. Á sama tíma nam hlutdeild þess í auglýsingatekjum hljóðvarps 35 af hundraði og 39 af hundraði í auglýsingatekjum sjónvarps. Samanlögð hlutdeild Ríkisútvarpsins á útvarpsmarkaði var 38 af hundraði. Fyrstu árin eftir afnám einkaréttar Ríkisútvarpsins til hljóðvarps- og sjónvarpsútsendinga lækkaði hlutur Ríkisútvarpsins í auglýsingatekjum hratt. Á næstu árum eftir efnahagshrunið 2008 hækkaði hlutdeild þess nokkuð en hefur aftur farið lækkandi síðustu ár (sjá mynd 4).
Um gögnin
Upplýsingar um tekjur fjölmiðla eru fengnar frá rekstraraðilum fjölmiðla til Fjölmiðlanefndar frá 2011 og Hagstofu Íslands og úr ársreikningum. Í þeim tilfellum þegar upplýsingar frá rekstraaðilum skortir eru tekjurnar metnar út frá virðisaukaskatti og öðrum tiltækum upplýsingum. Fjölmiðlatekjur eru hér skilgreindar sem tekjur fjölmiðla af sölu til notenda (áskriftir, lausa- og þáttasala auk nefskatts sem rennur til Ríkisútvarpsins) og af birtingu og flutningi auglýsinga ásamt kostun. Upplýsingar um tekjur einstaka einkarekna fjölmiðla eru ekki gefnar upp.
¹Áætlað er að bandarískir fjölmiðlar hafi séð á bak 40 af hundraði af tekjum í kjölfar bankakreppunnar þar í landi árið 2008 (R. G. Picard, The Economics and Financing of Media Companies. 2. endursk. útg. New York: Fordham University Press, 2011).