Sjávarfallavirkjun í Þorskafirði
Hugmyndir um sjávarfallavirkjun þvert yfir Þorskafjörð, sem einnig myndi þjóna sem brú, hafa vakið talsverða athygli sem einn möguleika í framtíðarlegu Vestfjarðarvegar um Gufudalssveit í Reykhólahreppi. Sjávarfallavirkjanir hafa þar til nú ekki farið hátt í samfélagsumræðunni, en helsti hugmyndasmiður virkjunarinnar, Bjarni M. Jónsson, sérfræðingur í auðlindastjórnun, telur að hér sé um að ræða lausn sem þjóni óskum heimamanna um bættar samgöngur og á sama tíma beisli áður ónýtta orkuauðlind án þess að raska lífríki svæðisins á verulegan hátt.
Kjöraðstæður í Þorskafirði
Sjávarfallavirkjannir geta verið af margvíslegum toga, en sú sem hér um ræðir nýtir sér fallhæð flóðs í firðinum. Það er gert með því að reisa garð þvert yfir mynni Þorskafjarðar frá Reykjanesi yfir á Skálanes sem, með sérstökum lokum, hleypir flóðinu inn í fjörðinn. Þegar hættir að flæða inn í fjörðinn falla lokurnar að stöfum og varna því að sjórinn fari sömu leið út. Þá er beðið í ákveðinn tíma þar til hæðarmunur sjávar er nægjanlegur sitt hvoru megin við garðinn, en þá er vatni hleypt á þar til gerðar vélar sem fara þá að framleiða raforku. Notuð er hefðbundin tækni við orkuframleiðsluna sem komin er á áratuga reynsla við virkjun sjávarfalla víða í heiminum. Eftir umtalsverðar rannsóknir telur Bjarni að aðstæður fyrir slíka virkjun séu líklega hvergi betri við Ísland heldur en í Þorskafirðinum. „Flóðahæðin er að öllum líkindum hæst á öllu landinu í Breiðafirði, en til að hámarka nýtingu slíkra virkjanna þarf að ná sem mestri hæð. Það hefur komið í ljós við mælingar að jafnaðarflóðahæðin í Þorskafirði er um 3.6 metrar og fer hátt í sex metra þegar mest er, sem er töluverð hæð í þessu samhengi,“ segir Bjarni.
Þannig gæti virkjun í Þorskafirði framleitt um 180 gígavattstundir á ári, en Bjarni bendir á að það sé svipað því sem allir Vestfirðir noti á ári hverju. „Það má benda á það að á Vestfjörðum er í dag ekki framleitt nægilega mikið rafmagn fyrir svæðið sjálft og þarf því að flytja rafmagnið að annars staðar frá. Í ofanálag má svo benda á að hæsta bilanatíðni á raforkukerfi landsins er hér á Vestfjörðum,“ segir Bjarni. Þetta segir hann geta komið niður á atvinnulífi svæðisins, en aðilar sem mögulega hefðu áhuga á einhverskonar framleiðslu á svæðinu hugsi sig líklega tvisvar um þegar orkuframboðið er með þeim hætti.
Sjávarfallavirkjun sem þessi er þó alltaf háð flóði og fjöru og getur því ekki framleitt rafmagn allan sólarhringinn. „Þetta er lotubundin framleiðsla sem myndi framleiða 10-11 klukkutíma á sólarhring og þyrfti þá að flytja inn rafmagn þann tíma sem framleiðslan liggur niðri. Þessu má því líkja við vindmyllur, nema að það er alltaf vitað fram í tíman hvenær framleiðslan mun eiga sér stað og það má þá stilla það af við framleiðslu sem þolir lotubundna framleiðslu á rafmagni,“ segir Bjarni.
Framtíðarlega Vestfjarðarvegar
Framtíðarlega vestfjarðarvegar hefur verið talsvert umdeild og ekki allir á eitt sáttir um hvaða leið sé best að fara. Það hefur komið fram í máli Ögmundar Jónassonar, innanríkisráðherra, að svokölluð hálsaleið, sem færi um Ódrjúgsháls og Hjallaháls, sé ekki lengur inni á borðinu og hafa dómstólar þegar ályktað að tillaga Vegargerðarinnar um að fara þvert yfir Gufufjörð og Djúpafjörð og um utanverðan Þorskafjörð í gegnum Teigsskóg, eða leið B, verði heldur ekki farin. Það þýðir þó ekki að sjávarfallavirkjunin, eða Leið A, verði fyrir valinu, en innanríkisráðherra hefur lýst því yfir að ólíklegt sé að verði farið í dýra framkvæmd sem slíka á næstu misserum, en kostnaðurinn er talinn vera á milli 10 og 14 milljarðar.
