Andreas Eriksson

Andreas Eriksson 4. febrúar – 3. apríl 2021 Opnun á morgun, 4. febrúar klukkan 12-19 Andreas Eriksson vinnur senn í málverk, vefnað, skúlptúr, ljósmyndun, hreyfimyndir og innsetningar. Sem málari einbeitir Andreas sér að möguleika áferðar í myndmiðlinum og notar ólíkar gerðir málningar í sama verki, þar með talið olíu, akrýlmálningu og eggtemperu. Þessi ólíka samblöndun verður til þess að striginn öðlast mismunandi áferðir með mörgum lögum, mismunandi þykkt og gljástig, svo áhorfandinn verður var við hönd listamannsins að baki verkinu. Í verkunum gætir einstakrar birtu, sumar bjartar aðrar dimmar. Blæbrigði áferðarinnar og mismunandi litaskalar tengja málverk hans við veröld náttúrunnar þar sem heimur Andreasar fetar sig á milli hins hlutbundna og óhlutbundna. Í málverkunum er enginn eiginlegur sjóndeildarhringur sem fær áhorfandann til að hverfa frá því að túlka þau sem landslagsmálverk, en vísun í grasafræði og jarðlitirnir allir staðsetja myndirnar óumdeilanlega í náttúrunni. Andreas hefur gjarnan lýst verkum sínum sem „tilvistarlandslagi“; málverkin eru því innri leit listamannsins, en þó er greinilegt að uppsprettan er umhverfið og staðhættir í kringum heimili hans sem stendur við stöðuvatn í Svíþjóð. Verk hans eru gjarnan tengd við hefð norrænnar rómantíkur í málaralist og nefnir hann gjarnan Edvard Munch (1863-1944) og Jóhannes Sveinsson Kjarval (1885-1972) sem áhrifavalda í list sinni. Árið 2014 stýrði hann sýningunni Efsta lag á Kjarvalstöðum þar sem hann valdi saman verk eftir sjálfan sig og Kjarval og dró fram andlegan skyldleika þessara tveggja listamanna. Árið 2017 tók Andreas Eriksson þátt í samsýningu í i8 galleríi.

 

 Andreas Eriksson  fæddist í Björsäter í Svíþjóð. Hann býr og starfar í Medelplana í Svíþjóð, á suðurbakka stöðuvatnsins Vänern. Hann var fulltrúi Svíþjóðar í norræna skálanum á 54. Feneyjartvíæringnum (2011) og á að baki margar mikilsverðar einkasýningar, m.a. í Norræna vatnslitasafninu á eynni Tjörn í Svíþjóð (2020); „Snæminningar“, Cahiers d‘art, París, Frakklandi (2020); „Úrklippur, mistök og þræðir“, Safn Braunsfelderfjölskyldunnar, Köln, Þýskalandi (2019); „Verk í vinnslu“, Skissernas Museum, Lundi, Svíþjóð (2017); „Krókaleiðir“, Bonniers Konsthall, Stokkhólmi, Svíþjóð og ferðaðist sú sýning áfram til Trondheim Kunstmuseum, Þrándheimi, Noregi, Centre PasquArt, Biel, Sviss og til Listasafns Reykjavíkur (2014-2015). Verk hans má finna í mikilvægum alþjóðlegum söfnum og má þar nefna Centre Pompidou í París, FRAC Auvergne í Clermont-Ferrand í Frakklandi; MUMOK í Vín; Nasjonalmuseet í Osló; Moderna Museet í Stokkhólmi og X Museum í Pekíng.  mynd: Andreas Eriksson, Fjället, 2020, egg olíu tempera, akrýl, olía á striga, 82 x 64 x 3.5 cm, (AEL0011)   i8 Gallery Tryggvagata 16 101 Reykjavík

Andreas Eriksson – From Sketch to Tapestry / Nordiska Akvarellmuseet 2020–2021 (eng sub) See video here

Shopping cart0
There are no products in the cart!
Continue shopping
0