Bjarni bendir þó á að forkannanir sýni að virkjun í Þorskafirði geti staðið undir sér og farið að skila hagnaði eftir um tíu ár og þar með borgað brúnna og veginn yfir fjörðinn. „Framkvæmdin myndi því í raun ekki lenda á skattgreiðendum. Það hefur sýnt sig að orkuverð fer sífellt hækkandi og heimurinn er í raun að kalla á græna orku. Ef þetta yrði svo gert í samvinnu við Landsvirkjun, gæti hún þá slegið af öðrum virkjunum og safnað í lón á meðan Þorskafjarðarvirkjunin væri að framleiða,“ segir Bjarni.
Umhverfisáhrif í lágmarki
Bjarni segir að umhverfisáhrif virkjunnar af þessum toga séu litlar, enda sé ekki um eiginlega stíflu að ræða þar sem vatninu er hleypt út úr firðinum reglulega. Áhrif virkjunarinnar á lífríki í fjörum sé einnig í lágmarki og bendir Bjarni á að virkjunin myndi aðeins raska tveimur fjörum á meðan vegagerð yfir þrjá firði, eins og lagt er til í Leið B, myndi raska lífríki í alls sex fjörum. Fiskar komist sem áður inn í fjörðinn með flóðinu og aftur út þegar sjónum er sleppt út, en hverflarnir í vélunum snúast mjög hægt og yrði því fiskdauði sambærilegur því sem þekkist í laxastigum, eða 5-7%, að sögn Bjarna.
Bjarni M. Jónsson
Heimamenn vilja virkjun
Á íbúafundi í héraðinu kom fram að 85% aðspurðra voru fylgjandi því að fara Leið A og töldu að verkefnið hefði hagsæld í för með sér fyrir svæðið. Þá hefur sveitastjórn Reykhólahrepps sent viðkomandi ráðuneytum bókun þar sem kemur fram vilji sveitastjórnarinnar að Leið A verði skoðuð.
Björn Samúelsson á Reykhólum, sem hefur siglt með ferðamenn um Breiðafjörð í áraraðir og þekkir svæðið því vel, er nokkuð afdráttalaus í máli sínu gagnvart öðrum kostum en Leið A, en hann telur aðrar tillögur ekki til þess fallnar að auka hag vestfirðinga. „Það væri fásinna að fara upp hálsana þegar það er skýr krafa um að fá hér láglendisveg. Ef hægt væri að ná samstöðu um virkjun yfir Þorskafjörðin væri hægt að byggja hér upp til framtíðar fyrir samfélagið. Í því samhengi ber fyrst að horfa til þeirrar atvinnu sem virkjunin myndi skapa fyrir héraðið, en virkjunin sjálf myndi skapa 12-15 ársverk, 13-25 afleidd störf og svo 300-400 ársverk á meðan verkinu stæði og munar nú um minna í þessu árferði. Vegurinn myndi svo tengja okkur við þjóðbraut, sem að sama skapi myndi bæta hag okkar til muna. Svo hljótum við að spyrja okkur hvort sé verið að hugsa til framtíðar í umhverfismálum því við verðum brátt komin út í horn með virkjanakosti, en vatnsfallsvirkjannakostum fer stöðugt fækkandi og hljótum við því að þurfa að snúa okkur að öðru,“ segir Björn.
Hugmyndasmiðurinn, Bjarni, segir að ákvörðunin um virkjunina hljóti þó að verða tekin á pólitískum forsendum á endanum. „Þetta er auðvitað nýjung og það þarf ef til vill svolítinn kjark til að taka þessa ákvörðun, en þetta er þjóðhagslega hagkvæmt mál sem kæmi samfélaginu til góða og vonumst við auðvitað til þess að verkefnið hljóti brautargengi,“ segir Bjarni.